Umhverfisþjónusta í fjörutíu ár

Valgerður Sigrúnar Vigfúsardóttir, forstöðumaður viðskiptadeildar Terra, segir mikilvægt að þora.
Valgerður Sigrúnar Vigfúsardóttir, forstöðumaður viðskiptadeildar Terra, segir mikilvægt að þora. mbl.is/Aðsend

Valgerður Sigrúnar Vigfúsardóttir, forstöðumaður viðskiptadeildar Terra, segir mikilvægt að konur þori að vera þær sjálfar í leik og starfi.

„Hlut­verk Terra er að stuðla að sjálf­bærni viðskipta­vina með því að koma öll­um þeim efn­um sem til falla í viðeig­andi far­veg og aft­ur inn í hringrás­ar­hag­kerfið. „Að skilja ekk­ert eft­ir“ er þýðing fé­lags­ins á hug­tak­inu „Zero Waste“ og lýs­ir vel mark­miðum okkar í end­ur­vinnslu og meðhöndl­un úr­gangs,“ segir Valgerður Sigrúnar Vigfúsardóttir, forstöðumaður viðskiptadeildar hjá Terra. „Starfið er skemmtilegt og krefjandi sem er nauðsynleg forsenda þess að vaxa sem stjórnandi en það sem stendur upp úr eru vinnufélagarnir sem eru ekki bara skemmtilegir heldur líka metnaðarfullir og góðir í sínu. Kjarnastarfsemi félagsins er víðtæk umhverfisþjónusta en fyrirtækið hefur starfað við söfnun og flokkun úrgangs og endurvinnsluefna frá árinu 1984,“ segir hún. Með því að styðja og einfalda úrgangsflokkun viðskiptavina sinna í að stuðla að hringrásarhagkerfinu styðja þau við sjálfbærnivegferð þeirra. „Hjá Terra starfa margir sérfræðingar með áratuga reynslu í úrgangsmálum og viðskiptadeildin er ávallt innan handar með ráðgjöf til handa viðskiptavinum.“

Terra með skýra sýn fyrir framtíðina

Árið 2022 markaði tímamót fyrir Terra, þar sem farið var í stefnumótunarvinnu þar sem sýn fyrirtækisins var mótuð til ársins 2026. „Við höfum haldið þessari vinnu á lofti og varðað leiðina af miklum metnaði og haldið okkar stefnu. Þetta hefur haft það í för með sér að tekin hafa verið gríðarlega stór skref í þróun félagsins meðal annars í tæknimálum, fjárfestingum og ferlum. Enn þá eru mörg spennandi verkefni tengd stefnumótunarvinnunni í vinnslu,“ segir Valgerður og bætir við að það séu mikil forréttindi að vinna í stjórnendahópi þar sem allir horfa í sömu átt. „Það er taktur í fyrirtækinu sem við vinnum eftir og erum við að færa fyrirtækið í átt að meiri skilvirkni. Markmiðið er að vera fremst á okkar sviði á markaðnum ásamt því að vera framúrskarandi vinnustaður að vinna á til framtíðar.“

Þegar kemur að flokkun segir Valgerður miklu máli skipta að úrgangur sé rétt flokkaður.

„Það hefur verið magnað að fylgjast með þeim árangri sem heimilisflokkunin hefur náð á svona stuttum tíma. Okkar starfsemi er fyrst og fremst á fyrirtækjamarkaði og fyrirtækin eru af öllum stærðum og gerðum, allt frá litlum hárgreiðslustofum upp í stórfyrirtæki en við erum einnig að þjónusta mörg sveitarfélög víða um landið. Margir viðskiptavina okkar sinna þessu mjög vel og flokka af metnaði en að sjálfsögðu má alltaf gera betur. Oft hefur verið talað um að það sé eingöngu fjárhagslegur hvati sem getur haft veruleg áhrif á flokkun og í raun er hann til staðar. Það er ódýrara að láta hirða hjá sér flokkaðan úrgang heldur en óflokkaðan. Það getur munað mörgum tugum króna á hvert kílógramm.“

Konur sem hafa kjark til að vera þær sjálfar eru heillandi

Í árslok 2024 var hlutfall kvenna í hópi millistjórnenda 28% og 13% af heildarstarfsmannafjölda. Það er ekki eins og þau vilja hafa málin. „Við störfum á mjög karllægum markaði og vinnum okkur í rétta átt. Kvenbílstjórar eru til dæmis sérstaklega hvattir til að koma og starfa með okkur hjá Terra.“

Þegar Valgerður er spurð út í fyrirmyndir sínar þá eru þær margar.

„Sú kona sem hefur haft langmest áhrif á mig og býr í hjarta mér og huga alla daga er hún mamma mín, Sigrún Guðnadóttir. Hún var einstaklega sterk kona sem bauð lífinu svo sannarlega birginn sama hvaða verkefni það bauð henni upp á. Hún var sterk, vinnusöm, hugrökk, ákveðin og hlý. Hún hugsaði um fólkið í kringum sig, ræktaði vini sína, bjó yfir miklum metnaði og gleymdi aldrei þeim sem minna máttu sín. Svo eru margar samferðakonur, til dæmis Auður Ögn Árnadóttir, annar eigandi 17 Sorta, Unnur Magnúsdóttir hjá Dale Carnegie, Unnur Elva Arnardóttir, formaður FKA og forstöðumaður hjá Skeljungi, María Anna Clausen, annar eigandi Veiðihornsins og mágkona mín, Ingibjörg Hauksdóttir, hjúkrunardeildarstjóri hjá Landspítalanum og ferðafélagi minn, Valgerður Hrund Skúladóttir, framkvæmdastjóri Sensa og fyrrverandi samstarfskona úr Tæknivali, Gróa Björg Baldvinsdóttir, núverandi samstarfskona, framkvæmdastjóri sjálfbærni og menningar hjá Terra. Allar þessar konur eru hugrakkar, snjallar og hafa kjark til að vera þær sjálfar í leik og starfi. Þær eiga það sameiginlegt að hafa jákvæð áhrif á þá sem í kringum þær eru og horfi ég til þeirra, leynt og ljóst, til að reyna að læra af þeim. Þær eru allar sterkar fyrirmyndir.“

Spennandi tímar og nýjungar

Terra er í auknum mæli að innleiða tækni í þjónustuna sína og er þessa dagana að setja skynjara í stærstu ílátin sem viðskiptavinir nota, sem hringja inn og láta vita þegar losunar er þörf. „Með því minnkum við akstur og þar með kolefnissporið okkar og losum ílát sem hafa verið í reglubundnum losunum eingöngu þegar klár þörf er á. Í vor fer í loftið nýr þjónustuvefur fyrir viðskiptavini okkar, sem á eftir að auðvelda þeim mjög að setja sér skýr markmið í flokkun. Þar verður góð greining á þeim úrgangi sem fellur til, upplýsingar um í hvaða farveg hann fer og fleira sem aðstoðar við að ganga frá gögnum í grænt bókhald og sjálfbærniskýrslur. Það er í mörg horn að líta og við höldum áfram að þróa okkar þjónustu í takt við þarfir viðskiptavinanna,“ segir Valgerður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert