Fjármáladeildir fyrirtækja geta fengið þjónustu BPO við að rukka inn reikninga og þannig haft tækifæri til að sinna meiri tekjuberandi störfum á meðan innheimtufyrirtækið sækir peningana kröfuhöfum að kostnaðarlausu, með virðingu og kurteisi að leiðarljósi.
„Rekstur fyrirtækja getur verið krefjandi og að innheimta útistandandi kröfur er oft tímafrek og flókin áskorun. Við hjá BPO bjóðum upp á framúrskarandi innheimtuþjónustu sem er hönnuð til að einfalda líf fyrirtækja og starfsfólks þeirra. Það sem gerir þjónustu okkar einstaka er að hún er kröfuhöfum að kostnaðarlausu,“ segir Guðlaugur Magnússon framkvæmdastjóri sem keypti BPO félagið árið 2020.
Fyrirtækið var í upphafi alfarið rekið af fjölskyldunni en fleiri hafa bæst við í teymið. „Með mikilli elju, metnaði og skýrri framtíðarsýn hefur félagið vaxið hratt og stækkað um 30-40% á hverju ári. Þessi vöxtur endurspeglar ekki aðeins sterka starfsemi fyrirtækisins heldur einnig traust viðskiptavina okkar sem við metum mikils þar sem við leggjum mikla áherslu á framúrskarandi þjónustu.“
Það eru fáir í landinu með meiri reynslu en Guðlaugur á sínu sviði. „Ég er búinn að starfa á þessum markaði lengi og sem stjórnandi frá árinu 2008. Ég sá þegar ég fór af stað með BPO að það voru mikil tækifæri á markaðnum. Ég taldi mig geta veitt betri þjónustu, einfaldari lausnir og ferla fyrir fyrirtæki, sem hefur sannarlega sannað sig. Í dag er félagið með rúmlega 200 kröfuhafa í þjónustu og fjölgar þeim mikið. Ég finn fyrir því að fyrirtæki eru að leita að einföldum lausnum til þess að fá greitt. Með því frábæra teymi sem BPO er með í dag þá teljum við okkur geta stækkað enn meira,“ segir Guðlaugur.
BPO stendur fyrir „Business Process Outsourcing“ sem þýða má sem útvistun á viðskiptaferlum að sögn Guðlaugs. „BPO Collections er stórt innheimtufyrirtæki með höfuðstöðvar sínar í Bretlandi og útibú í Skotlandi, Bandaríkjunum og Kanada. Eigendur fyrirtækisins komu að máli við mig árið 2019 og buðu mér framkvæmdastjórastöðu í fyrirtækinu. Ég var alveg til í að skoða það en endaði svo á því að kaupa öll hlutabréfin í félaginu og hef síðan þá fært fyrirtækið á heimamarkað ásamt því að auka umsvif þess alþjóðlega.“
Hvernig nýtist það íslenskum fyrirtækjum að gera viðskipti við innheimtufyrirtæki sem starfar á alþjóðamarkaði?
„Mikið af fyrirtækjum og stofnunum á Íslandi eru að fá erlenda einstaklinga í viðskipti og eru að selja vörur sínar og þjónustu út um allan heim. Dæmi um þessi fyrirtæki eru bílaleigur, hótel og spítalar svo dæmi sé tekið. Þegar einstaklingar fara úr landi án þess að greiða reikningana sína er mikilvægt að geta haldið áfram að rukka þá,“ segir Guðlaugur og útskýrir að ýmislegt geti gerst með fjölbreyttum iðnaði, ekki síst ferðaiðnaðinum. „Við erum að tala um ógreidda reikninga, skemmdir á bílum eða hótelherbergjum og fleira.“
Það þarf ákveðna færni til að ná til þeirra sem skulda að sögn Guðlaugs. „Þegar það er rétt gert þá eru allir ánægðir. Stundum koma jafnvel skuldarar með sínar útistandandi skuldir til okkar í viðskipti, sem er án efa staðfesting á því að við séum að standa okkur í faginu.“
Hvernig upplifa viðskiptavinir þessa þjónustu?
„Þeir hafa mjög jákvæða upplifun af þjónustu okkar. Ferlið er þannig að við erum með kröfuhafa, sem eru stundum með mikið af útistandandi skuldum. Eina gjaldið sem við getum tekið er af einu símtali við skuldarann. Raunin er hins vegar sú að við hringjum allt frá tuttugu til sextíu sinnum í skuldarann. Sá sem skuldar á kannski ekki pening í dag en hann gæti átt pening eftir tvo daga. Mín upplifun er sú að í grunninn vilja greiðendur borga,“ segir Guðlaugur og bætir við að skuldarinn sé einstaklingur sem þau vilji koma vel fram við. „Það skiptir máli að fá greitt á góðan hátt.“
Guðlaugur segir fyrirtæki í landinu hafi verið í þoku þegar kemur að útistandandi skuldum á erlendri grundu. „Ég þori að fullyrða að engin önnur fyrirtæki á markaði bjóði upp á sambærilegan hugbúnað fyrir erlendar kröfur og við erum með. Yfirleitt hafa viðskiptavinir verið í algjörri þoku með hvar innheimtan er stödd, hvort búið sé að hafa samband og gera samkomulag svo dæmi sé tekið. Hjá okkur fá allir aðgang að kerfinu sem heitir BPO Collection og sjá þá hvar krafan er stödd. Við erum með eitt fullkomnasta innheimtukerfi á Íslandi á vegum BPO innheimtu en í lok dagsins þá reynir maður að gera ferlið eins jákvætt og mögulegt er með sveigjanleika og kurteisi í fyrirrúmi,“ segir hann og bætir við að fjármáladeildir séu fljótar að sjá hversu arðbært það er að hafa fjóra til sex aðila á gólfi að vinna fyrir sig frítt. „Það skapar tækifæri til að sinna tekjuberandi verkefnum á meðan við komum með peninga inn í fyrirtækið í formi innheimtu ógreiddra skulda.“
Hver er framtíðarsýn þín?
„Framtíðarsýn okkar er skýr – við ætlum að halda áfram á þessari þróunarbraut, styrkja þjónustuna enn frekar og tryggja að viðskiptavinir okkar fái ávallt sem bestu þjónustuna. Með áframhaldandi vexti og nýjungum mun BPO halda áfram að vera leiðandi á sínu sviði og stuðla að framþróun í greininni. Við hlökkum til framtíðarinnar og erum spennt að halda áfram að vaxa og þróast í takt við þarfir viðskiptavina okkar,“ segir Guðlaugur Magnússon framkvæmdastjóri og eigandi BPO að lokum.