Þurfum að hafa langtímaáætlun

Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi, segir álið sem …
Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi, segir álið sem er framleitt hér á landi styðja við hringrásarhagkerfi heimsins og að íslenskt ál sé auk þess með mjög lágu kolefnisspori. mbl.is/BIG

Rann­veig Rist, for­stjóri Rio Tinto á Íslandi sem rek­ur ál­verið í Straums­vík, horf­ir björt­um aug­um á framtíðina. Hún seg­ir stríðsátök og tolla­stríð of­ar­lega í huga og mikið hags­muna­mál
fyr­ir alla að friður ná­ist.

„Úr iðnaðinum er gott að frétta, sér­stak­lega eft­ir að raf­orku­skerðing­um var aflétt nú fyr­ir skemmstu. Þá get­um við farið á fulla ferð í okk­ar fram­leiðslu og þar vilj­um við að sjálf­sögðu vera. Hins veg­ar er veru­leg ólga í heim­in­um, bæði póli­tísk og efna­hags­leg sem smit­ast yfir í áliðnaðinn eins og annað. Stríðsátök og tolla­stríð eru of­ar­lega í huga og þar er mikið hags­muna­mál fyr­ir okk­ur öll að friður ná­ist,“ seg­ir Rann­veig Rist, for­stjóri Rio Tinto á Íslandi.

„Álverið í Straums­vík hef­ur verið starf­andi nú í rúm­lega 55 ár og á þeim tíma hef­ur auðvitað mjög margt áunn­ist. Við höf­um vaxið og aukið fram­leiðslu okk­ar jafnt og þétt. Við höf­um byggt einn full­komn­asta steypu­skála sem þekk­ist á heimsvísu. Var­an sem við fram­leiðum er verðmæt­ari en flestra annarra. Flest ál­ver heims­ins fram­leiða 2-4 vöru­teg­und­ir en við fram­leiðum yfir 200 sér­hæfðar vöru­teg­und­ir af áli. Viðskipta­vin­ir okk­ar eru í kring­um 70 og við selj­um all­ar okk­ar afurðir til Evr­ópu,“ seg­ir Rann­veig og bæt­ir við að í Straums­vík hafa þau auk þess verið í far­ar­broddi í ýms­um mik­il­væg­um mál­um tengd­um ör­yggi, gæðum og um­hverfi. „Einnig er mik­il áhersla lögð á vel­ferð starfs­fólks í okk­ar starf­semi sem sýn­ir sig í því að starfs­ánægja hjá okk­ur er mik­il og starfs­ald­ur lang­ur. Við vor­um fyrst fyr­ir­tækja á Íslandi til að inn­leiða ISO-um­hverf­isstaðla árið 1997 og erum líka með samofið gæða- og ör­ygg­is­stjórn­un­ar­kerfi. Árang­ur okk­ar í ör­ygg­is­mál­um er góður og ég skynja vel að hér á Íslandi er litið á okk­ur sem fyr­ir­mynd í þessu sam­hengi.“

Ferlið í kring­um leyf­is­veit­ing­ar langt og ógagn­sætt

Hvað vinnst ekki nógu hratt í starfs­um­hverf­inu ykk­ar?

„Því miður er það svo að ferli í kring­um leyf­is­veit­ing­ar hjá hinu op­in­bera, hvort sem um er að ræða rík­is­valdið eða sveit­ar­fé­lög­in, er bæði langt og ógagn­sætt. Þetta ger­ir það að verk­um að hlut­irn­ir taka óra­tíma sem skap­ar óvissu fyr­ir fyr­ir­tæki eins og Álverið í Straums­vík sem eru háð til­tekn­um leyf­um fyr­ir starf­semi sína,“ seg­ir hún.

Að mati Rann­veig­ar er framtíðin björt fyr­ir áliðnaðinn í land­inu. „Í Straums­vík fram­leiðum við verðmæta vöru sem er flutt til út­landa. Var­an okk­ar er sér­hæfð og með einu lægsta kol­efn­is­spori sem þekk­ist í álfram­leiðslu og það skipt­ir okk­ur öll máli. Áliðnaður­inn er mik­il­væg at­vinnu­grein fyr­ir Íslend­inga sem ekki er háð árstíðasveifl­um og þenn­an iðnað má ekki van­meta. Orku­sæk­inn iðnaður stend­ur und­ir 23% af út­flutn­ings­tekj­um þjóðar­inn­ar í dag. Við sjá­um einnig af arðgreiðslum og skatt­greiðslum Lands­virkj­un­ar til rík­is­ins að þau fyr­ir­tæki sem nýta mest raf­magn eru að skila fjár­hæðum sem um mun­ar til þjóðarbús­ins. Ég má því miður ekki tjá mig um raf­orku­verðið sem við greiðum en af­koma Lands­virkj­un­ar tal­ar sínu máli. Það mun­ar um minna. Hins veg­ar er al­veg ljóst að þörf fyr­ir raf­orku fer vax­andi og við því verður að bregðast sem og því að styrkja flutn­ings­kerfi raf­orku í land­inu,“ seg­ir hún.

Sem bet­ur fer hef­ur fjöl­breytni í ís­lensku efna­hags­lífi vaxið á liðnum ára­tug­um. „Það skipt­ast á skin og skúr­ir í ís­lensk­um þjóðarbú­skap en eitt hef­ur ekki breyst – áliðnaður­inn er í grunn­inn mjög stöðugur fyr­ir ís­lensk­an þjóðarbú­skap og mynd­ar ákveðið hryggj­ar­stykki í efna­hags­líf­inu. Vissu­lega eru sveifl­ur í áliðnaði en þær snerta lítið kaup okk­ar á raf­orku, inn­lendri þjón­ustu og greiðslu launa.“

„Áliðnaður­inn kom Íslandi á hraðari hag­vaxt­ar­braut“

Með því að stofna Álverið í Straums­vík með þeim innviðum sem til þurfti sýndu leiðtog­ar í ís­lensk­um stjórn­mál­um og at­vinnu­lífi mikla fram­sýni og þor og höfðu lang­tíma­sýn fyr­ir Ísland að mati Rann­veig­ar. „Þörf­in fyr­ir innviði og nýja stoð í ís­lensku at­vinnu­lífi var til staðar og hana þurfti að leysa. Inn­koma áliðnaðar­ins setti Ísland á aðra og hraðari hag­vaxt­ar­braut frá ár­inu 1970. Segja má að þetta hafi markað upp­haf iðnbylt­ing­ar hér á landi.

Ég sakna þess að sjá lang­tíma­sýn fyr­ir ís­lenskt at­vinnu­líf og sam­fé­lag og kjarkinn til að taka stór­ar ákv­arðanir. Mér finnst eins og al­mennt sé horft til skemmri tíma nú; í stjórn­mál­um, at­vinnu­lífi og jafn­vel einnig hjá okk­ur sjálf­um. Hugs­un­ar­hátt­ur okk­ar og áhersl­ur eru meira til skamms tíma. En við þurf­um að hafa lang­tíma­áætl­un og stefnu fyr­ir at­vinnu­grein­ar lands­ins. Innviði þarf að byggja í sam­ræmi við þá stefnu og ekki síður byggja mennta­kerfið upp í sam­ræmi við þarf­ir at­vinnu­lífs­ins. Skort­ur á iðn- og tækni­menntuðu fólki hef­ur því miður verið viðvar­andi. Það er vegna þess að fjár­muni vant­ar til að mennta fleiri slíka, áhug­inn er alla­vega ekki vanda­málið. Það er nauðsyn­legt að lyfta okk­ur aðeins upp og horfa til lengri tíma og á stóru mynd­ina, ekki hugsa bara um til­tekið kjör­tíma­bil held­ur til ára­tuga. Fyr­ir­tæki eins og ál­ver geta ekki hugsað til skamms tíma. Það þarf lang­tíma­plön til að byggja upp starf­semi á borð við álfram­leiðslu, þá þarf að hugsa í ára­tug­um,“ seg­ir Rann­veig.

Rannveig Rist ásamt Sigurði Hannessyni á sviði Hörpunnar.
Rann­veig Rist ásamt Sig­urði Hann­es­syni á sviði Hörp­unn­ar. mbl.is/​BIG

Um 8,5 millj­arðar fara í laun ár­lega

Hjá Álver­inu í Straums­vík starfa rétt tæp­lega 400 manns allt árið um kring auk 120 sum­ar­starfs­manna. „Á hverju ári fara um 8,5 millj­arðar í laun til starfs­fólks. 5-6 millj­arðar fara síðan alla jafna í kaup á inn­lendri vöru og þjón­ustu, stund­um er þessi upp­hæð mun hærri, en það fer allt eft­ir því hvernig stend­ur á í fjár­fest­inga­verk­efn­um. Talið er að þessi um­svif okk­ar skapi annað eins af störf­um, sem sagt um 400 störf víðsveg­ar um efna­hags­lífið. Í heild sinni eru efna­hags­leg áhrif Álvers­ins mjög mik­il,“ seg­ir Rann­veig og bæt­ir við að mik­il þekk­ing búi í starfs­fólki Álvers­ins. „Frá því álfram­leiðsla hófst á Íslandi hef­ur þörf­in fyr­ir vel menntað fólk á sviði iðn- og tækni­greina auk­ist. Inn­an fyr­ir­tæk­is­ins stofnuðum við Stóriðju­skól­ann og frá stofn­un hans hef­ur ár­ang­ur okk­ar á flest­um sviðum batnað, bæði hvað varðar rekst­ur fyr­ir­tæk­is­ins en ekki síður hef­ur ánægja starfs­fólks auk­ist að sama skapi. Stóriðju­skól­inn hef­ur orðið báðum hinum ál­ver­un­um á Íslandi sem og öðrum fyr­ir­tækj­um inn­an lands og utan fyr­ir­mynd og mörg hafa sett á lagg­irn­ar vinnustaðaskóla til að efla starfs­fólk sitt og þekk­ingu þess. Inn­an Rio Tinto er farið að líta til okk­ar í Straums­vík sem fyr­ir­mynd­ar þegar kem­ur að áhersl­um okk­ar á mennta­mál.“

Verðmæt þekk­ing hef­ur orðið til í okk­ar sam­fé­lagi með til­komu áliðnaðar­ins. „Í dag kunn­um við að byggja virkj­an­ir, byggja upp raf­orku­kerfi, raf­orku­lín­ur og ál­ver. Þessi þekk­ing er meira að segja orðin að út­flutn­ings­grein þar sem verk­fræðistof­ur teygja anga sína út fyr­ir land­stein­ana og veita ráð og þjón­ustu. Þetta flokk­ast sem hug­verkaiðnaður í dag. Þegar við hóf­um rekst­ur í Straums­vík þurft­um við ekki aðeins að fá sér­fræðinga held­ur einnig starfs­fólk frá út­lönd­um vegna verk­efn­is­ins,“ seg­ir Rann­veig.

Álið styður við hringrás­ar­hag­kerfi heims­ins

Hvernig er eft­ir­spurn í heim­in­um á áli á tím­um um­brota eins og núna?

„Raun­in er að á tím­um óvissu og átaka eins og verið hef­ur síðustu ár þá minnk­ar eft­ir­spurn eft­ir áli sem og ýms­um öðrum vör­um. Álverðið lækkaði eft­ir að stríðið hófst í Úkraínu og áliðnaður­inn hef­ur ekki enn náð sér fylli­lega á strik í kjöl­farið, enda átök enn í gangi auk annarr­ar óvissu í heim­in­um. Fólk held­ur að sér hönd­um og það hef­ur bein áhrif á áliðnaðinn á heimsvísu,“ seg­ir hún.

Álið úr Straums­vík má end­ur­nýta aft­ur og aft­ur að sögn Rann­veig­ar. „Það þarf aðeins 5% af þeirri raf­orku sem þarf í grunn­fram­leiðslu í að umbræða málm­inn og end­ur­vinna. Álið styður því við hringrás­ar­hag­kerfi heims­ins og ís­lenskt ál er auk þess með mjög lágu kol­efn­is­spori. Með því að fram­leiða ál á Íslandi ger­ir það okk­ur kleift að flytja út raf­orku í formi áls, virk­ar dá­lítið eins og batte­rí sem ekki eyðist því raf­orkan býr áfram í ál­inu. Mest af því áli sem fram­leitt er í Straums­vík fer í bíla­fram­leiðslu og bygg­ing­ariðnað í Evr­ópu. Það má því segja að Þjórsá sé enn í fullu rennsli á göt­um og í hús­um Evr­ópu,“ seg­ir Rann­veig Rist, for­stjóri Rio Tinto á Íslandi að lok­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert