Gunnar Sverrir Gunnarsson er véla- og iðnaðarverkfræðingur hjá COWI og hefur starfað hjá fyrirtækinu í hartnær 26 ár eða frá því að hann lauk verkfræðinámi við Háskóla Íslands. Hann tók nýlega við stöðu framkvæmdstjóra fyrirtækisins á Íslandi. Gunnar hefur víðtæka reynslu, meðal annars í iðnaðar- og veitugeiranum hér á landi.
„COWI er alþjóðlegt ráðgjafarfyrirtæki með höfuðstöðvar í Danmörku en fyrirtækið var stofnað árið 1930. Mannvit, rótgróin íslensk verkfræðistofa stofnuð árið 1963, sameinaðist COWI árið 2023. Hjá okkur starfa yfir 7.500 sérfræðingar að meðtöldum þeim 260 sem við höfum á að skipa hér heima. Þjónusta okkar nær yfir öll helstu svið verkfræðinnar og við leggjum megináherslu á græna orku, innviðaverkefni, iðnað og byggingar,“ segir Gunnar Sverrir Gunnarsson, framkvæmdastjóri COWI á Íslandi.
Gunnar hélt erindi á Iðnþingi 2025 þar sem hann tók þátt í umræðum um viðhaldsþrótt innviða í landinu. „Þetta var áhugavert samtal þar sem við komum meðal annars inn á vatnsveitur, birgðahald olíu, matvælaöryggi og fjarskiptamál. Við komum jafnframt inn á mál málanna í dag sem er raforkuöryggi landsins.“
Hvað þýðir það ef aðfangakeðjur rofna?
„Nútímasamfélög byggja á viðskiptum milli landa. Það eru fáar þjóðir sem eru öðrum óháðar með vörur og þjónustu. Ef aðfangakeðjur rofna, til dæmis vegna heimsfaraldurs eða stríðsátaka, skiptir miklu máli að skilja hvernig það getur til dæmis haft áhrif á fæðuöryggi. Ef við tökum sem dæmi eldsneytisbirgðir Íslands þá er ljóst að við lendum mjög fljótt í erfiðri stöðu með dreifingu matvæla ef það er skortur á olíu. Slíkur skortur mun jafnframt hafa víðtæk áhrif á allt atvinnulífið ef skammta þarf til dæmis eldsneyti á skip, ökutæki og flugvélar,“ segir Gunnar.
Hann segir verkefnastöðuna almennt góða í sinni grein núna. „Það er hugur í mörgum af okkar lykilviðskiptavinum, þrátt fyrir ólgu í heimsmálunum og háa verðbólgu undanfarin misseri. Við sjáum að umhverfisvitund okkar viðskiptavina er að aukast mikið og við höfum lagt okkur fram við að bjóða þjónustu sem styður við þá vegferð. Það má líka nefna að við erum að ná sífellt betri árangri í samstarfi á milli landa í okkar starfsemi og klárlega mörg tækifæri fyrir okkar íslensku sérfræðinga að láta til sín taka erlendis í framtíðinni sem og að fá liðsinni erlendra sérfræðinga í verkefni hér heima,“ segir hann.
En betur má ef duga skal að mati Gunnars. „Til að okkar grein blómstri þarf einföldun á regluverki í tengslum við leyfismál framkvæmda. Það er okkur alltaf ofarlega í huga. Við höfum sem dæmi unnið að undirbúningi Hvammsvirkjunar í dágóðan tíma og hefur þessu þjóðhagslega mikilvæga verkefni ítrekað verið frestað vegna þessara mála. Það sama má segja með mörg mikilvæg verkefni hjá Landsneti sem hafa tafist óhóflega vegna leyfismála og er nú svo komið að orkuöryggi okkar er verulega ógnað vegna þessara tafa. Raforkuöryggi er grunnforsenda þess að hér á landi sé áframhaldandi verðmætasköpun til að byggja undir velferð okkar og sjálfbærni,“ segir Gunnar Sverrir Gunnarsson, framkvæmdastjóri COWI á Íslandi.