Að róa sama bátnum í sömu átt

Sighvatur Halldórsson, umsjónarhönnuður hjá Hvíta húsinu, segir að fagfólk á …
Sighvatur Halldórsson, umsjónarhönnuður hjá Hvíta húsinu, segir að fagfólk á auglýsingastofum þurfi að aðlagast breyttum tíma á auglýsingamarkaði. mbl.is/Aðsend

Sighvatur Halldórsson, umsjónarhönnuður hjá Hvíta húsinu, segir meiri hraða og meira um smærri verkefni á borðum auglýsingastofunnar nú en áður.

Hvað gerir umsjónarhönnuður á auglýsingastofu?

„Umsjónarhönnuður (e. art director) eða listrænn stjórnandi gerir margt og mikið. Hann passar upp á heildarásýnd þeirra vörumerkja sem hann er ábyrgur fyrir, að allt auglýsingaefnið sé á réttri leið og að ekki sé einhver auglýsing að segja einhverja vitleysu. Í raun að allt sem er sagt og gert sé í takt við vörumerkjastefnu þess. Ég vinn náið með hönnuðum en lít ekki endilega á mig sem yfirmann í þeim skilningi, en ég passa upp á að við séum að róa sama bátnum í sömu átt.“

Hvað ertu að gera núna?

„Ég er á bólakafi í teikningum akkúrat núna, svo það er fínt að dreifa aðeins athyglinni og tala við blaðamann Morgunblaðsins! Við erum að leggja lokahönd á annan fasa á merkingum í nýju höfuðstöðvum Icelandair.“

Hvað hefurðu starfað lengi í auglýsingaiðnaðinum?

„Ég er búinn að vinna hjá Hvíta húsinu frá því ég útskrifaðist sem grafískur hönnuður frá LHÍ árið 2013.“

Hvaða óvæntu hluti eruð þið að upplifa?

„Þegar ég horfi til baka og ber tímabilið núna saman við það sem ég hef upplifað áður þá fáum við fleiri smærri verkefni en áður. Við erum líka með fleiri birtingar utandyra (e. out of home advertising) svo sem auglýsingar á skiltum sem eru orðin mjög stór hluti af vinnunni okkar. Svo hefur verið mjög skemmtilegt að glíma við óvenjulegar stærðir og miðla erlendis eftir að Icelandair kom til okkar; hreyft efni á Times Square, landkynningu við göngugötur í Belgíu og herferð í Boston sem taldi vel á annað hundrað auglýsingafleti þegar maraþonið var haldið þar á síðasta ári. Í öllum þessum verkefnum þurfum við að hafa hugann við að fólk þekkir ekki endilega vörumerkið eða Ísland og því fylgir ákveðin áskorun líka.

En svo erum við alltaf með stór og trygg vörumerki líka sem við fylgjum eftir í áraraðir. Sjálfur á ég mína fasta viðskiptavini sem ég hef fengið að fylgja eftir lengi og kynnast vel, sem er dýrmætt.“

Hversu margir sérfræðingar koma að miðlungsstórri auglýsingaherferð hjá ykkur?

„Það eru allt frá átta til tíu einstaklingar sem koma að miðlungsstórri herferð á Hvíta húsinu. Það er hugmynda- og hönnunarstjóri (e. creative director), umsjónarhönnuður (e. art director), hönnuðir, hreyfihönnuðir, texta- og hugmyndasmiðir, viðskiptaráðgjafi og samfélags- og birtingaráðgjafar þar sem fara þarf í gegnum efni fyrir alla miðla.“

Er Hvíta húsið skemmtilegasti vinnustaðurinn?

„Já, heldur betur! Það er alveg ástæða fyrir því að ég hef verið hér í öll þessi ár. Það er einhver orka hérna, einhver fjölskyldustemning, sem hentar mér ofboðslega vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert