„Ég byrjaði einn með tómt borð en við höfum vaxið jafnt og þétt. Hingað til höfum við látið lítið fara fyrir okkur því við vildum sanna okkur og fá verkefni út frá orðspori okkar. Þannig stækkuðum við, af því það spurðist út hvernig við stóðum okkur,“ segir Jónas Halldórsson, stofnandi og forstjóri JT Verk sem breytti einmitt nafninu sínu í JTV nýverið.
„Þar sem við skiptum nýlega um nafn vildum við nota tækifærið og kynna betur okkar sérhæfingu sem er framkvæmdastjórn. Við erum leiðandi fyrirtæki í framkvæmdastjórn á Íslandi og leggjum höfuðáherslu á fagmennsku og gæði. Það skiptir öllu máli að vera með góða verkstjórn í framkvæmdum því það sparar bæði tíma og fjárhæðir til lengri tíma litið. Framkvæmdastjórn er eitthvað sem þarf að leggja mun meiri áherslu á á Íslandi því ávinningurinn af því að haldið sé utan um verkefni af fagfólki er gríðarlegur. Framkvæmdastjórn er virt fag víða um heim og stefna okkar er að leiða þá þróun hér á landi.“
Jónas segir að hann hafi fengið hugmyndina að því að stofna fyrirtæki fyrir löngu síðan enda hefur hann verið viðloðandi byggingariðnaðinn megnið af ævinni. „Ég var ekki nema um fimmtán ára þegar ég fór að smíða og síðar í verkfræði. Lengi vann ég á verkfræðistofu og í verkefnastjórn fyrir verktaka. Eftir að hafa verið í hönnunarstýringu í Hörpu ákvað ég að flytja til Noregs og fór í verkefnastjórnun hjá NCC. Mig langaði að prófa að vera hjá stærri verktaka til að kanna hvort vinnubrögðin erlendis væri sambærileg og hér og það var mjög góður skóli.
Það sem ég lærði mest á störfum mínum í Noregi var ákveðinn strúktúr og agi í verkefnum og þar fékk ég fleiri tól í hendurnar til að vinna með sem verkefnastjóri. Ég kynntist líka aðeins öðruvísi menningu á markaðnum þar því verktakinn átti engin tæki heldur leigði bara þau tæki sem þurfti, af því að það var óhagkvæmt að eiga öll tæki,“ segir Jónas og bætir við að annar mikilvægur lærdómur sem hann tók út úr dvöl sinni í Noregi var að verkefnastjórnun skipti mjög miklu máli og stór verktakafyrirtæki voru byggð í kringum verkefnastjórnun.
„Ég fann fljótt að þetta var eitthvað sem mig langaði að gera þegar ég kæmi til Íslands. Ég stofnaði JTV árið 2017 og í byrjun vorum við líka verktakar. En það varð svo mikið að gera í verkefnastjórnun, eða framkvæmdastjórn eins og ég kýs að kalla það, að við ákváðum að skerpa fókusinn og einblína á hana.“
Dæmi um verkefni sem JTV hefur framkvæmdastýrt á síðustu árum eru Sky Lagoon, Hótel Reykjavík Saga, nýr leikskóli í Urriðaholti, breytingar innanhúss á Seðlabanka Íslands og endurnýjun á sundlaug Garðabæjar.
Fyrir tveimur árum fór JTV í stefnumótun til að svara spurningunni hvert fyrirtækið vildi stefna og hvernig framtíðin liti út. Jónas talar um að þá hafi verið tekin sú ákvörðun að þau vildu halda áfram að gera það sem þau eru góð í: að verkefnastýra og byggja á þeirri aðferðafræði sem hefði nýst þeim vel hingað til.
„Við erum öguð, fagleg og með vönduð vinnubrögð. Við búum til strúktúr svo starfsfólk okkar hafi þau tól sem þau þurfa til að geta unnið vinnu sína á faglegan og vandaðan hátt. Ásamt því breytum við nafni fyrirtækisins og látum stefnu og vörumerki fyrirtækisins endurspeglast í útliti og markaðsefni.
Í febrúar opnuðum við svo nýjan og glæsilegan vef jtv.is. Það sem hefur þó ekki breyst hjá okkur er að það er gott og reynslumikið starfsfólk sem er undirstaða starfseminnar. Stjórnendurnir okkar búa yfir þekkingu á öllum sviðum framkvæmda og við erum vel í stakk búin að stýra hvers konar verkefnum og framkvæmdum óháð stærð og umfangi. Við leggjum mikið upp úr aðferðum sem lágmarka framkvæmdatíma og kostnað og það er rík áhersla á gott utanumhald og eftirfylgni með verkefnum.“
Aðspurður af hverju það sé svona mikilvægt að hafa góða framkvæmdastjórn í byggingarferlinu segir Jónas að afleiðingarnar af því að gera það ekki séu svo slæmar. „Í öllum framkvæmdum eru markmið okkar helst þrjú. Að skila á réttum tíma, að gæðin séu framúrskarandi og að ná þeim fjárhagslega árangri sem lagt var upp með. Þetta eru aðalatriðin en svo er vitanlega fullt af öðrum atriðum sem þarf að huga að. Ef byggingaraðili skilar of seint bætist kostnaður og kröfumál á hann. Gæðin þurfa að vera í lagi því við ætlum ekki að vera í mörg ár að laga á eftir okkur. Og svo vitanlega þarf að ná þeim fjárhagslega árangri sem stefnt var að. Með því að hafa góða stjórn þá eykurðu líkurnar á að þessi meginmarkmið náist.
Þegar við byrjum á verkefni erum við með tékklista hvað þarf að passa upp á, eins og samning, innkaup, öryggismál og þar fram eftir götunum. Þetta er langur listi af hlutum sem við þurfum að passa upp á þannig að við reynum að undirbúa okkur eins vel og við getum til að ná markmiðunum. Þetta gerum við með okkar tólum og tækjum enda er starfsfólk okkar þjálfað í þessu. Við þjálfum líka fólkið okkar upp í að vera ekki smeykt við að segja stöðuna eins og hún er.
Sama hve langan tíma verkefnið mun taka þá horfum við fram á við einu sinni í mánuði og reynum að sjá hvernig verkefnið endar. Það er nefnilega þannig að það kemur upp eitthvert vandamál í hverju einasta verkefni. Hvort sem það er innréttingar sem eru ekki til, verktaki sem mætir ekki eða jafnvel eldgos. En við vitum aldrei hvert vandamálið verður þó skipulagið sé upp á tíu. En við erum einmitt til staðar út af því, við kunnum að bregðast við í erfiðum aðstæðum og erum með alls kyns lausnir sem hafa reynst okkur vel.“