Sterkar konur sem vilja láta til sín taka

Stjórn FKA, efri röð frá vinstri: Guna Mežule, Ingibjörg Salóme …
Stjórn FKA, efri röð frá vinstri: Guna Mežule, Ingibjörg Salóme Sigurðardóttir, Sandra Yunhong She, Guðrún Gunnarsdóttir, Helga Björg Steinþórsdóttir, Guðlaug Hrönn Jóhannsdóttir og Grace Achieng. Neðri röð frá vinstri: Andrea Ýr Jónsdóttir, Unnur Elva Arnardóttir og Jasmina Vajzovic Crnac. Ljósmynd/Silla Páls

„Ég held að allar konur þurfi sinn ættbálk og þetta getur verið þinn ættbálkur. Sama hverju konur leita eftir þá getur þessi félagsskapur gefið þeim eins mikið og þær vilja taka úr honum. Ég er gott dæmi um það en ég gekk í FKA rétt áður en ég fór í fæðingarorlof. Í fæðingarorlofinu tók ég þátt í mentorverkefninu sem var ótrúlega gefandi og hafði mikil áhrif á mig. Í kjölfarið fór ég í stjórn FKA, stofnaði mitt eigið fyrirtæki og fékk meira að segja fyrsta viðskiptavininn minn í gegnum FKA. Hjá FKA hitti ég svo mikið af áhugaverðu fólki sem ég hefði ekki haft aðgang að annars staðar. Maður græðir svo mikið á þessu, ef maður er tilbúinn til þess,“ segir Guna Mežule en Guna er stofnandi fyrirtækisins Mezule ehf., starfar sem ljósmyndari í lausamennsku og er ein af tíu konum í stjórn Félags kvenna í atvinnulífinu.

Blaðamaður settist niður með allri stjórninni utan einnar á fallegum vetrardegi nýverið. Það tók ekki langan tíma að heillast af samheldninni, jákvæðninni, kjarkinum og drifkraftinum hjá konunum í stjórn FKA enda kom það berlega í ljós að þær hafa, ásamt fjölda annarra kvenna í FKA, unnið að því að lyfta hver annarri upp og breyta samfélaginu. Það var um margt rætt þessa dagstund en aðalþráðurinn var aðkoma kvenna að samfélaginu, sköpun tengslanets og mikilvægi breytinga.

Að fyllast eldmóði

Það verður sífellt mikilvægara í nútímasamfélagi að eiga og nýta sér tengslanet og konurnar í stjórn FKA hafa ekki farið varhluta af því. Þær tala um að það séu fjöldamargar dæmisögur um hve tengslanet FKA hefur nýst vel, hvort heldur það er í atvinnulífinu eða jafnvel bara í daglegu hversdagslífi.

„Ég hefði aldrei áttað mig á því að ég ætti heima í einhverjum nýsköpunar- og frumkvöðlaheimi ef ekki væri fyrir nýsköpunarnefnd FKA,“ segir Guðlaug Hrönn Jóhannsdóttir, eigandi hugbúnaðarfyrirtækisins GET Ráðgjafar ehf.

Helga Björg Steinþórsdóttir, stofnandi og meðeigandi AwareGO, tekur í sama streng. „Við vorum sjö FKA-konur sem stofnuðum fjárfestingafélagið, það var bara eftir fund hjá FKA sem við fylltumst eldmóði.“

Guðrún Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Fastus og varaformaður stjórnar FKA, tekur undir það og grípur orðið. „Svo finnst mér einstaklega skemmtilegt, þar sem ég rek fyrirtæki með 126 manns, ef ég get hringt í FKA-konu og verslað við hana. Það vantar oft alls konar og ef ég veit um eina góða í félaginu þá náttúrlega hringir maður þangað. Mér finnst það bara einstaklega skemmtilegt að geta gert það og nýtt þessar tengingar sem við höfum. Það er svo mikil tenging við atvinnulífið þó við séum ekki allar í rekstri.“

Ingibjörg Salóme Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri og eigandi Gæludýr.is og Home&you og gjaldkeri stjórnar FKA, kannast vel við það að nýta gott tengslanet. „Ég hef fengið alls konar símtöl, til dæmis bara kona að fá ráð um bókhaldskerfi sem hún ætlaði að fjárfesta í. Það er mikilvægt að nota þetta tengslanet sem við öðlumst og spara þannig tíma og jafnvel peninga. En til að konur fái sem mest út úr FKA þurfa þær að taka virkan þátt, bjóða sig fram í nefndir og kynnist starfinu vel. Það er heilmikil valdefling fólgin í því að taka þátt í starfi FKA en þetta þarf að vera ákvörðun. Ég ætla að vera með og nota þennan aðgöngumiða sem ég var að kaupa.“

Sú skemmtilega og árlega hefð hefur skapast að stjórn FKA …
Sú skemmtilega og árlega hefð hefur skapast að stjórn FKA og Andrea Róbertsdóttir framkvæmdastjóri FKA hitta viðurkenningarhafa FKA á hverju ári og hér má sjá hópinn ásamt viðurkenningarhöfum ársins 2024: Inga Tinna Sigurðardóttir, Tanya Zharov og Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Jasmina Vajzovic Crnac, stjórnmálafræðingur og eigandi IZO ráðgjafar, þekkir það af eigin reynslu. „Þegar ég gekk í FKA kom ég inn með því hugarfari að nýta tímann sem best og mynda tengslanet. Og ég er ekki að grínast, ég held að ég hafi örugglega kynnst og eignast svona 50-60 vinkonur á þessu eina ári. Tengslanetið mitt stækkaði helling og ég átti einmitt umræðu um viðskiptahugmynd í síðustu viku þar sem ég gekk beint að FKA-konu og fékk upplýsingar frá henni. Það er svo gott að fá reynslusögur og þekkingu svona beint í æð þegar mann vantar þekkingu í ákveðnum málaflokki.“

Unnur Elva Arnardóttir, formaður stjórnar FKA og forstöðumaður hjá Skeljungi, segir að það skipti miklu máli að þekkja rétta konu á réttum stað. „Þannig skiptir tengslanetið gríðarlega miklu máli fyrir konur á framabraut sem og heimavinnandi. Og fyrir þær konur sem vilja efla tengslanetið sitt er langbest að koma af fullu afli inn í starf FKA, skrá sig í nefndir eða hreinlega bjóða sig fram í stjórn,“ segir Unnur Elva og bætir við að hún sé að hætta sem formaður enda á sínu seinna ári. „Ég hvet því konur eindregið til að stíga upp og bjóða sig fram í formann.“

„Okkar helstu skilaboð eru að það er pláss fyrir margar sterkar konur sem vilja láta til sín taka,“ segir Guðlaug og Andrea Ýr Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur, framkvæmdastjóri Heilsulausna og ritari stjórnar FKA, heldur áfram: „Það er mikil jákvæðni í félaginu okkar og við dæmum ekki hver aðra. Og fyrirmyndirnar sem maður sér. Mér finnst það svo skemmtilegt, þetta eru svo margar ólíkar konur að gera svo ólíka hluti að maður verður sjálfur svo peppaður.“

Jasmina tekur í sama streng. „Akkúrat. Ég hef aldrei fundið eins sterkt fyrir því annars staðar. Þetta er svo þægilegur og góður hópur af konum sem eru á sömu vegferð, að lyfta hver annarri upp en ekki tala þær niður. Það er það sterkasta sem ég hef upplifað á þessu eina ári í FKA. Konur af erlendum uppruna þurfa líka þennan stuðning og það þarf að lyfta þeim upp líka. Þær eru oft jaðarsettari en íslenskar konur og það vantar oft fyrirmyndir. Ég vil bjóða krafta mína fram alls staðar vegna þess að það skiptir svo miklu máli fyrir börnin mín, barnabörnin og alla aðra innflytjendur hér í landinu að geta séð fjölbreytta stjórn FKA og hugsa að þær geti jafnvel verið þarna eftir fimm ár.“

Að standa í brosi

Til að ganga í FKA er nóg að fara á fka.is og skrá sig í félagið en í kjölfar þess berst tölvupóstur frá framkvæmdastjóra með öllum helstu upplýsingum. Tvisvar á ári eru nýliðamóttökur þar sem nýliðar eru hvattir til að mæta og eins eru eldri félagar hvattir til að taka sérstaklega vel á móti nýliðum. Ingibjörg talar um að best sé að byrja á að fara inn á heimasíðuna og skoða viðburðadagatalið en þar megi sjá fjölda viðburða sem í boði eru, sama hverju konur hafi áhuga á.

Unnur Elva viðurkennir hins vegar fúslega að það geti verið erfitt að stíga fyrsta skrefið og mæta á viðburð. „Ég var í félaginu í ár án þess að fara á nokkurn viðburð. Ég þorði ekki að mæta, var viss um að ég þekkti engan og taldi mig ekki nógu stóra til að vera á FKA-viðburði. Ég veit að margar tengja við það því þetta er saga sem ég hef heyrt oft.“

„Ég byrjaði bara í FKA til að fara í golf,“ segir Helga og uppsker hlátur kvennanna. „Ég var í fjögur ár í FKA án þess að gera nokkuð annað en að spila golf í félaginu,“ og konurnar viðurkenna að oft geti það verið auðveldara að mæta fyrst á viðburð hjá hóp innan FKA en á stærri viðburði hjá FKA.

„Það eru komnir svo margir hópar í kringum FKA, til dæmis veiðifélag, sjálfbærnihópur, skíðahópur, mannvirkjahópur og fjalladrottningar sem labba á laugardagsmorgnum. Það er rosalega auðvelt að mæta á svoleiðis, taka kannski vinkonu með og byrja að kynnast konunum,“ segir Guðrún og Unnur grípur orðið. „Fyrir utan þessa hefðbundnu viðburði er fullt af alls konar hópum sem geta höfðað til flestra. Og ef einhverri finnst að það vanti einhvern hóp í félagið þá er lítið mál að hringja í Andreu framkvæmdastjóra og fá leyfi til að stofna nýjan hóp. Allir þessir hópar hafa orðið þannig til.“

Grace Achieng að störfum sem fulltrúi stjórnar FKA á Kvennanefndarfundi …
Grace Achieng að störfum sem fulltrúi stjórnar FKA á Kvennanefndarfundi Sameinuðu þjóðanna CSW-68. Ljósmynd/Aðsend

Sandra Yunhong She, framkvæmdastjóri og eigandi Arctic Star ehf., segist einmitt vera í mannvirkjahópi og það hafi í raun bara opnast ný vídd þegar hún gekk í hópinn. „Þessi hópur var fyrst og fremst stofnaður því þetta er mjög karlmannsmiðaður geiri og því gott að efla tengslanet okkar kvenna á þessum starfsvettvangi. Við höfum gert svakalega mikið og heimsótt alls konar fyrirtæki í nýsköpun og byggingarbransa. Þetta er mjög áhugavert og ég hef fengið mjög mikið út úr þessu. Það er svo gott fyrir félagið að þú getur fundið þitt fólk í þessum geirum, búið til svona hóp og haft viðburði sem eru ekki beint tengdir FKA því við skipuleggjum viðburði sjálfar.“

Andrea Ýr segir að það sé einmitt punkturinn með FKA því hver og ein kona fái nákvæmlega út úr félaginu það sem hún setur inn í það. Ingibjörg tekur undir það en vill bæta við að það séu tvær reglur hjá FKA sem geri það auðveldara fyrir nýjar konur að taka þátt. „Við stöndum alltaf í brosi, sem þýðir í raun að við stöndum ekki í lokuðum hringjum. Þá er mun auðveldara að smeygja sér inn í spjall þegar hringurinn er alltaf opinn og býður í raun alla velkomna. Það er annað sem við gerum sem ég reyni líka alltaf persónulega að tileinka mér og það er að tala alltaf við einhverjar tvær nýjar á hverjum viðburði. Og það er alveg nauðsynlegt að minna sig á það þegar maður hefur verið lengi í FKA. Stundum mæti ég bara og ákveð að tala fyrst við tvær nýjar áður en ég fer að heilsa öllum sem ég þekki,“ segir Ingibjörg og hlær.

Jasmina tekur undir að þetta sé mjög sniðug regla en þetta voru einmitt ein af fyrstu skilaboðunum sem hún fékk við inngöngu í FKA. „Mér fannst þetta strax svo fallegt því ég hafði aldrei heyrt þetta áður hjá öðrum félögum. Að standa í brosi og kynnast alltaf tveimur nýjum. Það er nóg að heilsa bara. Ég er líka farin að tileinka mér þetta annars staðar því félagslega er þetta bara mjög gott.“

Með mismunandi styrkleika

Í ár verður FKA 26 ára og ljóst að ansi margt hefur breyst í kvennabaráttu á þessum árum en konurnar eru sammála um að breytingarnar séu mismiklar, til að mynda eftir atvinnugreinum. Helga talar um að vissulega hafi orðið ótrúlega miklar breytingar á þessum árum en samt ótrúlega litlar breytingar. „Oft líður mér eins og þetta sé eitt skref áfram og tvö aftur á bak. Tvö skref áfram og þrjú aftur á bak.“

Guðrún tekur undir það og bætir við að kannski séu breytingarnar bara of hægar og Guðlaug heldur áfram í þeim dúr: „Vissulega er þetta að gerast hægt, í litlum skrefum, en ef við tökum landsmálin og pólitíkina með, það er ný ríkisstjórn og ég trúi að það séu miklar breytingar fram undan.“

Hvernig er að vera í stjórn FKA?

Guðrún verður fyrst til að svara: „ Það er mjög skemmtilegt. Auðvitað fylgir því ábyrgð að vera í stjórn. Þetta er ábyrgðarstaða. Þetta er 1.400 manna félag sem heldur líka á fjármunum og við erum allar hver í sínu hlutverkinu en virkilega skemmtilegt engu að síður.“

Ingibjörg er sammála því að þetta sé skemmtilegt starf og hún talar um að eitt af því sem sé svo skemmtilegt við þennan hóp sé að þær hafi svo mismunandi styrkleika. „Það er ótrúlegt hvernig boltarnir skoppa á milli og það er mjög gott skipulag á starfinu. Maður fær úthlutuð verkefni í upphafi starfsárs sem mér finnst rosa þægilegt. Mér finnst gott að vita hvers er ætlast til af mér svo ég geti uppfyllt það. Stundum breytist eitthvað hjá manni og eðlilega stökkvum við inn í fyrir hver aðra. Það er engin stéttaskipting í stjórninni og það er almennt mjög góður mórall. Ég upplifi það og mér finnst ég geta talað við allar og hringt í allar, sem er geggjað.“

Andrea Ýr tekur undir það en bætir við að vitanlega komi upp mismunandi vandamál sem þarf að leysa en allt sé þetta viðráðanlegt og skemmtilegt en vissulega misskemmtilegt.

Helga er sammála og bætir við að þær vegi hver aðra vel upp. „Við komum úr ólíkum landshlutum, erum á misjöfnum aldri og úr misjöfnum geirum svo ekki sé minnst á að styrkleikar okkar eru misjafnir. En þetta blandast mjög vel saman, hrærist vel saman í jólakökuna,“ segir Helga og allar hlæja dátt.

Jasmina heldur áfram: „Rannsóknir sýna líka, með tilliti til aldursskiptingar og uppruna, að bestu ákvarðanatökurnar eru í fjölbreyttum stjórnum. Það er styrkleiki hjá okkur, við komum alls staðar að og það er gott að ræða málin. Að vera í svona stjórn þar sem er svona mikill fjölbreytileiki, ólíkir styrkleikar og svo hellingur af kærleik og vináttu. Það er að minnsta kosti mín tilfinning með þessa stjórn. Ég upplifi það að ég gæti hringt í ykkur allar ef mig myndi vanta eitthvað.“

Stjórn FKA settist á dögunum niður með blaðamanni og ræddu …
Stjórn FKA settist á dögunum niður með blaðamanni og ræddu um kvennabaráttuna, FKA og framtíðina. mbl.is/Karítas

Valdefling kvenna

Þrátt fyrir að þær séu allar sammála um að fjölbreytileiki einkenni stjórn FKA þá sé samt sannarlega eitthvað sem þær eigi sameiginlegt og Ingibjörg orðar það vel: „Það er jafnrétti, að lyfta konum og valdefla þær.“

Guðlaug heldur áfram: „Það eru líka ákveðnir eiginleikar sem einkenna okkur, eins og umburðarlyndi, sveigjanleiki og manngæska.“

Guðrún grípur orðið og segir að svo megi ekki gleyma kraftinum sem býr í hópnum. „Og hugrekki og frumkvæði. Við bara förum og gerum. Notum drifkraftinn. Setjum í fyrsta gír og af stað, keyrum þetta áfram.“

„Já, drifkrafturinn,“ segir Jasmina. „Það er engin brekka sem er of erfið. Við klárum þetta.“

„Þá setjum við bara í annan gír fyrir brekkuna,“ segir Guðrún og konurnar hlæja hressilega.

Unnur heldur áfram: „ Eins og þú heyrir er þetta geggjað. Og það er eftirsóknarvert að vera í stjórn. Eftirsóknarvert að vera með okkur. Eftirsóknarvert að fara í félagið og það hefur aldrei verið stærra. Þetta er bara allt jákvætt. Auðvitað er alltaf eitt og eitt sem kemur upp á en þá er það bara tæklað og vonandi á mjög jákvæðan máta. Við erum kosnar í stjórn til að stýra þessu félagi og ég er mjög sátt við hvernig þetta hefur gengið hjá okkur. Þetta eru frábærar konur og ég er búin að eignast svo mikið af góðum vinkonum með því að vera í þessu félagi. Og þó ég sé að fara úr stjórn í vor þá mun ég hringja í þær allar, oft og mörgum sinnum.“

Eins og má glögglega sjá hér að ofan er FKA meira en bara félag; það er lifandi samfélag þar sem konur styðja hver aðra í að ná markmiðum sínum og veita mikilvægan stuðning. Konurnar opna dyr fyrir aðrar konur, efla tengslanet og láta rödd sína heyrast í atvinnulífinu. Með sameiginlegu átaki og jákvæðni ætla þær að skapa betri framtíð fyrir konur í atvinnulífinu og láta í leiðinni drauma sína verða að veruleika.

„Við erum saman í þessu,“ segir Unnur. „Þetta er okkar tími, og við ætlum að nýta hann. Þetta er sannarlega tímabil breytinga, og það er okkar að halda áfram að stíga fram, vinna saman og lyfta hver annarri upp af krafti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert