Kári Sævarsson, einn af eigendum vörumerkjastofunnar Tvist, segir vandaðar auglýsingar lifa lengur.
Hvað hefurðu starfað lengi í auglýsingaiðnaðinum?
„Ég hef starfað í bransanum frá árinu 1999.“
Hvað er áhugavert að gerast á auglýsingamarkaðnum núna?
„Það vekur góða tilfinningu að sjá hvað efni sem framleitt er fyrir hin ýmsu almannaheillafélög er almennt af miklum gæðum. Það er gaman að sjá hvað það er mikið líf í matvörumarkaðinum þessa dagana og til fyrirmyndar að stóru matvörukeðjurnar eru að leggja sig fram um að skemmta fólki í bland við hefðbundnar auglýsingar.“
Hvernig hefur Lúðurinn breyst?
„Lúðurinn er sígild keppni og það eru gjarnan sömu lögmálin sem ráða úrslitum; húmor virkar vel, kvikmyndað efni með söguþræði nær oft árangri og í útvarpsflokki er einhvers konar útúrsnúningur á útvarpsdagskránni sjálfri vænlegur til vinnings.
Það er smá tilhneiging til að leggja áherslu á hugmyndirnar en það má alls ekki vanmeta afburðagott handverk. PR- flokkurinn er skemmtileg viðbót en ég hugsa að sá flokkur þurfi að þroskast aðeins til þess að ná sömu gæðum og rótgrónari flokkar Lúðursins.“
Af hverju skiptir máli að fá fagfólk í verkin?
„Reynsla og þekking fagfólks getur haft afgerandi áhrif þegar kemur að því að búa til vandaðar afurðir. Það sem er vandað endist yfirleitt lengur og getur reynst betri fjárfesting þegar upp er staðið.“
Hvort mælirðu með nýrri auglýsingastofu í hvert verkefni eða að stofna til lengra sambands við sömu auglýsingastofuna?
„Það er háð því hvaða vörumerki og fyrirtæki á í hlut. Það getur verið gagnlegt fyrir fyrirtæki að fá ferskar hugmyndir og ólík sjónarhorn á verkefnin sín frá mismunandi stofum en það setur þá pressu á markaðsdeildirnar að passa upp stóru myndina og gæta að því að það sé stöðugleiki í vörumerkinu. Í flestum tilvikum finnst okkur á Tvist langtímasambandið best því þá deila stofan og viðskiptavinurinn ábyrgðinni á velferð vörumerkisins yfir lengri tíma. Í langtímasambandi aukast líkurnar á því að bæði litlu og stóru verkefnin séu vel leyst. Það má heldur ekki gleyma persónulegum tengslum og vináttu sem oft verður til í lengri viðskiptasamböndum.“