„Ég lít á viðurkenninguna sem hvatningu“

Hrefna Sig­finns­dótt­ir fram­kvæmda­stjóri Cred­it­in­fo.
Hrefna Sig­finns­dótt­ir fram­kvæmda­stjóri Cred­it­in­fo. mbl.is/Aðsend

Fé­lag kvenna í at­vinnu­líf­inu hélt glæsi­lega viður­kenn­ing­ar­hátíð á Hót­el Reykja­vík Grand þann 29. janúar síðastliðinn. Fjöl­mennt var á hátíðinni og mik­il samstaða í hópn­um. Hrefna Sig­finns­dótt­ir fram­kvæmda­stjóri Cred­it­in­fo hlaut FKA viður­kenn­ing­una, sem veitt er fyr­ir vel unn­in störf í þágu at­vinnu­rekst­urs kvenna eða þeim sem er eða hef­ur verið kon­um í at­vinnu­líf­inu sér­stök fyr­ir­mynd.

Þess má geta að til­gang­ur Fé­lags kvenna í at­vinnu­líf­inu er að styrkja stöðu kvenna í ís­lensku at­vinnu­lífi og fjölga kon­um í stjórn­un­ar­stöðum og í eig­in rekstri. Mark­mið fé­lags­ins er að styðja við vöxt og frama kvenna, auka ný­sköp­un meðal þeirra og ann­an at­vinnu­rekst­ur, ásamt því að efla sam­stöðu og sam­starf þeirra á milli.

Framlag FKA skiptir máli

„FKA hef­ur unnið ein­stak­lega mik­il­vægt starf en það er tvennt sem mér hef­ur fund­ist standa sér­stak­lega upp úr sem hef­ur skilað bein­hörðum ár­angri í jafn­rétt­is­bar­átt­unni. Það er ann­ars veg­ar Jafn­væg­is­vog­in sem er í senn hvatn­ing­ar­verk­efni en ekki síður verk­efni sem dreg­ur raun­veru­lega stöðu kynj­anna upp. Við verðum að vita hver raun­veru­leg kynja­hlut­föll stjórn­enda eru á hverj­um tíma því hlut­irn­ir eru svo fljót­ir að leita í fyrra horf. Staðan í dag kem­ur á óvart því við eig­um það til að gefa okk­ur að hlut­irn­ir séu öðru­vísi en þeir eru. Hins veg­ar er það „mentor­pró­gramm“ fé­lags­ins vegna þess að það að læra af reynslu og styrk annarra er svo skil­virkt. 

Ég lít því fyrst og fremst á þessa viðurkenningu sem hvatningu, það er til að gera enn betur en viðurkenni jafnframt að þykja einstaklega vænt um að tekið hafi verið eftir að maður hafi verið að vinna í rétta átt. Mér finnst formæður okkar hafa náð svo miklum árangri að ekki sé annað hægt en að taka við því kefli og þegar maður kemst í sérstaklega góða stöðu til að beita sér í jafnréttismálum þá skiptir máli að hún sé nýtt.

Þakklæti henni ofarlega í huga

Hvað viltu segja við kon­ur um fram­lag þeirra til at­vinnu­lífs­ins?

„Ég vil minna þær á að Ísland er eitt af rík­ustu lönd­um í heimi. Þátt­taka kvenna á ís­lensk­um vinnu­markaði hef­ur þar verið einn af burðarstólp­un­um. Við meg­um aldrei skor­ast und­an ábyrgð og við verðum að muna að samstaða og góð gildi færa okk­ur ár­ang­ur til langs tíma,“ seg­ir Hrefna.

Þegar kem­ur að 50 ára af­mæli kvenna­frí­dags­ins á þessu ári seg­ir Hrefna þakk­læti vera henni of­ar­lega í huga. „Ég held að af­mælis­ár­inu sé best fagnað með þakk­læti til þeirra kvenna sem ruddu veg­inn og ætla ég að hugsa til allra þeirra góðu fyr­ir­mynda sem ég á. Jafn­rétti er bar­átta sem má aldrei taka sem gef­inni.

Við verðum að hafa það hug­fast að for­mæður okk­ar færðu fórn­ir til að við kæm­umst á þann stað sem við erum á í dag. Það eru marg­ar ógn­vekj­andi vís­bend­ing­ar um önn­ur gildi en jafn­rétti í heim­in­um í dag svo hlut­verk Íslands sem fyr­ir­mynd­ar í að halda bar­átt­unni áfram hef­ur sjald­an verið mik­il­væg­ara. Ég ætla því að halda áfram að vera talsmaður og bar­áttumaður jafn­rétt­is,“ seg­ir Hrefna sem færði sig til á vinnumarkaðnum þegar hún fór til Creditinfo, eftir um þrjátíu ára starf í fjármálageiranum. 

Tíminn líður hratt í góðri vinnu

Creditinfo er fyrirtæki sem var stofnað á Íslandi fyrir 28 árum síðan og hefur síðan þá þróast  bæði með því að þróa starfsemina hér á landi, en einnig með því að flytja þekkinguna út. Í dag starfar fyrirtækið í yfir 30 löndum í 4 heimsálfum.

„Fyrirtækið er leiðandi upplýsinga- og þjónustufyrirtæki, sem sérhæfir sig í miðlun fjárhags- og viðskiptaupplýsinga, fjölmiðlavöktun og ráðgjöf á áhættumati og áhættustýringu fyrirtækja. Nýlega þróuðum við nýja lausn til að koma til móts við auknar kröfur til sjálfbærniupplýsinga fyrirtækja. Ísland var fyrsti markaðurinn fyrir lausnina en næstu skref verða tekin í Eystrasaltslöndunum þar sem við störfum í þremur löndum.

Ég er nú búin að vera hjá félaginu í þrjú ár og hefur tíminn aldrei liðið jafn hratt því dagarnir eru einstaklega gefandi með þéttum hópi framúrskarandi samstarfsfélaga. Það er líka svo gefandi að finna hvað vinnan okkar skiptir miklu máli,“ segir Hrefna Sig­finns­dótt­ir fram­kvæmda­stjóri Cred­it­in­fo. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert