Tryggja þarf öryggi vinnuvéla og stjórnendur þeirra þurfa tilskilin réttindi

Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, forstjóri Vinnueftirlitsins.
Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, forstjóri Vinnueftirlitsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vinnueftirlitið hvetur til þess að vinnustaðir innleiði menningu þar sem áhersla er á vellíðan og öryggi starfsfólks og að vinnuvernd sé hluti af daglegri starfsemi. Í því felst meðal annars að atvinnurekendur gæti að því að vinnuvélar þeirra gangist undir árlega skoðun til að tryggja að öryggisbúnaður sé í lagi og að stjórnendur þeirra hafi tilskilin réttindi.

„Meginreglan er sú að vinnuvélar séu skoðaðar einu sinni á ári og annast Vinnueftirlitið þær skoðanir. Tilgangurinn er einkum að tryggja að öryggisbúnaður þeirra sé í lagi og þar með öryggi starfsfólks. „Það er á ábyrgð eigenda að panta skoðun á vinnuvél og það er hægt að gera það með auðveldum hætti á vefnum okkar vinnueftirlitid.is,” segir Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, forstjóri Vinnueftirlitsins.

Sérfræðingur hjá Vinnueftirlitinu mætir í kjölfarið á vinnustað og skoðar vélina. Niðurstaðan getur verið að vélin fái fulla skoðun eða að gera þurfi úrbætur. Vélin má engu að síður vera í notkun. Ef notkun vélarinnar telst hættuleg getur notkun hennar verið bönnuð þar til úrbætur hafa verið gerðar.

Hanna Sigríður segir það mikilvæga skyldu atvinnurekenda að tryggja öryggi og vellíðan starfsfólks og þar undir fellur meðal annars að gæta að vinnuvélar og tæki séu örugg. „Það er alveg ljóst að þegar starfsfólki líður vel á vinnustað og upplifir sig öruggt eru meiri líkur á að það sinni starfi sínu vel og af alúð. Það hefur síðan jákvæð áhrif á árangur og orðspor fyrirtækja og því er til mikils að vinna.”

Nauðsynlegt að hafa vinnuvélaréttindi

Hanna Sigríður segir öll sem ætla að stjórna réttindaskyldri vinnuvél á Íslandi verði að hafa tilskilin réttindi. Til að öðlast vinnuvélaréttindi þarf að ljúka bóklegu námskeiði í viðkomandi vinnuvélaflokki. Vinnueftirlitið heldur svokölluð frumnámskeið á minni vinnuvélar en einkaaðilar halda námskeið á stærri vélar. Að bóklegu námi loknu fer fram verkleg þjálfun undir leiðsögn leiðbeinanda og að lokum er tekið verklegt próf á vegum Vinnueftirlitsins. Standist nemandi prófið er gefið út vinnuvélaskírteini sem veitir rétt til að stjórna tilgreindri vinnuvél.

Að sögn Hönnu Sigríðar er mikilvægt að gæta þess að starfsfólk sé aldrei sett í þá stöðu að stjórna vinnuvél án þess að hafa tilskilin réttindi. „Þetta varðar bæði öryggi stjórnandans sjálfs, annars starfsfólks og almennings sem getur átt leið hjá. Það getur skapað mikla hættu að stjórna vinnuvél án þess að hafa til þess nauðsynlega kunnáttu og þjálfun. Oft er um að ræða vélar sem geta valdið miklu tjóni og ætti ekki að bjóða slíkri hættu heim. Afleiðingarnar geta verið mjög alvarlegar sem erfitt getur verið að lifa með fyrir alla hlutaðeigandi.”

Heimild til stjórnvaldssekta

Um síðustu áramót fékk Vinnueftirlitið heimild til að leggja á stjórnvaldssekt á stjórnanda vinnuvélar sem hefur ekki tilskilin réttindi eða brýtur gegn fyrirmælum stofnunarinnar um bann við notkun vélar eða tækis. „Við hvetjum því stjórnendur vinnuvéla að huga vel að réttindum sínum því það er alltaf betri kostur að sækja sér þá þekkingu og þjálfun sem til er ætlast heldur en að greiða sektir,” segir Hanna Sigríður.

Þá segir hún Vinnueftirlitið leggja ríka áherslu á að vinnustaðir byggi upp heilbrigða vinnustaðamenningu, þar á meðal öryggismenningu, innan sinna raða. Æskilegt sé að þeir líti á öryggi og vellíðan starfsfólks sem eðlilegan hluta rekstursins sem hugað er að á hverjum degi. Það á sérstaklega við um til dæmis byggingavinnustaði þar sem aðstæður breytast frá degi til dags, meðal annars eftir veðri og eftir því hvernig verkinu vindur fram. „Við mælum með því að atvinnurekendur og starfsfólk vinni þetta saman og staldri við í upphafi hvers vinnudags til að huga að mögulegum hættum. Þannig má fyrirbyggja óhöpp og slys og stuðla að því að öll komi heil heim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert