„Það eru tækifæri í áskorunum“

Arndís Huld Hákonardóttir, forstöðumaður mörkunar, markaðsmála og almannatengsla Bláa Lónsins, …
Arndís Huld Hákonardóttir, forstöðumaður mörkunar, markaðsmála og almannatengsla Bláa Lónsins, segir reglulega gaman að sitja í stjórn ÍMARK. Hún er spennt fyrir ÍMARK-deginum og vonar að Háskólabíó verði fullt út úr dyrum. mbl.is/Aðsend

Arndís Huld Hákonardóttir, forstöðumaður mörkunar, markaðsmála og almannatengsla Bláa Lónsins, segir reglulega gaman að sitja í stjórn ÍMARK.

„ÍMARK-dagurinn er alltaf jafn skemmtilegur fyrir fólk sem hefur áhuga á eða vinnur við markaðsmál. Við höfum verið heppin að fá til okkar öfluga fyrirlesara sem vilja deila reynslu sinni með okkur. Það situr enn í mér einn fyrirlestur frá því í fyrra sem fjallaði um markaðssetningu til eldri kynslóða. Það voru mjög öflug og flott skilaboð“ segir Arndís Huld Hákonardóttir, forstöðumaður mörkunar, markaðsmála og almannatengsla Bláa Lónsins. „Eins er reglulega gaman að sitja í stjórn ÍMARK. Allir stjórnarmeðlimir eru einstaklega flott, skapandi og skemmtilegt fólk og það eru hrein forréttindi að fá að sitja við hlið þeirra og halda áfram að efla þessi mikilvægu og rótgrónu samtök.“

Ljósmynd úr markaðsherferð Bláa Lónsins.
Ljósmynd úr markaðsherferð Bláa Lónsins. mbl.is/Cindy Rún Li

Arndís segir markaðsmál í grunninn snúast um hegðun og tilfinningar. „Við erum alltaf að segja sögur. Hvernig við komum þeim til skila er svo mikilvægt. Hvaða tilfinningar viljum við vekja hjá fólki? Í heimi ofgnóttar af skilaboðum fer það að segja sögur að vera enn mikilvægara því vörumerkið þarf að ná í gegnum áreitið á markaðnum. Að auki finnst mér gagnsæi og heiðarleiki skipta máli. Í ljósi þeirra breytinga sem birtast okkur í heimi gervigreindar, „filtera“ og neyslu, skiptir tvennt því höfuðmáli: Að fyrirtæki séu heiðarleg í samskiptum við neytanda og að neytandi taki upplýstar ákvarðanir.“

Ísland á í samkeppni við áfangastaði víða um heiminn

Bláa Lónið hefur náð undraverðum árangri í markaðsherferðum sínum á erlendum vettvangi og segir Arndís Ísland eiga í samkeppni við áfangastaði víða um heiminn. „Margir þessara áfangastaða geta leitað í sambærilega fjársjóðskistu náttúru og sögu og við getum. Í því ljósi skiptir gríðarmiklu máli að efla sérstöðu Íslands á markaði og segja þá sögu á ábyrgan og fallegan máta en ekki síður að tryggja samfellu í skilaboðum og þeirri sögu sem við viljum styrkja.

Arndís segir Bláa Lónið í samkeppni við aðra staði í …
Arndís segir Bláa Lónið í samkeppni við aðra staði í heiminum sem bjóða upp á fallega náttúru. mbl.is/Ari Magg

Bláa Lónið hefur unnið ötullega að því í marga áratugi að byggja upp sterkt vörumerki í gegnum ásýnd, myndefni, frásagnir og það að vera með einstaka vöru í höndum sem gefur gestum óviðjafnanlega upplifun og þjónustu. Það eru því hrein forréttindi að vinna með slíkt vörumerki á erlendum mörkuðum, því mælingar hafa sýnt að Bláa Lónið er mikilvægur hlekkur í að ferðamenn velji að heimsækja Ísland. Að því sögðu þá er líka gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að vinna að því að efla vörumerkið okkar enn frekar hérlendis, ekki síst þar sem Bláa Lónið er stór vinnustaður sem er svo heppið að hafa einstakt og öflugt fólk í sínum röðum.“

Jarðhræringar hafa mikil áhrif á markaðssetningu fyrirtækja og má áætla að sérfræðingar Bláa Lónsins séu orðnir mjög vanir markaðskrísum. „Þegar jarðhræringar verða þá eru mikilvægustu þættirnir í markaðsmálum, í stuttu máli, upplýsingaflæði, jákvæðni, þrautseigja, sveigjanleiki, og útsjónarsemi,“ segir hún og bætir við að þrautseigja þurfi helst að koma tvisvar fyrir í þessari upptalningu. „Það er líka mikilvægt að muna að krísur, eða áskoranir, eru tímabundið ástand. Rétt hugarfar og réttur hópur sem vinnur að sama markmiðinu skiptir öllu máli. Mikilvægt er að hafa alltaf augun á framtíðarsýninni og hvernig við ætlum að koma til baka úr krísunni. Það eru líka tækifæri í áskorununum og verkefnið er að grípa þau samhliða því að bregðast við aðstæðum. Það er risastórt verkefni.“

Markaðsherferðir Bláa Lónsins hafa vakið athygli víða um heiminn.
Markaðsherferðir Bláa Lónsins hafa vakið athygli víða um heiminn. mbl.is/Ari Magg

Gervigreindin færir áhugaverð tækifæri

Hver eru tækifærin í markaðsmálum dagsins í dag?

„Fyrst og síðast er það í raun að segja sögur á hátt sem hreyfir við neytandanum og breytir hegðun. Í raun eru það ekki ný sannindi. Enda þótt fjölmiðlalandslagið og neytendahegðunin hafi breyst gríðarlega mikið á stuttum tíma eiga grunnhugtökin enn við: Að hafa alltaf hugfast mikilvægi þess að hafa góða blöndu af stefnumótandi og „taktískri“ markaðssetningu. Oftar en ekki fær stefnumótandi mörkun að víkja fyrir taktískum söluaðgerðum, en slíkt er sjaldan vænlegt til árangurs til lengri tíma. Mörkun og þar með ímyndaruppbygging er alltof oft víkjandi og hér eigum við vissulega inni. Í þessu samhengi eru þá gögn gríðarlega mikilvæg. En þó er mun mikilvægara að rýna þau rétt og til gagns sem og nýta þau í verki. Svo eru auðvitað alls kyns tækifæri í gervigreindinni sem miða að því að auka við skilvirkni, en við höfum innleitt hana hjá okkur og þjálfað hana til að aðstoða okkur í verkefnum fyrir mismunandi áfangastaði. Einnig erum við að skoða ýmsar leiðir til þess að nýta hana enn frekar, meðal annars til að geta farið að tala við og út frá þeim persónuleikum sem við höfum skilgreint fyrir dæmigerða viðskiptavini okkar. Þetta er mjög spennandi vegferð þar sem við leiðum saman tækni og mannshöndina til þess að þekkja viðskiptavin okkar enn betur. Á sama tíma opnast rými fyrir starfsfólk markaðsdeildar til þess að setja enn meiri athygli á stóru myndina þar sem rútínuverkefnin fara í gegnum gervigreind í upphafi. Þetta sparar tvímælalaust tíma án þess að það komi niður á gæðum.“

Að vekja upp tilfinningar er mikilvægt í markaðsherferðum. Þessi fallega …
Að vekja upp tilfinningar er mikilvægt í markaðsherferðum. Þessi fallega ljósmynd vekur upp góðar tilfinningar að mati margra. mbl.is/Ari Magg

Arndís sér framtíðina fyrir sér sem bjarta, böðuð bláum ljóma. „Ég vona að við munum fylla salinn í Háskólabíó á ÍMARK-daginn og að við getum notað daginn til að fræðast um eitthvað nýtt og deila reynslu okkar áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert