Að róa sama bátnum í sömu átt

Sighvatur Halldórsson, umsjónarhönnuður hjá Hvíta húsinu, segir að fagfólk á …
Sighvatur Halldórsson, umsjónarhönnuður hjá Hvíta húsinu, segir að fagfólk á auglýsingastofum þurfi að aðlagast breyttum tíma á auglýsingamarkaði. mbl.is/Aðsend

Sig­hvat­ur Hall­dórs­son, um­sjón­ar­hönnuður hjá Hvíta hús­inu, seg­ir meiri hraða og meira um smærri verk­efni á borðum aug­lýs­inga­stof­unn­ar nú en áður.

Hvað ger­ir um­sjón­ar­hönnuður á aug­lýs­inga­stofu?

„Um­sjón­ar­hönnuður (e. art director) eða list­rænn stjórn­andi ger­ir margt og mikið. Hann pass­ar upp á heild­ar­ásýnd þeirra vörumerkja sem hann er ábyrg­ur fyr­ir, að allt aug­lýs­inga­efnið sé á réttri leið og að ekki sé ein­hver aug­lýs­ing að segja ein­hverja vit­leysu. Í raun að allt sem er sagt og gert sé í takt við vörumerkja­stefnu þess. Ég vinn náið með hönnuðum en lít ekki endi­lega á mig sem yf­ir­mann í þeim skiln­ingi, en ég passa upp á að við séum að róa sama bátn­um í sömu átt.“

Hvað ertu að gera núna?

„Ég er á bólakafi í teikn­ing­um akkúrat núna, svo það er fínt að dreifa aðeins at­hygl­inni og tala við blaðamann Morg­un­blaðsins! Við erum að leggja loka­hönd á ann­an fasa á merk­ing­um í nýju höfuðstöðvum Icelanda­ir.“

Hvað hef­urðu starfað lengi í aug­lýs­ingaiðnaðinum?

„Ég er bú­inn að vinna hjá Hvíta hús­inu frá því ég út­skrifaðist sem graf­ísk­ur hönnuður frá LHÍ árið 2013.“

Hvaða óvæntu hluti eruð þið að upp­lifa?

„Þegar ég horfi til baka og ber tíma­bilið núna sam­an við það sem ég hef upp­lifað áður þá fáum við fleiri smærri verk­efni en áður. Við erum líka með fleiri birt­ing­ar ut­an­dyra (e. out of home advert­is­ing) svo sem aug­lýs­ing­ar á skilt­um sem eru orðin mjög stór hluti af vinn­unni okk­ar. Svo hef­ur verið mjög skemmti­legt að glíma við óvenju­leg­ar stærðir og miðla er­lend­is eft­ir að Icelanda­ir kom til okk­ar; hreyft efni á Times Square, land­kynn­ingu við göngu­göt­ur í Belg­íu og her­ferð í Bost­on sem taldi vel á annað hundrað aug­lýs­ingafleti þegar maraþonið var haldið þar á síðasta ári. Í öll­um þess­um verk­efn­um þurf­um við að hafa hug­ann við að fólk þekk­ir ekki endi­lega vörumerkið eða Ísland og því fylg­ir ákveðin áskor­un líka.

En svo erum við alltaf með stór og trygg vörumerki líka sem við fylgj­um eft­ir í ár­araðir. Sjálf­ur á ég mína fasta viðskipta­vini sem ég hef fengið að fylgja eft­ir lengi og kynn­ast vel, sem er dýr­mætt.“

Hversu marg­ir sér­fræðing­ar koma að miðlungs­stórri aug­lýs­inga­her­ferð hjá ykk­ur?

„Það eru allt frá átta til tíu ein­stak­ling­ar sem koma að miðlungs­stórri her­ferð á Hvíta hús­inu. Það er hug­mynda- og hönn­un­ar­stjóri (e. creati­ve director), um­sjón­ar­hönnuður (e. art director), hönnuðir, hreyfi­hönnuðir, texta- og hug­mynda­smiðir, viðskiptaráðgjafi og sam­fé­lags- og birt­ingaráðgjaf­ar þar sem fara þarf í gegn­um efni fyr­ir alla miðla.“

Er Hvíta húsið skemmti­leg­asti vinnustaður­inn?

„Já, held­ur bet­ur! Það er al­veg ástæða fyr­ir því að ég hef verið hér í öll þessi ár. Það er ein­hver orka hérna, ein­hver fjöl­skyldu­stemn­ing, sem hent­ar mér ofboðslega vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert