Silja Mist Sigurkarlsdóttir forstöðumaður markaðs- og þjónustusviðs og Björg Ársælsdóttir forstöðumaður mannauðs og menningar gegna báðar lykilstöðum hjá N1 en hjá félaginu starfa um 650 manns vítt og breitt um land.
Silja hefur verið forstöðumaður markaðs- og þjónustusviðs félagsins frá 2023, en þangað flutti hún með sér víðtæka reynslu annars staðar að úr atvinnulífinu úr fyrri stjórnunar- og stjórnarstörfum. Björg hóf störf 2015 sem sérfræðingur á fræðslusviði og er í dag forstöðumaður mannauðs og menningar en hjá félaginu starfa um 650 manns vítt og breitt um land.
Björg segir starfsemi N1 í stöðugri þróun í takt við áherslur og gildi samfélagsins á hverjum tíma. Það eigi meðal annars við um aukna áherslu á jafnréttis- og launamál til að jafna sem best laun og hlutföll kynja í starfsliðinu. „Við greiðum sömu laun fyrir jafn verðmæt störf á grunni vottaðs jafnlaunakerfis sem styður vel við stefnu félagsins. N1 hefur árlega frá 2015 hlotið jafnlaunavottun og var fyrst íslenskra olíufélaga til að hljóta hana,“ segir Björg. Hún segir ávinninginn verulegan í báðum tilfellum; dregið hefur úr launamun og konum fjölgað mikið í starfsliði fyrirtækisins.
Silja Mist og Björg eru stoltar af þeim árangri sem Jafnvægisvogin hefur fært félaginu í starfsemi sinni. N1 hefur hlotið Jafnvægisvogina þar sem viðurkennt er að öll kyn hafi sömu tækifæri innan fyrirtækisins. „Við erum sem heild virkilega stolt af því að tilheyra fyrirtæki sem sýnir í verki að jafnrétti skiptir máli,“ segir Björg og Silja bætir við að þegar komi að umræðu um jafnréttismál og jafnvægi milli hópa hljóti það að vera markmið til framtíðar að hún verði óþörf. „Ég tel til fyrirmyndar hvernig FKA, Félag kvenna í atvinnulífinu, hefur stöðugt haldið á loft þeirri hvatningu til fyrirtækja og stjórnenda að hafa jafnrétti að leiðarljósi við ráðningar og gæta til dæmis að því hvernig kynjahlutföll eru í efsta stjórnendalaginu,“ segir Silja.
„Við sjáum í reynd hvernig þessi vinna hefur skilað bættum árangri með sífellt jafnari launum en einnig hvað varðar hlutfall kvenna og karla í starfsliðinu alls staðar,“ segir Björg og tekur fram að fyrirtækið hvetji alla, óháð kyni, til að sækja um hvaða starf sem er hjá N1. „Við viljum umhverfi þar sem allir finna sig vel og geta þroskast og þróast í starfi óháð kyni. Það eflir liðsheildina. Þáttur í því markmiði er N1-skólinn.“
Grunnstoðir N1-skólans byggjast á því að þjálfa og fræða nýja og núverandi starfsmenn um þjónustu, vöruþekkingu, uppbyggingu og starfsemi N1 en ekki síður varðandi fagleg samskipti, stjórnun, öryggis- og gæðamál. Skólinn gegnir því lykilhlutverki varðandi þjálfun og endurmenntun starfsfólks óháð kyni. Björg segir skólann í stöðugri þróun. „Sem dæmi tókum við í notkun nýtt starfsmannaapp (símaapp) á árinu 2022 sem inniheldur meðal annars ákveðið fræðslukerfi á fjórum tungumálum. Þarna er hægt að nálgast námskeið af ýmsu tagi, fyrirlestra og fræðsluspretti á vegum Akademías sem snerta á ótal viðfangsefnum. Þetta hefur auðveldað upplýsingamiðlunina og gert hana markvissari og aðgengilegri fyrir starfsfólk enda er það vel sótt af starfsfólki sem sækir fræðslu þegar því hentar best,“ segir Björg sem telur skólann meðal annars hafa opnað augu margra fyrir nýjum tækifærum í starfsþróun sem annars hefðu mögulega verið utan sjóndeildarhringsins. Þetta sé því bæði ávinningur fyrir starfsfólkið og fyrirtækið.
Eins og áður segir er starfsemi N1 rótgróin á landsvísu enda sagan löng. Sagan er samtvinnuð viðburðaríkri samgöngu- og atvinnusögu landsmanna á sjó og landi sem skýrir ef til vill hversu víðfeðmt þjónustukerfi félagsins er. Það er næstum því sama hvert ekið er um landið eða lagst að bryggju; ávallt er þjónustu N1 að finna innan seilingar. N1 starfrækir um hundrað útsölustaði og þjónustustöðvar hringinn í kringum landið auk þess að reka fjölmörg verkstæði sem sinna hjólbarða- og smurþjónustu og smærri viðgerðum.
Silja Mist segir að sú góða þjónusta sem veitt sé á þjónustustöðvum félagsins vítt og breitt um landið væri ekki sú sem hún er í dag nema vegna þess að starfsfólk og stjórnendur hafi almennt mikinn metnað fyrir störfum sínum og búi yfir ríkri þjónustulund. „Það er meðal annars vegna þess að starfsfólk okkar hefur tækifæri til að vaxa og dafna í starfi og leita nýrra tækifæra innan vinnustaðarins. Þess vegna meðal annars eru þjónustunámskeiðin svo mikilvæg og við hvetjum okkar fólk til að taka þátt í framhaldsnámi sem styrkir það faglega og persónulega í starfi og eykur klárlega starfsánægju okkar fólks.“
Umhverfisvitund og kröfur samfélagsins um markvissar aðgerðir einstaklinga og atvinnulífsins í umhverfismálum sem leiða til aukinnar sjálfbærni, lægra kolefnisspors og breyttrar efnanotkunar, svo fátt eitt sé nefnt, eru sívaxandi áherslur í starfsemi fyrirtækja, ekki síst eldsneytissala á borð við olíufélögin sem lengst af hafa byggt starfsemi sína á sölu jarðeldsneytis. N1 er þar engin undantekning. „Við höfum frá upphafi verið mjög meðvituð um í hvaða átt þróunin yrði með tilkomu rafmagnsbílanna,“ segir Silja Mist. „Við tókum henni fagnandi og vorum strax staðráðin í að taka virkan þátt með uppbyggingu rafhleðslustöðva sem víðast um landið í samræmi við umhverfisstefnu félagsins. Nýjasti áfanginn í þeim efnum er uppsetning 150 nýrra hraðhleðslustöðva vítt og breitt um landið, bæði á okkar eigin vegum og í samstarfi við Tesla. Þetta er verkefni sem við stefnum að því að klára á næstu tveimur árum. Að auki hófum við nýlega sölu á 100% lífrænni dísilolíu sem er eingöngu framleidd úr lífrænum úrgangsefnum, til dæmis notaðri djúpsteikingarolíu og úrgangsfitu, sem minnkar útblástur óæskilegra lofttegunda um 90% og er verðugt framlag til umhverfismála.“
Björg og Silja Mist eru sammála um að N1 sé á mikilli hraðferð í vöruþróun sinni og leit að nýjum og spennandi tækifærum sem horfa til framfara á öllum sviðum starfseminnar og samfélagsins í heild. Þess vegna sé N1 svo skemmtilegur vinnustaður sem taki á svo fjölbreyttum þáttum í daglegu lífi landsmanna. „Þar er fótboltinn til dæmis engin undantekning,“ segir Silja því N1 hefur um áratugaskeið stutt dyggilega við bakið á strákamóti N1 í knattspyrnu sem KA á Akureyri sér um fyrir 5. flokk drengja. „Nú höfum við nýlega skrifað undir samning við KA um að stofna til sams konar fótboltamóts fyrir stúlkur á aldrinum 9 til 10 ára sem er í anda áherslna N1 á jafnrétti og jöfn tækifæri kynjanna. Mikilvægt er að hlúa að unga fólkinu, skapa jákvæðan vettvang fyrir börn og fjölskyldur til að hittast og spreyta sig í keppnisíþróttum og allir hafi sem jöfnust tækifæri,“ segja Silja Mist og Björg hjá N1.