„ÍMARK-dagurinn er mikilvægur“

Magnús Magnússon markaðsstjóri Húsasmiðjunnar hefur setið í stjórn ÍMARK frá …
Magnús Magnússon markaðsstjóri Húsasmiðjunnar hefur setið í stjórn ÍMARK frá árinu 2022. Hann er með dýrmæta reynslu og innsýn inn í markaðsmál og er alltaf af viða að sér þekkingu. mbl.is/Aðsend

ÍMARK-dagurinn og Lúðurinn er stærsti árlegi viðburðurinn í íslenskum markaðs- og auglýsingageira. Þar kemur saman fagfólk úr greininni til að fræðast, tengjast og fá innblástur frá innlendum og erlendum sérfræðingum. Við leggjum gríðarlega mikið upp úr því að fá áhugaverða erlenda fyrirlesara til að tala um málefni sem tengjast okkar fagi og reynum að hafa þetta fjölbreytt og alltaf eitthvað nýtt og ferskt. Við leggjum áherslu á að ráðstefnugestir fái innblástur og læri eitthvað nýtt á hverju ári,“ segir Magnús Magnússon markaðsstjóri Húsasmiðjunnar og bætir við að ÍMARK-dagurinn sé orðinn mjög mikilvægur fyrir þau sem starfa í markaðssetningu og auglýsingum.

„ÍMARK-dagurinn veitir innsýn í nýjustu strauma og stefnur í faginu en hann er ekki síður mikilvægur fyrir aðra yfirstjórnendur og forstjóra sem vilja fylgjast með því nýjasta og áhugaverðasta sem er að gerast. Lúðurinn er svo rúsínan í pylsuendanum, ef svo mætti segja. Þar kemur rjóminn í markaðs- og auglýsingageiranum saman eina kvöldstund og verðlaunar allt það besta sem gert var á árinu. Lúðurinn hefur verið haldinn í næstum 40 ár og þetta eru virtustu verðlaun í sögu auglýsingageirans á Íslandi, með ríka sögu og hefð.“

Magnús hefur setið í stjórn ÍMARK frá árinu 2022. „Að sitja í stjórn ÍMARK hefur gefið mér tækifæri til að vinna náið með öflugu fólki í geiranum og taka þátt í að móta stefnu samtakanna. ÍMARK gegnir mikilvægu hlutverki í að efla fagmennsku innan markaðsgreinarinnar á Íslandi og stuðla að þróun hennar. Markmið samtakanna er fyrst og fremst að efla og auka veg markaðsfræðinnar innan íslensks viðskiptalífs. Við erum á margan hátt komin mjög langt en einnig eru enn svo mörg fyrirtæki sem gera sér ekki nægilega mikla grein fyrir mikilvægi faglegs markaðsstarfs í sínum rekstri og hvaða tækifæri bíða þeirra sem nýta markaðssetningu á réttan hátt. Sem stjórnarmaður ÍMARK hef ég verið hluti af því að skipuleggja viðburði og skapa vettvang fyrir markaðsfólk til að deila reynslu og læra hvert af öðru. Það er gríðarlega dýrmætt að fá að taka þátt í slíkri vinnu og leggja mitt af mörkum til framþróunar fagsins,“ segir hann.

Markaðsstörf skapa verðmæti

Um hvað snúast markaðsmál í þínum huga?

„Markaðsmál í mínum huga snúast fyrst og fremst um að skilja neytandann og skynja tækifærin á markaðnum, skapa verðmæti og byggja upp sterkt samband milli vörumerkja og viðskiptavina. Í dag snýst markaðsstarf sífellt meira um gögn, innsæi og sköpun – en það þarf alltaf að sameina stefnumótandi hugsun og skapandi nálgun til að skila raunverulegum árangri. Hægt er að greina alla skapaða hluti en ef þú ert ekki skapandi í nálgun þinni í markaðssetningu og ætlar bara að gera það sama og hinir þá nærðu engum raunverulegum árangri,“ segir Magnús.

Flest fyrirtæki vilja byggja upp sterk og aðgreinanleg vörumerki sem skapa raunverulegt virði fyrir viðskiptavini og fyrirtækið að hans mati. „Við lifum á tímum þar sem markaðssetning er ekki lengur bara spurning um að selja vöru, heldur að skapa upplifun, byggja upp traust og tryggð og nýta nýjustu tækni og gögn til að hámarka árangur. Hvort sem það er uppbygging vörumerkis (e. brand-building), stafrænt markaðsstarf eða upplifun viðskiptavinarins þá snýst þetta alltaf um eitt: Að koma réttum skilaboðum til réttra aðila á réttum tíma – og með réttum leiðum!“

Magnús segir mestu máli skipta þegar kemur að markaðsherferðum að vera með skýrt markmið. „Aðgreinanleiki skiptir einnig máli og samræmd framkvæmd á þeim miðlum sem unnið er með. Til að herferð skili árangri þarf hún að byggja á traustum grunni sem sameinar góðan skilning á markaðnum, sköpunargleði og svo auðvitað eftirfylgni með gögnum, hvort sem það er að fylgjast með sölu, hlutdeild eða öðrum mælingum sem styðja við markmið herferðarinnar. Á síðustu árum hef ég persónulega stuðst mikið við kenningar Byron Sharps sem snúa að því að vörumerki og herferðir þurfi að vera eftiminnilegar og auðþekkjanlegar. Ég hef séð sjálfur hve ótrúlegum árangri slík nálgun getur náð þegar vel tekst til. Minn útgangspunktur er því alltaf sá sami þegar við hefjum sköpunarferlið, að herferðin, vörumerkið eða hvað sem unnið er með hverju sinni sé eftirminnilegt og auðþekkjanlegt. Ef það næst eru meiri líkur á að ná árangri.“

Úr markaðsherferðinni Björgum sumrinu sem hefur vakið mikla athygli.
Úr markaðsherferðinni Björgum sumrinu sem hefur vakið mikla athygli. mbl.is/Aðsend

Húsasmiðjan er markaðssinnað fyrirtæki

Húsasmiðjan hefur náð ótrúlegum árangri í markaðssetningu sinni. „Ég þakka það fyrst og fremst því frábæra fólki sem starfar í Húsasmiðjunni og yfirstjórn sem skilur mikilvægi markaðsstarfs. Húsasmiðjan er mjög markaðssinnað fyrirtæki, við leggjum ríka áherslu á gott og öflugt markaðsstarf með fámennu en mjög öflugu og reynslumiklu teymi í markaðsmálum sem gjörþekkir markaðinn. Árangur Húsasmiðjunnar í markaðssetningu á síðustu árum má fyrst og fremst rekja til skýrleika í stefnu, stöðugleika í vörumerkjauppbyggingu og djúprar þekkingar á okkar markaði.

Við höfum lagt áherslu á að vera auðþekkjanleg og eftirminnileg á markaði með sterku vörumerkjaauðkenni, samfelldum skilaboðum og markvissri notkun stafrænna og hefðbundna miðla. Við byggjum á sterkri vörumerkjasögu þar sem traust og fagmennska eru í forgrunni en á sama tíma höfum við fylgt þróuninni í markaðssetningu og nýtt stafræna miðla jafnt sem hefðbunda miðla eins og útvarp, sjónvarp og prent. Við höfum einmitt lagt áherslu á að samþætta stafræna markaðssetningu og sjónræna ímynd sem hefur styrkt tengsl við viðskiptavini okkar og gert okkur eftirminnilegri í huga neytenda,“ segir Magnús og bætir við að það sé að sjálfsögðu einnig mikilvægt að velja sér góða samstarfsaðila og aulýsingastofur, þar sem ríkir traust og sameiginlegur skilningur á markmiðum.

Lífleg og litaglöð markaðsherferð Húsasmiðjunnar.
Lífleg og litaglöð markaðsherferð Húsasmiðjunnar. mbl.is/Aðsend

Virði fyrir neytendur skiptir máli

Hver eru tækifærin í markaðsmálum dagsins í dag og í náinni framtíð?

„Ég held að tækifærin liggi víða en ef ég ætti að draga þetta aðeins saman þá eru það fjögur atriði sem fyrirtæki þurfa að huga að í dag og í náinni framtíð: Númer eitt er aðgreinanleiki í fjölmiðlaflóði en með síauknu áreiti er lykilatriði að vörumerki séu skýr, auðþekkjanleg, eftirminnileg og samkvæm sjálfum sér. Næst er samþætting gagna og sköpunar; gögn og gervigreind bjóða upp á markvissari auglýsingar en áskorunin er að viðhalda skapandi og tilfinningalegum tengingum við viðskiptavini. Það þriðja er jafnvægi milli langtíma- og skammtímamarkaðssetningar en með því á ég við að fyrirtæki verða að fjárfesta í bæði vörumerkjauppbyggingu og skammtímasöluherferðum og jafnvægið þar á milli verða fyrirtæki hvert fyrir sig að finna – það er heilmikil áskorun sem felst í því, ekki síst á smásölumarkaði eins og ég starfa á þar sem söluherferðir eru mjög áberandi. Að lokum er það snúnasta í þessu og það eru persónuleg samskipti og raunverulegt virði fyrir neytendur. Neytendur vilja raunverulegt virði og samtal við vörumerkin, ekki bara auglýsingar – þetta er að mínu mati það sem er eitt það flóknasta við markaðssetningu framtíðarinnar og vefst enn þá fyrir flestum fyrirtækjum,“ segir Magnús Magnússon markaðsstjóri Húsasmiðjunnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert