Hönnunarhugsun í öllu sem hún gerir

María Hjálmarsdóttir, eigandi MH ráðgjafar og verkefna- og viðburðastjóri hjá …
María Hjálmarsdóttir, eigandi MH ráðgjafar og verkefna- og viðburðastjóri hjá ÍMARK. mbl.is/Karítas

María Hjálmarsdóttir er nýr verkefna og viðburðastjóri hjá ÍMARK. Hún lærði við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn þar sem hún starfaði í áratug og segir engan afslátt hægt að gefa þegar kemur að gæðum í auglýsingum.

„Allt frá því ég man eftir mér hef ég haft áhuga á fjölmiðlun og skapandi hugsun. Í námi mínu við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn (e. Copenhagen Business School) var mikil áhersla lögð á skapandi hugsun en ég tók grunnnám í viðskipta- og markaðsfræði og tók síðan meistaragráðu í frumkvöðla- og nýsköpunarfræði,“ segir María Hjálmarsdóttir, eigandi MH ráðgjafar, og nýr verkefna- og viðburðastjóri hjá ÍMARK.

María er fædd og uppalin á Eskifirði en flutti þaðan þegar hún var sextán ára að aldri. „Þegar ég hafði búið í Danmörku í tíu ár þótti mér mjög spennandi að flytja aftur heim á Eskifjörð með fjölskylduna og þar hóf ég störf sem verkefnastjóri fyrir Austurbrú þar sem ég tók að mér að stýra mismunandi verkefnum í byggðaþróun og ferðaþjónustu. Síðustu árin hjá Austurbrú stýrði ég markaðsverkefninu „Visit Austurland“.

Ég starfaði í tæpan áratug fyrir Austurbrú og hef tekið að mér fjölmörg áhugaverð verkefni fyrir önnur sveitarfélög og stjórnsýsluna eftir að ég hætti þar og fór að starfa sjálfstætt. Þeir sem þekkja mig vita að ég kem hönnunarhugsun og skapandi ferlum inn í allt sem ég geri og er þeirrar skoðunar að gott samband við auglýsingastofur geri gæfumuninn og hef ég aldrei viljað spara þegar kemur að faglegum vinnubrögðum og fagfólki í mínum markaðsherferðum enda var áherslan mín í meistaranáminu frumkvöðlahugsun í stjórnsýslunni, og að koma skapandi hugsun inn á hefðbundnar stofnanir.“

Hörð þegar kemur að hönnun

Í öllum þeim verkefnum sem María kemur að er ákveðin fagurfræði og áferð. „Ég er alltaf að vinna með þessa áferð og svo vita þeir sem þekkja mig að ég er mjög hörð þegar kemur að hönnun. Ég vil fá hönnuði í allt sem ég geri, allar auglýsingar og markaðsefni og að verið sé að huga að ákveðinni fagurfræði. Ég hef alltaf séð mitt hlutverk í starfi að passa að markaðsskilaboðin séu í takt við hönnunina og að markaðsefnið sé að birtast á réttum stöðum.

Heildin í verkefnum skiptir mig máli. Það er ekki nóg að vera með frábæran boðskap ef framkvæmdin skilar sér ekki á réttan stað alveg eins og það er glatað ef veitingastaður er með frábæran mat en lýsingin og tónlistin er glötuð. Allt þarf að spila saman og þannig skapast góð upplifun fyrir öll skilningarvitin,“ segir hún og bætir við að það kunni ekki góðri lukku að stýra í markaðssetningu að birtast á öllum réttum stöðum með auglýsingu ef skilaboðin eru léleg. „Við elskum sögur og þegar auglýsingin hreyfir við okkur tilfinningalega,“ segir María.

Iðnaður sem skapar fjölbreytt og skemmtileg störf

Hvað getur þú sagt okkur um störfin í markaðsdeildum og auglýsingaiðnaðinum?

„Það eru ótrúlega fjölbreytt störf í iðnaðinum okkar og áhugavert að sjá alls konar fólk starfa saman í verkefnum. Á auglýsingastofum sem dæmi eru einstaklingar að gera leiðarlínur fyrir hugmyndavinnuna (e. creative brief), textavinnu, tæknimenntað fólk, viðskiptatenglar og birtingastjórar svo eitthvað sé nefnt. Þegar auglýsing er gerð þá eru hlauparar, ljósafólk, upptökustjóri, sérfræðingur í myndsetningu, leikstjóri, „casting“-fólk, leikarar, förðunarfræðingar, hárgreiðslufólk og áfram mætti telja. Í markaðsdeildum fyrirtækja starfa vel menntaðir einstaklingar með mikla reynslu en það sem er skemmtilegast við iðnaðinn er í raun hvað hann er fjölbreyttur og öll þessi störf skipta miklu máli fyrir heildarmyndina

Sjálf hef ég reynslu af því að starfa með viðskiptatenglum á auglýsingastofum en sambandinu við þá má helst líkja við hjónaband. Mér finnst skipta máli að stofna til langtímasambands við auglýsingastofu til að fá fram ákveðna gagnkvæmni, og að stofan fjárfesti í velgengni auglýsinganna til lengri tíma líkt og fyrirtækin gera.“

Íslendingar ná ótrúlegum árangri erlendis

María er á því að það geti verið gott fyrir Ísland að unga fólkið fari til útlanda í nám ekki síst til að fá smá fjarlægð á iðnaðinn hér heima og sjá hvað er að gerast í öðrum löndum. „Það er allt öðruvísi upplifun að búa í Danmörku en hér á Íslandi. Stærsti munurinn finnst mér sá að við Íslendingar erum svo mikið að bregðast við hlutum á meðan Danir gera langtímaáætlanir sem þeir halda sig við.

Hér á Íslandi þarf allt að gerast strax og hlutirnir mega ekki kosta mikið á meðan Danir eru með gott skipulag og gott pláss fyrir skapandi hugsun. Danir hafa ekki neinar náttúruauðlindir aðrar en mannauðinn á meðan við höfum vatnið og orkuna. Þeir eru með Lego og Bang og Olufsen og það er svo inngróið í menninguna þeirra að skapa verðmæti með hugmyndum,“ segir María en bætir við að þegar upp kemur krísa þá sé engin þjóð með tærnar þar sem Íslendingar eru með hælana. „Þú vilt hafa Íslendinga með þér í brekkunum. Ætli náttúruöflin hafi ekki gert okkur þannig? Það eru kannski ekki margir sem átta sig á því en þegar sem dæmi eldgos verða þá þarf stundum að breyta öllum skilaboðum til almennings í landinu og ferðamanna. Það er mín skoðun að við þurfum gott auglýsinga- og markaðsfólk í allar krísur.“

Eftir að María kom heim frá Danmörku fannst henni Ísland svolítið vera eins og Villta vestrið. „Ég held að það mundi gera okkur mjög gott að setja almannahagsmuni ofar sérhagsmunum og fara að horfa meira til framtíðar. Það myndi búa til betra starfsumhverfi fyrir allar stéttir í landinu. Við markaðsfólk erum mjög stolt af okkar stétt og höfum, með aðstoð okkar fagfólks á auglýsingastofum, gert alveg magnaðar markaðsherferðir sem hafa slegið í gegn út um allan heim. Af því getum við verið mjög stolt.“

Gervigreindin á ekki að taka yfir sköpunina

Hún segir aldrei hafa verið auðveldara en nú að búa til markaðsefni og lógó á netinu. „Það er algjörlega bannað í mínum huga að nota gervigreindina þannig. Við eigum heldur að nota hana til að auðvelda leiðinlegu störfin okkar og búa til meira svigrúm til að skapa eitthvað magnað og flott. Enda er svo mikið suð þarna úti og markaðsherferðir sem gerðar eru í flýti ná engum árangri. Það jafnast einnig ekkert á við að vera í faðmi góðrar auglýsingastofu sem fylgir manni eftir og er með manni í liði. Ég held að við munum vera fljót að átta okkur á því að við þurfum að fara til baka til þess tíma þegar við reyndum ekki að spara á þennan hátt. Sér í lagi þegar við erum að búa til vönduð vörumerki fyrir framtíðina.“

„Lúðurinn er Óskarinn okkar“

Hún segir mikilvægt fyrir markaðsfólk og starfsfólk á auglýsingastofum að eiga ÍMARK-daginn saman til að efla tengsl og deila hugmyndum. „ÍMARK-dagurinn er skipulagður þannig að allir ættu að finna eitthvað fyrir sinn smekk. Við erum með þrjá erlenda fyrirlesara. Phill Agnew sem stýrir NUDGE-hlaðvarpinu sem er vinsælasta markaðshlaðvarp Bretlands. Hann fjallar um vísindin á bak við sannfærandi markaðssetningu.

Dr. Fleur Horner er sérfræðingur í að breyta gögnum í sannfærandi sögur og Mark Brennan, markaðsstjóri Allianz á Írlandi, sem hefur starfað báðum megin við borðið, á auglýsingastofu og við markaðsmál í fyrirtækjum. Þessir þrír einstaklingar eru valdir af mikilli kostgæfni til að koma af stað umræðum og efla okkur í ákveðinni hugsun. Ég vildi hafa dagskrána þannig að það væri gott bil á milli dagskrárliða svo gestir ráðstefnunnar gætu fengið sér kaffi og spjallað.

Svo er Lúðurinn um kvöldið en það er Óskarinn okkar þar sem frumlegar, skapandi og snjallar hugmyndir, sem útfærðar eru á framúrskarandi hátt, hljóta viðurkenningu. Áran eru svo verðlaun sem ÍMARK veitir fyrir árangursríkustu auglýsingaherferð ársins. Ég vona svo sannarlega að sem flest af okkar fólki mæti og að almenningur í landinu fylgist með og geti verið stoltur af öllu því fagfólki sem leggur dag við nótt í að búa til einstakt efni sem snertir við okkur öllum,“ segir María.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert