Þurfum að hafa langtímaáætlun

Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi, segir álið sem …
Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi, segir álið sem er framleitt hér á landi styðja við hringrásarhagkerfi heimsins og að íslenskt ál sé auk þess með mjög lágu kolefnisspori. mbl.is/BIG

Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi sem rekur álverið í Straumsvík, horfir björtum augum á framtíðina. Hún segir stríðsátök og tollastríð ofarlega í huga og mikið hagsmunamál
fyrir alla að friður náist.

„Úr iðnaðinum er gott að frétta, sérstaklega eftir að raforkuskerðingum var aflétt nú fyrir skemmstu. Þá getum við farið á fulla ferð í okkar framleiðslu og þar viljum við að sjálfsögðu vera. Hins vegar er veruleg ólga í heiminum, bæði pólitísk og efnahagsleg sem smitast yfir í áliðnaðinn eins og annað. Stríðsátök og tollastríð eru ofarlega í huga og þar er mikið hagsmunamál fyrir okkur öll að friður náist,“ segir Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi.

„Álverið í Straumsvík hefur verið starfandi nú í rúmlega 55 ár og á þeim tíma hefur auðvitað mjög margt áunnist. Við höfum vaxið og aukið framleiðslu okkar jafnt og þétt. Við höfum byggt einn fullkomnasta steypuskála sem þekkist á heimsvísu. Varan sem við framleiðum er verðmætari en flestra annarra. Flest álver heimsins framleiða 2-4 vörutegundir en við framleiðum yfir 200 sérhæfðar vörutegundir af áli. Viðskiptavinir okkar eru í kringum 70 og við seljum allar okkar afurðir til Evrópu,“ segir Rannveig og bætir við að í Straumsvík hafa þau auk þess verið í fararbroddi í ýmsum mikilvægum málum tengdum öryggi, gæðum og umhverfi. „Einnig er mikil áhersla lögð á velferð starfsfólks í okkar starfsemi sem sýnir sig í því að starfsánægja hjá okkur er mikil og starfsaldur langur. Við vorum fyrst fyrirtækja á Íslandi til að innleiða ISO-umhverfisstaðla árið 1997 og erum líka með samofið gæða- og öryggisstjórnunarkerfi. Árangur okkar í öryggismálum er góður og ég skynja vel að hér á Íslandi er litið á okkur sem fyrirmynd í þessu samhengi.“

Ferlið í kringum leyfisveitingar langt og ógagnsætt

Hvað vinnst ekki nógu hratt í starfsumhverfinu ykkar?

„Því miður er það svo að ferli í kringum leyfisveitingar hjá hinu opinbera, hvort sem um er að ræða ríkisvaldið eða sveitarfélögin, er bæði langt og ógagnsætt. Þetta gerir það að verkum að hlutirnir taka óratíma sem skapar óvissu fyrir fyrirtæki eins og Álverið í Straumsvík sem eru háð tilteknum leyfum fyrir starfsemi sína,“ segir hún.

Að mati Rannveigar er framtíðin björt fyrir áliðnaðinn í landinu. „Í Straumsvík framleiðum við verðmæta vöru sem er flutt til útlanda. Varan okkar er sérhæfð og með einu lægsta kolefnisspori sem þekkist í álframleiðslu og það skiptir okkur öll máli. Áliðnaðurinn er mikilvæg atvinnugrein fyrir Íslendinga sem ekki er háð árstíðasveiflum og þennan iðnað má ekki vanmeta. Orkusækinn iðnaður stendur undir 23% af útflutningstekjum þjóðarinnar í dag. Við sjáum einnig af arðgreiðslum og skattgreiðslum Landsvirkjunar til ríkisins að þau fyrirtæki sem nýta mest rafmagn eru að skila fjárhæðum sem um munar til þjóðarbúsins. Ég má því miður ekki tjá mig um raforkuverðið sem við greiðum en afkoma Landsvirkjunar talar sínu máli. Það munar um minna. Hins vegar er alveg ljóst að þörf fyrir raforku fer vaxandi og við því verður að bregðast sem og því að styrkja flutningskerfi raforku í landinu,“ segir hún.

Sem betur fer hefur fjölbreytni í íslensku efnahagslífi vaxið á liðnum áratugum. „Það skiptast á skin og skúrir í íslenskum þjóðarbúskap en eitt hefur ekki breyst – áliðnaðurinn er í grunninn mjög stöðugur fyrir íslenskan þjóðarbúskap og myndar ákveðið hryggjarstykki í efnahagslífinu. Vissulega eru sveiflur í áliðnaði en þær snerta lítið kaup okkar á raforku, innlendri þjónustu og greiðslu launa.“

„Áliðnaðurinn kom Íslandi á hraðari hagvaxtarbraut“

Með því að stofna Álverið í Straumsvík með þeim innviðum sem til þurfti sýndu leiðtogar í íslenskum stjórnmálum og atvinnulífi mikla framsýni og þor og höfðu langtímasýn fyrir Ísland að mati Rannveigar. „Þörfin fyrir innviði og nýja stoð í íslensku atvinnulífi var til staðar og hana þurfti að leysa. Innkoma áliðnaðarins setti Ísland á aðra og hraðari hagvaxtarbraut frá árinu 1970. Segja má að þetta hafi markað upphaf iðnbyltingar hér á landi.

Ég sakna þess að sjá langtímasýn fyrir íslenskt atvinnulíf og samfélag og kjarkinn til að taka stórar ákvarðanir. Mér finnst eins og almennt sé horft til skemmri tíma nú; í stjórnmálum, atvinnulífi og jafnvel einnig hjá okkur sjálfum. Hugsunarháttur okkar og áherslur eru meira til skamms tíma. En við þurfum að hafa langtímaáætlun og stefnu fyrir atvinnugreinar landsins. Innviði þarf að byggja í samræmi við þá stefnu og ekki síður byggja menntakerfið upp í samræmi við þarfir atvinnulífsins. Skortur á iðn- og tæknimenntuðu fólki hefur því miður verið viðvarandi. Það er vegna þess að fjármuni vantar til að mennta fleiri slíka, áhuginn er allavega ekki vandamálið. Það er nauðsynlegt að lyfta okkur aðeins upp og horfa til lengri tíma og á stóru myndina, ekki hugsa bara um tiltekið kjörtímabil heldur til áratuga. Fyrirtæki eins og álver geta ekki hugsað til skamms tíma. Það þarf langtímaplön til að byggja upp starfsemi á borð við álframleiðslu, þá þarf að hugsa í áratugum,“ segir Rannveig.

Rannveig Rist ásamt Sigurði Hannessyni á sviði Hörpunnar.
Rannveig Rist ásamt Sigurði Hannessyni á sviði Hörpunnar. mbl.is/BIG

Um 8,5 milljarðar fara í laun árlega

Hjá Álverinu í Straumsvík starfa rétt tæplega 400 manns allt árið um kring auk 120 sumarstarfsmanna. „Á hverju ári fara um 8,5 milljarðar í laun til starfsfólks. 5-6 milljarðar fara síðan alla jafna í kaup á innlendri vöru og þjónustu, stundum er þessi upphæð mun hærri, en það fer allt eftir því hvernig stendur á í fjárfestingaverkefnum. Talið er að þessi umsvif okkar skapi annað eins af störfum, sem sagt um 400 störf víðsvegar um efnahagslífið. Í heild sinni eru efnahagsleg áhrif Álversins mjög mikil,“ segir Rannveig og bætir við að mikil þekking búi í starfsfólki Álversins. „Frá því álframleiðsla hófst á Íslandi hefur þörfin fyrir vel menntað fólk á sviði iðn- og tæknigreina aukist. Innan fyrirtækisins stofnuðum við Stóriðjuskólann og frá stofnun hans hefur árangur okkar á flestum sviðum batnað, bæði hvað varðar rekstur fyrirtækisins en ekki síður hefur ánægja starfsfólks aukist að sama skapi. Stóriðjuskólinn hefur orðið báðum hinum álverunum á Íslandi sem og öðrum fyrirtækjum innan lands og utan fyrirmynd og mörg hafa sett á laggirnar vinnustaðaskóla til að efla starfsfólk sitt og þekkingu þess. Innan Rio Tinto er farið að líta til okkar í Straumsvík sem fyrirmyndar þegar kemur að áherslum okkar á menntamál.“

Verðmæt þekking hefur orðið til í okkar samfélagi með tilkomu áliðnaðarins. „Í dag kunnum við að byggja virkjanir, byggja upp raforkukerfi, raforkulínur og álver. Þessi þekking er meira að segja orðin að útflutningsgrein þar sem verkfræðistofur teygja anga sína út fyrir landsteinana og veita ráð og þjónustu. Þetta flokkast sem hugverkaiðnaður í dag. Þegar við hófum rekstur í Straumsvík þurftum við ekki aðeins að fá sérfræðinga heldur einnig starfsfólk frá útlöndum vegna verkefnisins,“ segir Rannveig.

Álið styður við hringrásarhagkerfi heimsins

Hvernig er eftirspurn í heiminum á áli á tímum umbrota eins og núna?

„Raunin er að á tímum óvissu og átaka eins og verið hefur síðustu ár þá minnkar eftirspurn eftir áli sem og ýmsum öðrum vörum. Álverðið lækkaði eftir að stríðið hófst í Úkraínu og áliðnaðurinn hefur ekki enn náð sér fyllilega á strik í kjölfarið, enda átök enn í gangi auk annarrar óvissu í heiminum. Fólk heldur að sér höndum og það hefur bein áhrif á áliðnaðinn á heimsvísu,“ segir hún.

Álið úr Straumsvík má endurnýta aftur og aftur að sögn Rannveigar. „Það þarf aðeins 5% af þeirri raforku sem þarf í grunnframleiðslu í að umbræða málminn og endurvinna. Álið styður því við hringrásarhagkerfi heimsins og íslenskt ál er auk þess með mjög lágu kolefnisspori. Með því að framleiða ál á Íslandi gerir það okkur kleift að flytja út raforku í formi áls, virkar dálítið eins og batterí sem ekki eyðist því raforkan býr áfram í álinu. Mest af því áli sem framleitt er í Straumsvík fer í bílaframleiðslu og byggingariðnað í Evrópu. Það má því segja að Þjórsá sé enn í fullu rennsli á götum og í húsum Evrópu,“ segir Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert