Guðbjörg Ásbjörnsdóttir verslunarstjóri Michelsen og Þórhildur Garðarsdóttir, fjármála- og rekstrarstjóri Michelsen, segja falleg litrík úr í tísku um þessar mundir fyrir konur.
„Það er alltaf gaman að vera í forystuliðinu,“ segir Guðbjörg Ásbjörnsdóttir, verslunarstjóri Michelsen 1909 á Hafnartorgi. „Við munum halda upp á 116 ára afmæli Michelsen í sumar svo maður stendur á sterkum öxlum, ef svo má segja, þar sem fjórar kynslóðir Michelsen-ættarinnar hafa léð rekstrinum krafta sína,“ segir hún.
„Ég er stolt af þessari sögu – og að fá að taka þátt í að búa til úramenningu á Íslandi og tel ég blað brotið í sögunni þegar við opnuðum nýju Michelsen-búðina á Hafnartorgi. Þá opnaðist nýr heimur þar sem úrsmiðir eru sýnilegir í versluninni á bak við gler og þú færð þessa tilfinningu sem þú upplifir erlendis þegar þú gengur inn í hágæðaverslanir. Úrvalið á úrum er glæsilegt, við leggjum mikið upp úr að bjóða faglega og persónulega þjónustu og gott andrúmsloft í fallegu umhverfi. Þú getur sest niður og skoðað falleg Rolex-úr sem dæmi en við erum í samstarfi við stærstu úramerki í heimi og höfum verið með umboð fyrir Rolex-úr síðan 1981,“ segir Guðbjörg og þær Þórhildur Garðarsdóttir, fjármála- og rekstrarstjóri, byrja að rifja upp sögu fyrirtækisins þar sem hver kynslóð Michelsen-ættarinnar hefur náð undraverðum árangri í sínu fagi.
„J. Frank Michelsen sem var danskur úrsmiður kom til landsins árið 1907 og kynntist íslenskri konu. Elsti sonur hans, Franch Michelsen, lærði fyrst fagið hjá föður sínum og fór síðan til Kaupmannahafnar að læra í danska úrsmiðaskólanum. Sonur hans, Frank Ú. Michelsen, fór fyrstur Íslendinga í hinn virta úrsmíðaskóla WOSTEP í Sviss þar sem hann komst í samband við Rolex og að lokum fer Róbert sonur Franks, fjórða kynslóð, í sama skóla og útskrifaðist með hæstu einkunn. Hann hélt svo áfram í framhaldsnám í Sviss og starfaði þar um árabil sem úrsmíðakennari ásamt því að starfa sem aðalúrsmiður hins virta úraframleiðanda Urban Jurgensen & Sönner þar til hann flutti heim og starfar nú í fjölskyldufyrirtækinu,“ segja þær.
Þórhildur, sem var áður fjármálastjóri Forlagsins, segir að heill heimur hafi opnast fyrir hana, þegar hún hóf störf hjá Michelsen. „Ég var að fá fyrsta Breitling-úrið mitt og gæti ekki verið ánægðari með úrið. Michelsen-feðgarnir voru ekki lengi að benda mér á að Apple-úrið mitt væri mjög fínt íþróttaúr en ekki beinlínis úrið sem ég ætti að nota við síðkjólinn eða dragtina. Smátt og smátt fór ég svo að taka eftir fólki í kringum mig með falleg úr á hendinni, sem voru meira eins og skartgripir en eitthvað annað. Í dag er ég farin að skilja að það er mjög mikil sjálfsvirðing fólgin í því að vera með fallegt úr og eiguleg úr eru ekki einungis fyrir karlmenn,“ segir Þórhildur og brosir. „Ég fjárfesti í Breitling-úri sem er silfurlitað, skreytt með demöntum og með perlulitaðri skífu. Það er alveg gullfallegt og hentar mér mjög vel dagsdaglega þar sem ég kann vel við mig í fallegum jakka, gallabuxum og strigaskóm,“ segir Þórhildur.
Guðbjörg segir mikilvægt að hafa úrsmiði til að þjónusta úrverkin. „Í Rolex sem dæmi, sem er mekanískt sjálfvinduúr, eru um 300 örsmáir hlutir, og það þarf mikla nákvæmnisvinnu að halda úrinu við. Úr þarf viðhald líkt og allar litlar vélar þar sem þau eru tekin í sundur, þrifin, smurð og pússuð upp á nýtt. Úrsmiðirnir okkar styðja líka sölufólkið með umframþekkingu um hvaðeina sem fólk hefur áhuga á að vita um úrin sín.“
Þær segja lengi hafa þekkst að karlmenn fjárfesti í úrum. „Það er svo persónulegt að velja sér úr og það er stöðutákn að vera með fallegt úr, því gleður það okkur mikið að sjá að konur eru nú í auknum mæli að fjárfesta í fallegum úrum.“
Hvernig er tískan þegar kemur að úrum fyrir árið 2025? „Það eru glæsileg úr með sportlegu ívafi. Fyrir okkur konurnar er nú að verða vinsælt að velja sér úr með fallegum lit í skífunni. Ekki bara hvítri perlu, þó að það sé alltaf klassískt, en við erum að sjá fjólubláan lit, bleikan og myntugrænan verða vinsæla núna, djarfari litir en oft áður,“ segir Guðbjörg.
Þórhildur segir áhugavert að horfa á þróunina í úratískunni. „Apple-úrin komust í tísku og við stukkum á vagninn. Síðan fundum við út hversu mikið áreiti fylgdi því að vera að fá allar tilkynningar um póstinn okkar og samfélagsmiðla, heilsufarsástand og fleira. Úrin hjá Michelsen eru elegant og þau ýta undir glæsileika og eru stöðutákn sem geta enst í áratugi. Meira að segja unga fólkið okkar er aftur farið að vilja falleg og vönduð úr, sérstaklega strákarnir,“ segir Þórhildur.
„Ég er á því að við megum ekki gleyma ungu konunum og stúlkunum okkar. Að við verðum að kenna þeim að fjárfesta í glæsilegum úrum. Ég man sem dæmi eftir því að hafa fengið sjö lampa í fermingargjöf, sem var náttúrulega aðeins of mikið. Við mælum með því að gefa unga fólkinu í dag falleg og vönduð úr þegar þau eru að upplifa stóran áfanga í lífinu eins og fermingu eða útskrift. Það verður svo skemmtileg tenging við þann sem gefur gjöfina þegar maður ber úrið alla daga,“ segja þær að lokum.