Ingvar Hjálmarsson, fráfarandi framkvæmdastjóri Nox Medical, er formaður Hugverkaráðs Samtaka iðnaðarins. Hann segir ótal tækifæri í boði fyrir Ísland ef það býr til stöðugt samkeppnishæft umhverfi fyrir tæknifyrirtækin í landinu.
„Hugverkaráð Samtaka iðnaðarins er vettvangur umræðu um stöðu og stefnu hugverkaiðnaðarins. Markmiðið er að vekja athygli á tækifærum í greininni með virku samtali við stjórnvöld,“ segir Ingvar Hjálmarsson, fráfarandi framkvæmdastjóri Nox Medical, sem gegnt hefur stöðu formanns Hugverkaráðs að undanförnu.
Að sögn Ingvars var umræðan um gervigreindarkapphlaupið áberandi á nýafstöðnu Iðnþingi 2025. „Ég var einmitt í pallborði þeirrar umræðu. Það er lykilatriði að stjórnvöld og atvinnulíf grípi þetta byltingarkennda tækifæri til verðmætasköpunar og útflutnings. Í heimi þar sem óvissa í utanríkismálum eykst verður að tryggja aðgengi að gervigreindartækni sem oft er í höndum stórra alþjóðlegra fyrirtækja. Lífskjör Íslendinga eru rígbundin við getu okkar til að búa til verðmæti og flytja þau úr landinu. Á tímum óvissu í utanríkismálum er því mikilvægt að utanríkisstefna okkar sé með þann ásetning að tryggja Íslendingum aðgengi að tækni og lausnum í gervigreind sem leidd er af stórum erlendum fyrirtækjum.“
Það sem er áhugavert við Hugverkaráð er að þar má finna forsvarsmenn hinna ýmsu tæknifyrirtækja í landinu. Sem dæmi líftæknifyrirtækja, leikjafyrirtækja, uppýsingatæknifyrirtækja og gagnavera svo einhver séu nefnd. Ingvar segir Ingólf Bender, aðalhagfræðing Samtaka iðnaðarins, hafa gert áhugaverða útreikninga byggða á vexti fyrirtækja í þessum iðnaði og að hann hafi bent á að Ísland sé á mörkum auðlindadrifins og hugverkadrifins hagkerfis. „Hann spáði því að 30% útflutningstekna landsins muni koma frá hugverkaiðnaði árið 2030 sem myndi gera hann að stærstu útflutningsstoðinni. Þetta kallar á frjóan jarðveg fyrir nýsköpun og tæknifyrirtæki á Íslandi.“
Að mati Ingvars eru þrjú lykilatriði sem þarf að tryggja fyrir vöxt hugverkafyrirtækja. „Skattalegir hvatar til rannsókna og þróunar skipta miklu máli en frá því að slíkir hvatar voru settir á árið 2013 hefur hugverkaiðnaðurinn vaxið hratt. Og eftir aukningu hvatanna í Covid-faraldrinum hefur útflutningur hugverka tvöfaldast á fimm árum. Þrátt fyrir þessa árangurssögu eru stöðugar tilraunir við fjárlagagerð til að draga úr hvötunum. Þetta verður að stöðva og tryggja varanlegt stuðningskerfi. Við stækkum kökuna með þessari umgjörð - Íslandi til heilla.“
Að auki þurfi öfluga utanríkisstefnu fyrir hugverkagreinarnar. „Heimurinn er að breytast hratt og hefðbundin bandalög eru að veikjast. Þar sem lífskjör Íslendinga byggjast á verðmætasköpun og útflutningi er lykilatriði að tryggja markaðsaðgengi, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, sem og á vaxandi mörkuðum eins og Kína og Indlandi. Smáþjóðir reiða sig á opna markaði og nú er rétti tíminn til að styrkja stöðu Íslands með virkri utanríkisstefnu,“ segir hann og bætir við að þriðja lykilatriðið sé aðgengi að gervigreindinni. „Gervigreind mun líklega leiða af sér eitt stærsta vaxtarskeið mannkynssögunnar. Stjórnvöld verða að tryggja íslenskum fyrirtækjum aðgengi að þessari tækni, bæði með því að leysa orkumálin fyrir gagnaverin og með því að staðsetja Ísland sem vinveitt ríki fyrir gervigreind. Þannig náum við að vefa Ísland inn í nýja innviði stórveldanna og tryggja samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja.“
Það er ekki nokkur vafi í huga Ingvars að hugverkagreinar eru iðnaður sem mun laða til landsins ungt fólk úr námi og erlenda sérfræðinga og ef ríkisstjórnin ákveður gera landið samkeppnishæft á alþjóðavísu þá mun framtíðin verða björt fyrir landið. „Það er ekki spurning í mínum huga því fyrirtæki í hugverkaiðnaði hafa náð stórkostlegum árangri á síðustu árum, þökk sé stefnumótun stjórnvalda og framtíðarsýn fyrirtækja. Ef áfram er stutt við greinina og markaðsaðgengi tryggt verður framtíðin gríðarlega björt,“ segir Ingvar Hjálmarsson, formaður Hugverkaráðs Samtaka iðnaðarins, að lokum.