Jafnvægisvogin er hreyfiaflsverkefni unnið í samstarfi með Creditinfo, Deloitte, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, Pipar\TBWA, RÚV, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjóvá. Jafnvægisvogin veitir árlega viðurkenningar til þeirra þátttakenda sem hafa náð að jafna kynjahlutfall í framkvæmdastjórnum. Árið 2024 var metfjöldi viðurkenningarhafa, alls 130 aðilar.
Árið 2019 settu forsætisráðuneytið og Félag kvenna í atvinnulífi sér það markmið að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi. Nú eru tæp tvö ár til stefnu og vænlegast væri að sjá skref í átt að settu markmiði. En hvernig er staðan?
Samkvæmt spálíkani sem Dr. Ásta Dís Óladóttir, prófessor við Háskóla Íslands og formaður Jafnvægisvogarinnar, setti fram mun markmiðið ekki nást að óbreyttu nema verulegar breytingar eigi sér stað. Miðað við núverandi þróun mun markmiðið reyndar alls ekki nást fyrr en eftir tæp 30 ár. Þessi staða er óásættanleg, sérstaklega í landi sem oft er talið vera fyrirmynd jafnréttis.
Þegar rýnt er í tölur úr mælaborði Jafnvægisvogarinnar, sem finna má á heimasíðu verkefnisins (fka.is/verkefni/jafnvaegisvogin) má sjá að árið 2024 er aðeins 21% framkvæmdastjóra á Íslandi konur. Undanfarin þrjú ár hefur fjölgun kvenna í framkvæmdastjórastöðum verið afar hæg – einungis rétt undir einu prósentustigi en árið 2021 var hlutfallið 20,1%.
Af 28 skráðum félögum á markaði eru fimm þeirra sem hafa enga konu í framkvæmdastjórn og karlkyns forstjórar stýra þeim öllum. Félögin fimm uppfylla þó lágmarksskilyrði kynjakvótalaganna, með konur sem 40% stjórnarmanna. Auk þess er eitt félag, af þessum 28, sem framfylgir ekki lögum um kynjakvóta á stjórnir félaga.
Þessi staða er langt frá settum markmiðum og vekur spurningar um hindranir í vegi kvenna í æðstu stjórnunarstöður.
Nýleg rannsókn Þóru H. Christiansen, Ástu Dísar Óladóttur og Hrefnu Guðmundsdóttur um stjórnendaleit og áhrif ráðgjafa í því ferli sýnir fram á að það er ekki bara stjórnarfólk sem ber ábyrgð þegar kemur að kynjahalla í íslensku atvinnulífi. Ráðgjafar gegna mikilvægu hlutverki í að móta ráðningarferlið með því að útbúa lista af kandídötum, byggða á tengslaneti og faglegu innsæi, en valferlið er oft óformlegt og æðstu stöður sjaldan auglýstar. Svo virðist sem kynbundin viðmið geti haft áhrif á það hverjir komast á „listann“ yfir kandídata sem kynntir eru fyrir stjórn og byggist það á karllægum leiðtogaviðmiðum sem hafa neikvæð áhrif á framgang kvenna í æðstu stjórnendastöður. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að þó að ráðgjafar leitist við að auka kynjajafnvægi, komi konur oft síður til greina vegna hefðbundinna matsferla þar sem karllægir eiginleikar eru oft í forgangi. Á sama tíma gegna ráðgjafar lykilhlutverki í að mæta óskum viðskiptavina sinna um hentuga kandídata. Nýnæmi rannsóknarinnar felst í því að varpa ljósi á það hvernig ferli sem virðist hlutlaust getur stuðlað að kynjaójafnvægi og hvernig ráðgjafar í stjórnendaleit geta, með breyttum starfsháttum, haft áhrif á aukna fjölbreytni í ráðningum forstjóra. Rannsóknin leggur áherslu á mikilvægi kynjasjónarmiða í ráðningum til að stuðla að jafnrétti kynjanna á æðstu stigum atvinnulífsins.
Jafnvægisvogin er mikilvægt samfélagslegt verkefni sem hvetur þátttakendur til þess að vinna að markmiði Jafnvægisvogarinnar um að jafna hlutfall kynja í efsta lagi stjórnunar. Árlega er framkvæmd könnun meðal þátttakenda um stöðu kynja innan fyrirtækisins. Þeir þátttakendur sem náð hafa markmiðum Jafnvægisvogarinnar fá sérstaka viðurkenningu frá Jafnvægisvoginni, sem veitt er á árlegri viðurkenningarathöfn verkefnisins.
Vinnustaðir sem setja jafnrétti í forgang eru eftirsóknarverðir fyrir framsækið fólk, því rannsóknir hafa sýnt að aukið jafnrétti eykur starfsánægju og laðar að fólk. Það er því eftir miklu að sækjast .
Látum eitthvað gerast, jafnrétti er ákvörðun.
Höfundur: Bryndís Reynisdóttir, verkefnastjóri Jafnvægisvogar FKA