Sigurbjörn Ari Sigurbjörnsson markaðsstjóri Nova situr í stjórn ÍMARK. Hann segir ÍMARK-daginn vera hápunkt ársins fyrir þá sem starfa innan markaðs- og auglýsingamála.
„ÍMARK-dagurinn er einn af hápunktum ársins fyrir okkur sem störfum innan markaðs- og auglýsingamála en þarna erum við að gefa fólki tækifæri á að læra af þeim bestu, sjá og fagna því besta innan auglýsingabransans á Íslandi, og gefa fólki tækifæri á að mynda tengsl við annað fólk í faginu,“ segir Sigurbjörn Ari Sigurbjörnsson markaðsstjóri Nova, sem einnig situr í stjórn ÍMARK. „Ég er með mikla ástríðu fyrir skapandi markaðssetningu, hinum stafræna heimi og stefnumótun,“ segir hann.
Spurður hvaða sýn hann hefur á markaðsmál svarar hann að þau snúist um að skapa virði. „Ekki bara með auglýsingum og herferðum heldur með heildrænni stefnu. Ég hef alltaf verið mikið fyrir akademíuna og módelin sem dregin eru fram þar en þar finnst mér 7P-framsetningin ná fullkomlega utan um þetta. Markaðsmál snerta á öllu – allt frá minnstu eiginleikum vörunnar sjálfrar yfir í stærstu auglýsingaskiltin.“
Sigurbjörn er með sterkar skoðanir á tilgangi markaðsherferða. „Herferðir þurfa fyrst og fremst að ná athygli en án hennar komast skilaboðin ekki áleiðis og þá fellur þetta um sig sjálft. Mantran okkar er því ávallt að vera fersk, skemmtileg og öðruvísi í skilaboðum okkar og nálgunum en þetta eru þau þrjú orð sem við notum sem leiðarstef þegar við þróum verkefni áfram. Samhliða þessu reynum við alltaf að nálgast herferðirnar okkar 360° þar sem útfærsla á öllum snertiflötum er úthugsuð. Hver miðill og samskiptaflötur hefur sína styrkleika og það eru ótrúleg tækifæri í að nýta þá til fulls. Það sem virkar á samfélagsmiðlum er ekki það sama og virkar í sjónvarpi eða á útiskilti. Við setjum áherslu á að laga útfærslurnar að hverjum miðli en samtímis tryggja að herferðin virki sem heild.“
Hvaða leiðir farið þið í að ná til markhóps á öllum aldri?
„Í mínum huga snýst þetta um tvennt. Fyrst og fremst er vörumerkið ein verðmætasta eign okkar og frá upphafi höfum við fjárfest markvisst í að byggja það upp. Þannig að hér erum við einfaldlega að tala um áherslur. Eitt af lykilmarkmiðum okkar er að skapa eitt stærsta og sterkasta vörumerkið því gott orðspor selur. Þetta endurspeglast í því að nálgun okkar að markaðssetningu byggist ekki bara á hefðbundnum herferðum heldur byggjum við mikið af markaðssetningu okkar á viðburðum, upplifunum og hvers kyns uppátækjum sem vekja athygli.
Á sama tíma þurfum við að halda áfram að hafa hugrekki og þora að vera nýjungagjörn. Nova er áskorandi. Við skorum á markaðinn, reglurnar og risaeðlurnar – það er einfaldlega í blóðinu okkar. Sem hluti af þessu höfum við verið óhrædd við að taka afstöðu og tala um það sem skiptir máli. Dæmi um þetta er geðræktarvegferðin okkar, þar sem við höfum lagt áherslu á vitundarvakningu gagnvart einu stærsta samfélagslega meini samtímans sem er óhófleg notkun snjalltækjanna okkar. Á þennan hátt látum við vörumerkið standa fyrir eitthvað stærra en bara vörurnar og þjónusturnar sem við bjóðum upp á – og það er það sem gerir okkur kleift að tala til breiðs hóps.“
Hver eru tækifærin í markaðsmálum dagsins í dag?
„Eflaust er ég hlutdrægur hér, þar sem ég kem upprunalega úr heimi stafrænnar markaðssetningar, en ég sé risastór tækifæri fyrir fyrirtæki á Íslandi að nýta sér betur viðskiptavinagögn til þess að tala á persónulegri hátt við viðskiptavini. Þetta er svo sem margkveðin vísa og gæti hljómað eins og ákveðin klisja en ég held að almennt eigi fyrirtæki hér á landi mikið inni þegar kemur að þessu. Ofan á þetta kemur náttúrulega þessi svakalega þróun gervigreindar síðustu ára sem mun auka enn frekar möguleika þegar kemur að því að sérsníða skilaboð og fækka handtökunum þar. Hér horfi ég allavega mjög spenntur til mikillar þróunar næstu ár,“ segir Sigurbjörn.
Hann trúir því að fagfólk í iðnaðinum þurfi vettvang til að hittast og mynda tengsl hvert við annað. „Markmið ÍMARK-dagsins er einmitt að styrkja fagið enn frekar með því að skapa vettvang fyrir okkur að læra hvert af öðru, deila reynslu og upphefja framúrskarandi markaðsstarf. Það er von mín að þau sem mæta verði óhrædd við að taka fræðsluna úr fyrirlestrunum áfram til umræðu sín á milli og skapa úr því enn frekari snilld!“