Það heyrist hverjir lesa bækur!

Bókamarkaðurinn hefur verið opnaður á nýjum stað því nú stendur …
Bókamarkaðurinn hefur verið opnaður á nýjum stað því nú stendur Bókakarlinn vaktina í Holtagörðum og býður þar upp á aragrúa bóka af öllum toga. mbl.is/ernir

Bóka­markaður­inn hef­ur verið opnaður á nýj­um stað því nú stend­ur Bóka­karl­inn vakt­ina í Holta­görðum og býður þar upp á ara­grúa bóka af öll­um toga.

Það þarf mörg hand­tök svo allt sé til reiðu á Bóka­markaðinum, raða bók­um, ráða fólk og sjá um merk­ing­ar. Bóka­karl­inn ann­ast þetta allt einn síns liðs en gef­ur sér samt tíma til að setj­ast niður með blaðamanni og ræða bæk­ur, stærstu ástríðuna í lífi hans.

„Mesta fjörið er alltaf í barna­deild­inni. Barna­fjöl­skyld­ur hafa mjög gam­an af að koma á markaðinn og þá fá börn­in gjarn­an að velja sér sjálf bók, jafn­vel fleiri en eina. Það er skemmti­legt að sjá hvað þau verða ábyrgðarfull og taka sér góðan tíma í að velja. For­eldr­arn­ir vilja síðan nýj­ar sög­ur að lesa fyr­ir svefn­inn. Það er dýr­mætt í ann­ríki dags­ins að gefa sér þessa ljúfu lestr­ar­stund á meðan svefn­inn síg­ur að.

Afar og ömm­ur koma líka oft með barna­börn­in og eng­inn fer tóm­hent­ur heim. Börn­in hafa ekk­ert endi­lega gam­an af sömu bók­un­um og við mynd­um velja handa þeim. Því er gott að þau ráði ferðinni.“

Bókakarlinn stendur vaktina á bókamarkaðnum í HOltagörðum þar sem má …
Bóka­karl­inn stend­ur vakt­ina á bóka­markaðnum í HOlta­görðum þar sem má finna alls kyns bæk­ur fyr­ir alla. Ljós­mynd/​Aðsend

Opið fram á kvöld

Bóka­markaður­inn stend­ur til 16. mars og verður opið alla daga frá kl. 10.00-20.00 og það er mik­ill hug­ur í Bók­ar­karl­in­um. „Í fyrra seld­ust hér 100.426 bæk­ur! Nú vil ég bæta um bet­ur og selja að minnsta kosti 105.000 bæk­ur!“

Fasta­gest­ir Bóka­markaðar­ins eru orðnir kær­ir vin­ir Bóka­karls­ins. „Bæk­ur sam­eina fólk. Það þarf ekki annað en að benda á bók og spyrja næstu mann­eskju hvort hún hafi lesið hana til að sam­ræður kvikni. Hingað kem­ur sama kon­an ár eft­ir ár og kaup­ir sér Lær­dóms­rit Bók­mennta­fé­lags­ins og um tíma mætti hingað alltaf ung­ur maður til að næla sér í ljóðabæk­ur frá 10. ára­tugn­um.

Nú er hann sjálf­ur far­inn að yrkja. Fólk vill eiga ljóðabæk­ur upp í hillu. Þær þarf jú að lesa oft. Ann­ars er áhugi manna svo mis­jafn. Til eru lestr­ar­hest­ar sem lesa bók­staf­lega allt! Það get­ur verið gam­an að kíkja ofan í inn­kaupa­körf­una hjá þeim. Eitt er víst að hver kyn­slóð þarf nýj­ar sög­ur og nýj­ar sögu­hetj­ur. Þetta vita rit­höf­und­ar og þess vegna hef­ur bóka­markaður­inn starfað svona lengi.“

Bókamarkaðurinn stendur til 16. mars og verður opið alla daga …
Bóka­markaður­inn stend­ur til 16. mars og verður opið alla daga frá kl. 10.00-20.00 mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Bók er besta gjöf­in

Bóka­karl­inn bend­ir á hvað bók­in sé góð tæki­færis­gjöf. „Hver fúls­ar við fal­lega inn­pökkuðu smá­sagna­safni?" Og hann svar­ar sér sjálf­ur: „Ekki nokk­ur maður! Ég tala nú ekki um hvað bók er líka dá­sam­leg skírn­ar-, ferm­ing­ar- og af­mæl­is­gjöf.“

Bóka­markaður­inn opnaði fyrst dyr sín­ar árið 1952 og var Bóka­karl­inn þá óðara ráðinn til starfa. Í upp­hafi var markaður­inn í Lista­manna­skál­an­um við hlið Alþing­is­húss­ins og lengi vel var líka starf­rækt pönt­un­arþjón­usta í sér­stöku síma­núm­eri. Slag­orðið var: „Pönt­un­arþjón­usta fyr­ir alla lands­menn til sjós og lands! All­an sól­ar­hring­inn!“

„Ég var sí­vak­inn yfir bók­un­um,“ rifjar Bóka­karl­inn upp. „Fólk hringdi um miðjar næt­ur til að panta Ástarpakk­ann, Trúarpakk­ann eða Dul­rænapakk­ann sem höfðu þegar verið tekn­ir sam­an. Þá voru bæk­ur um hand­an­heima ákaf­lega vin­sæl­ar. Einu sinni kom hingað miðill sem sagði að þar væri líka til bóka­karl sem langaði að hafa sam­band við mig. Ég varð aldrei var við hann. Lík­lega er ég ekki mjög and­leg­ur þegar allt kem­ur til alls.“

Gamla krón­an í fullu gildi!

Lengi vel var kjör­orð Bóka­markaðar­ins: „Gamla krón­an í fullu gildi!“ Síðan hef­ur mikið vatn runnið til sjáv­ar og gamla krón­an öll­um gleymd.

„Slag­orðið skýrist af því að í gamla daga voru eng­ar bóka­út­söl­ur eins og nú tíðkast. Bóka­markaður­inn var því hátíð þeirra sem vildu bæk­ur á góðu verði. Verðlagið á markaðinum er auðvitað enn ákaf­lega hag­stætt og hér má finna mikl­ar ger­sem­ar.“

Bóka­markaður­inn er ekki aðeins í Reykja­vík því á haust­in er hann hald­inn á Ak­ur­eyri enda Norðlend­ing­ar ann­álaðir bókaunn­end­ur. Sjálf­ur er Bóka­karl­inn auðvitað mik­ill lestr­ar­hest­ur.
„Ég var einn af þess­um krökk­um sem stalst til að lesa með vasa­ljós und­ir sæng­inni þótt ég ætti að vera löngu sofnaður. Skáld­sög­ur eiga hug minn og hjarta en líka lífs­stíls­bæk­ur því eft­ir því sem ég eld­ist huga ég bet­ur að heils­unni en ég gerði. Nú fer ég ekki fram úr á morgn­ana án þess að þakka fyr­ir allt það góða sem lífið hef­ur gaukað að mér, til dæm­is hatt­inn minn góða sem ég sef alltaf með. Mér finnst ég ekki vera ég sjálf­ur án hatts­ins. Síðan teygi ég úr skrokkn­um þar til skrjáf­ar í mér öll­um. Þá fyrst get­ur dag­ur­inn haf­ist.“

Hver kynslóð þarf nýjar sögur og nýjar söguhetjur og það …
Hver kyn­slóð þarf nýj­ar sög­ur og nýj­ar sögu­hetj­ur og það má finna ansi marg­ar skemmti­leg­ar sögu­hetj­ur á bóka­markaðnum. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Ástin vakn­ar yfir stöfl­un­um

Þegar Bóka­karl­inn er spurður nán­ar út í þakk­lætið kem­ur í ljós að hann þakk­ar fyr­ir margt fleira en hatt­inn – þótt hann sé vissu­lega góður fyr­ir sinn hatt. „Ég er líka þakk­lát­ur fyr­ir all­ar sög­urn­ar sem ég á enn eft­ir að lesa og vin­ina sem ég hef eign­ast hér á meðal bók­anna. Íslend­ing­ar eru bókaþjóð. Við skrif­um bæk­ur, les­um þær, ræðum, spegl­um okk­ur í per­són­un­um, lær­um inn á siði annarra, auk­um víðsýni okk­ar og það er aldrei of mikið af ein­mitt henni. Ekki hefði ég hug­mynd um hvernig er að fara á hesti yfir brenn­heita eyðimörk­ina hefði ég ekki lesið Lukku-Láka og síðan drakk ég svo mikið kaffi með sögu­per­són­um Guðrún­ar í Lundi að ég svaf ekki í viku eft­ir að ég lauk við Dala­líf.

Sög­ur auðga líf okk­ar.“

Bóka­markaður­inn sjálf­ur hef­ur líka breytt lífi gest­anna. „Hér hafa hjóna­bönd orðið til,“ seg­ir Bóka­karl­inn sposk­ur á svip. „Fyr­ir fá­ein­um árum teygði ung kona sig í kross­gátu­blað, snerti óvart hönd ann­ars kross­gátu­unn­anda, þau tóku tal sam­an og ári síðar keyptu þau hannyrðabók til að henda í heim­far­ar­sett,“ seg­ir Bóka­karl­inn og hlær. Hann bæt­ir því við að kross­gátu­blöðin séu óskap­lega vin­sæl á markaðnum en sömu­leiðis hand­bæk­ur um potta­blóm eða prjóna­lykkj­ur og ævi­sög­ur lista­fólks og lukk­uridd­ara.

„Sann­ir bókaunn­end­ur eiga ekki aðeins gott bóka­safn heima hjá sér, held­ur líka í sum­ar­bú­staðnum. Síðan þarf að taka með sér skáld­sög­ur og kross­gátu­blöð til Teneri­fe. Þar mætti nú opna ís­lenskt bóka­safn svo þjóðinni leiðist ekki á sund­laug­ar­bakk­an­um og bjóða jafn­vel upp á upp­lest­ur úr jóla­bók­un­um á aðvent­unni!“

Guðmundur Hauksson, starfsmaður Eddu útgáfu, stillir upp hluta af fjölbreyttu …
Guðmund­ur Hauks­son, starfsmaður Eddu út­gáfu, still­ir upp hluta af fjöl­breyttu úr­vali út­gáf­unn­ar á bóka­markaðnum. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Þjóðin elsk­ar bæk­ur

Bóka­karl­inn læt­ur aug­un reika yfir alla bók­astafl­ana. Ungt par grúf­ir sig yfir spennu­bæk­urn­ar og krakki sit­ur flöt­um bein­um á gólf­inu með mynda­bók. „Það heyr­ist hverj­ir lesa bæk­ur," seg­ir Bóka­karl­inn. „Þetta er orðheppn­asta og áhuga­verðasta fólkið! Og gjarn­an hæ­versk­ara en geng­ur og ger­ist. Ég læt mig dreyma um hlaðvörp og marga skemmti­lega sjón­varpsþætti þar sem fólk hvaðanæva að af land­inu seg­ir frá upp­á­halds­bók­un­um sín­um.

Hér á landi er fjöld­inn all­ur af les­hóp­um sem taka mætti tali svo ekki sé minnst á rit­höf­und­ana, þýðend­urna og mynd­höf­und­ana. Ég er bara einn fjöl­margra bráðnauðsyn­legra milliliða sem komið hafa bók­un­um í hend­ur les­enda ára­tug­um sam­an. Þegar ég leiði hug­ann að öll­um þeim fjölda bóka verð ég him­inglaður. Ég er svo sann­ar­lega á rétt­um kili.“

Það kveður við ösk­ur. „Mamma!“ Krakk­inn er staðinn á fæt­ur og skim­ar áhyggju­full­ur í kring­um sig. Bóka­karl­inn sprett­ur á fæt­ur. „Við finn­um hana mömmu þína sam­an!“ seg­ir hann við barnið. Þar með er viðtal­inu lokið. Bóka­karl­inn hef­ur mik­il­væg­um hnöpp­um að hneppa. Hann gef­ur sér þó tíma til kveðja mig áður en hann gríp­ur í hönd barns­ins og leiðir það til bókumhlaðinn­ar konu í glæpa­sagna­deild­inni. Svona eru bestu sög­urn­ar. Maður get­ur al­gjör­lega gleymt sér í þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert