„Verið í bransanum frá árinu 1999“

Kári Sævarsson segir persónuleg tengsl og vináttu skipta máli í …
Kári Sævarsson segir persónuleg tengsl og vináttu skipta máli í viðskiptum. Þegar fyrirtæki eru lengi á sömu stofunni þá deila báðir aðilar velferð vörumerkisins að hans mati.

Kári Sæv­ars­son, einn af eig­end­um vörumerkja­stof­unn­ar Tvist, seg­ir vandaðar aug­lýs­ing­ar lifa leng­ur.

Hvað hef­urðu starfað lengi í aug­lýs­ingaiðnaðinum?

„Ég hef starfað í brans­an­um frá ár­inu 1999.“

Hvað er áhuga­vert að ger­ast á aug­lýs­inga­markaðnum núna?

„Það vek­ur góða til­finn­ingu að sjá hvað efni sem fram­leitt er fyr­ir hin ýmsu al­manna­heilla­fé­lög er al­mennt af mikl­um gæðum. Það er gam­an að sjá hvað það er mikið líf í mat­vörumarkaðinum þessa dag­ana og til fyr­ir­mynd­ar að stóru mat­vöru­keðjurn­ar eru að leggja sig fram um að skemmta fólki í bland við hefðbundn­ar aug­lýs­ing­ar.“

Hvernig hef­ur Lúður­inn breyst?

„Lúður­inn er sí­gild keppni og það eru gjarn­an sömu lög­mál­in sem ráða úr­slit­um; húm­or virk­ar vel, kvik­myndað efni með söguþræði nær oft ár­angri og í út­varps­flokki er ein­hvers kon­ar út­úr­snún­ing­ur á út­varps­dag­skránni sjálfri væn­leg­ur til vinn­ings.

Það er smá til­hneig­ing til að leggja áherslu á hug­mynd­irn­ar en það má alls ekki van­meta af­burðag­ott hand­verk. PR- flokk­ur­inn er skemmti­leg viðbót en ég hugsa að sá flokk­ur þurfi að þrosk­ast aðeins til þess að ná sömu gæðum og rót­grón­ari flokk­ar Lúðurs­ins.“

Af hverju skipt­ir máli að fá fag­fólk í verk­in?

„Reynsla og þekk­ing fag­fólks get­ur haft af­ger­andi áhrif þegar kem­ur að því að búa til vandaðar afurðir. Það sem er vandað end­ist yf­ir­leitt leng­ur og get­ur reynst betri fjár­fest­ing þegar upp er staðið.“

Hvort mæl­irðu með nýrri aug­lýs­inga­stofu í hvert verk­efni eða að stofna til lengra sam­bands við sömu aug­lýs­inga­stof­una?

„Það er háð því hvaða vörumerki og fyr­ir­tæki á í hlut. Það get­ur verið gagn­legt fyr­ir fyr­ir­tæki að fá fersk­ar hug­mynd­ir og ólík sjón­ar­horn á verk­efn­in sín frá mis­mun­andi stof­um en það set­ur þá pressu á markaðsdeild­irn­ar að passa upp stóru mynd­ina og gæta að því að það sé stöðug­leiki í vörumerk­inu. Í flest­um til­vik­um finnst okk­ur á Tvist lang­tíma­sam­bandið best því þá deila stof­an og viðskipta­vin­ur­inn ábyrgðinni á vel­ferð vörumerk­is­ins yfir lengri tíma. Í lang­tíma­sam­bandi aukast lík­urn­ar á því að bæði litlu og stóru verk­efn­in séu vel leyst. Það má held­ur ekki gleyma per­sónu­leg­um tengsl­um og vináttu sem oft verður til í lengri viðskipta­sam­bönd­um.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert