Félag kvenna í atvinnulífinu hélt glæsilega viðurkenningarhátíð á Hótel Reykjavík Grand þann 29. janúar síðastliðinn. Fjölmennt var á hátíðinni og mikil samstaða í hópnum. Hrefna Sigfinnsdóttir framkvæmdastjóri Creditinfo hlaut FKA viðurkenninguna, sem veitt er fyrir vel unnin störf í þágu atvinnureksturs kvenna eða þeim sem er eða hefur verið konum í atvinnulífinu sérstök fyrirmynd.
Þess má geta að tilgangur Félags kvenna í atvinnulífinu er að styrkja stöðu kvenna í íslensku atvinnulífi og fjölga konum í stjórnunarstöðum og í eigin rekstri. Markmið félagsins er að styðja við vöxt og frama kvenna, auka nýsköpun meðal þeirra og annan atvinnurekstur, ásamt því að efla samstöðu og samstarf þeirra á milli.
„FKA hefur unnið einstaklega mikilvægt starf en það er tvennt sem mér hefur fundist standa sérstaklega upp úr sem hefur skilað beinhörðum árangri í jafnréttisbaráttunni. Það er annars vegar Jafnvægisvogin sem er í senn hvatningarverkefni en ekki síður verkefni sem dregur raunverulega stöðu kynjanna upp. Við verðum að vita hver raunveruleg kynjahlutföll stjórnenda eru á hverjum tíma því hlutirnir eru svo fljótir að leita í fyrra horf. Staðan í dag kemur á óvart því við eigum það til að gefa okkur að hlutirnir séu öðruvísi en þeir eru. Hins vegar er það „mentorprógramm“ félagsins vegna þess að það að læra af reynslu og styrk annarra er svo skilvirkt.
Ég lít því fyrst og fremst á þessa viðurkenningu sem hvatningu, það er til að gera enn betur en viðurkenni jafnframt að þykja einstaklega vænt um að tekið hafi verið eftir að maður hafi verið að vinna í rétta átt. Mér finnst formæður okkar hafa náð svo miklum árangri að ekki sé annað hægt en að taka við því kefli og þegar maður kemst í sérstaklega góða stöðu til að beita sér í jafnréttismálum þá skiptir máli að hún sé nýtt.“
Hvað viltu segja við konur um framlag þeirra til atvinnulífsins?
„Ég vil minna þær á að Ísland er eitt af ríkustu löndum í heimi. Þátttaka kvenna á íslenskum vinnumarkaði hefur þar verið einn af burðarstólpunum. Við megum aldrei skorast undan ábyrgð og við verðum að muna að samstaða og góð gildi færa okkur árangur til langs tíma,“ segir Hrefna.
Þegar kemur að 50 ára afmæli kvennafrídagsins á þessu ári segir Hrefna þakklæti vera henni ofarlega í huga. „Ég held að afmælisárinu sé best fagnað með þakklæti til þeirra kvenna sem ruddu veginn og ætla ég að hugsa til allra þeirra góðu fyrirmynda sem ég á. Jafnrétti er barátta sem má aldrei taka sem gefinni.
Við verðum að hafa það hugfast að formæður okkar færðu fórnir til að við kæmumst á þann stað sem við erum á í dag. Það eru margar ógnvekjandi vísbendingar um önnur gildi en jafnrétti í heiminum í dag svo hlutverk Íslands sem fyrirmyndar í að halda baráttunni áfram hefur sjaldan verið mikilvægara. Ég ætla því að halda áfram að vera talsmaður og baráttumaður jafnréttis,“ segir Hrefna sem færði sig til á vinnumarkaðnum þegar hún fór til Creditinfo, eftir um þrjátíu ára starf í fjármálageiranum.
Creditinfo er fyrirtæki sem var stofnað á Íslandi fyrir 28 árum síðan og hefur síðan þá þróast bæði með því að þróa starfsemina hér á landi, en einnig með því að flytja þekkinguna út. Í dag starfar fyrirtækið í yfir 30 löndum í 4 heimsálfum.
„Fyrirtækið er leiðandi upplýsinga- og þjónustufyrirtæki, sem sérhæfir sig í miðlun fjárhags- og viðskiptaupplýsinga, fjölmiðlavöktun og ráðgjöf á áhættumati og áhættustýringu fyrirtækja. Nýlega þróuðum við nýja lausn til að koma til móts við auknar kröfur til sjálfbærniupplýsinga fyrirtækja. Ísland var fyrsti markaðurinn fyrir lausnina en næstu skref verða tekin í Eystrasaltslöndunum þar sem við störfum í þremur löndum.
Ég er nú búin að vera hjá félaginu í þrjú ár og hefur tíminn aldrei liðið jafn hratt því dagarnir eru einstaklega gefandi með þéttum hópi framúrskarandi samstarfsfélaga. Það er líka svo gefandi að finna hvað vinnan okkar skiptir miklu máli,“ segir Hrefna Sigfinnsdóttir framkvæmdastjóri Creditinfo.