Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets hefði viljað halda upp á afmælisár fyrirtækisins með minni innviðaskuld og meiri raforkutengingu um landið en býður þjóðinni í samtal um ávinninginn af því að halda áfram með framkvæmdir sem hann telur lykilatriði í samkeppnishæfni og öryggi þjóðarinnar.
„Tíminn er fljótur að líða og að hugsa sér að Landsnet fagni tuttugu ára afmæli á árinu, það er ótrúlegt,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets. „Ég var einn af litlum hópi sem fékk það verkefni að búa til raforkuflutningsfyrirtækið þegar ný raforkulög voru samþykkt árið 2003. Þá var flutningurinn skorinn út úr Landsvirkjun, Orkuveitunni, Rarik og Hitaveitu Suðurnesja og búið til flutningskerfi sem nú er miðjan í raforkukerfinu okkar,“ segir Guðmundur sem gegnt hefur stöðu forstjóra í áratug og hefur alla sína starfsævi unnið í tengslum við rafmagn með einum eða öðrum hætti.
Guðmundur segir samtalið við þjóðina um rafmagnið okkar skipta mestu máli núna þegar svo margt af því sem við gerum daglega hefur með rafmagn að gera. „Við veltum stundum upp þeirri spurningu: Hvernig væri lífið án rafmagns? Því rafmagn er farið að gegna lykilhlutverki í öllu því sem við gerum og höfum gert á undanförnum árum,“ segir Guðmundur.
Hvernig ætlið þið að halda upp á tuttugu ára afmælisárið?
„Við ætlum að fagna afmælisárinu og fara í meira samtal við þjóðina um flutning raforku, breytingar á raforkumarkaðinum og raforkumál almennt. Við viljum að þjóðin viti að hún á okkur og við erum þetta millistykki á milli orkuframleiðenda og orkunotenda í landinu. Þess vegna tölum við stundum um að flutningskerfið sé eins og lífæð þjóðarinnar eða æðakerfi ákveðinna lífsgæða, því rafmagn er orðið svo nátengt lífsgæðum allra.“
Eins er rafmagnið nátengt þjóðaröryggi okkar að mati Guðmundar. „Rafmagn tengist öryggi okkar sterkum böndum. Því ef rafmagnið fer þá náttúrulega gjörbreytist líf og tilvera okkar. Reykjanesið er ágætis dæmi að taka um raforkuöryggi og hvernig það getur ógnað daglegu lífi okkar þegar eitthvað bjátar á. Svo ekki sé minnst á ófriðinn sem nú má finna um víða veröld þar sem verið er að skjóta niður raforkuflutningskerfi og virkjanir til að mynda óöryggi hjá þjóðum,“ segir Guðmundur og bætir við að við þurfum að byggja varnir eins og aðrar þjóðir að þessu leyti.
Er flutningskerfi Landsnets búið að þróast mikið á tuttugu árum?
„Þegar við horfum til baka þá hefur flutningskerfið okkar þróast gríðarlega mikið á undanförnum árum og er sífellt að verða öruggara, við erum að efla tengingar á milli fleiri bæja og fá fleiri stóra viðskiptavini sem eru tengdir með tveimur tengingum í stað einnar sem tryggir betra öryggi. Þrátt fyrir þetta hafa verið miklar tafir í leyfisferli stærstu framkvæmdanna okkar og reiknum við með að vegna þessa séum við sem þjóð komin í innviðaskuld upp á 86 milljarða króna.
Við hefðum því viljað vera komin lengra í uppbyggingu raforkukerfisins á tuttugu ára afmæli Landsnets en okkur hefur tekist en þemað á afmælisárinu okkar er að við ætlum að horfa til framtíðar og fara í vitundarvakningu um hvað þarf að gera til að mæta framtíðinni sem við viljum sjá.“
Guðmundur segir að þegar við horfum inn í framtíðina þá munum við standa frammi fyrir mörgum áskorunum. „Við þurfum að klára innviðaskuldina okkar til að geta fullnýtt alla þá raforku sem er búin til í landinu og við þurfum einnig að mæta nýjum tímum. Meðal annars í orkuskiptum sem þýðir aukningu á framleiðslu og flutningi á raforku, nánast tvöföldun í framleiðslu og flutningi ef við horfum til lengri tíma. Til að mæta þessu þurfum við að bæta þriðju stoðinni við orkuvinnslukerfið sem er vindorkan. Það er mjög breytilegur orkugjafi sem leggur á flutningskerfið miklar kröfur. Við þurfum að mæta framboði af rafmagni, sem verður í framtíðinni aðeins sveiflóttara, og jafna sveiflurnar með því að til dæmis láta rafmagnsbílana okkar hlaða raforku þegar nóg framboð er af henni og verðið er lágt en jafnvel gefa til baka raforku þegar þess er þörf en nú er kominn búnaður í marga rafmagnsbíla sem getur skilað rafmagni þegar það skortir. Víða um heim eru bílar orðnir þessi jöfnunartæki við hlið uppistöðulóna vatnsorkuvera og stærri rafhlöðubanka.“
Það er þrennt sem Landsnet stefnir á að gera í framtíðinni að sögn Guðmundar. „Við þurfum að byggja kerfið upp þannig að hindri ekki þróunina í samfélaginu og ógni þannig öryggi okkar allra. Til að geta það þurfum við að einfalda öll leyfisferlin, gera viðskiptaumhverfið með rafmagn gagnsærra og nýta gervigreindina á öllum sviðum,“ segir Guðmundur.
Það er áhugavert að hugsa um hvernig almenningur í landinu er opinn fyrir nýjustu tækni sem vanalega felur í sér notkun á rafmagni en svo þurfa orkuvinnslufyrirtækin og Landsnet að draga vagninn þegar kemur að því að tryggja næga raforku fyrir framtíðina. „Ég tek stundum dæmi um það þegar John F. Kennedy var valinn forseti á fyrstu mánuðum ársins 1961, þá hélt hann ræðu þar sem hann stóð í tröppum þinghússins í Washington og lofaði þjóðinni að í sinni forsetatíð myndi hann senda mann á tunglið. Átta árum, einum mánuði og 25 dögum seinna lenti Neil Armstrong á tunglinu og þá var búið að hanna geimfaraáætlunina og framkvæma hana. Ef við berum þetta saman við leyfisferlin hjá okkur, og tökum sem dæmi Suðurnesjalínu 2, þá erum við búin að vera í 16 ár, þrjá mánuði og þrjá daga í vinnu við að fá leyfi til að leggja línuna. Við erum í framkvæmdum með línuna en það eru ennþá málaferli í gangi við landeigendur. Hvernig ætlum við sem þjóð að réttlæta að kerfin okkar séu svona seinvirk? Það er þjóðaröryggi að við séum sjálfbær um rafmagn og við þurfum rafmagn til að geta byggt upp samkeppnishæft atvinnulíf.“
Guðmundur segir nauðsynlegt að fara í ákveðnar lykilframkvæmdir sem fela í sér að auka raforkutengingu á milli landshluta. „Allra mikilvægast að mínu mati er að tengja saman norðausturhluta kerfisins við suðvesturhlutann. Svo þarf að halda áfram að tvítengja alla staði landsins.“
Þegar kemur að flutningskerfinu er fyrirtækið einkum í deilum við nærsamfélagið um línurnar en þó að það sé þjóðhagslega nauðsynlegt að tengja alla landhluta, þá á sama tíma vilja sveitarfélög eða landeigendur ekki hafa línu í dalnum sínum eða á jörðinni. „Þetta eru oft svo stórar framkvæmdir að fólk tengir ekki við að það hafi áhrif á heimilisreksturinn eða öryggi og hagsæld sveitarfélagsins. Við leggjum álíka mikið af strengjum ofan í jörðina og línur í lofti. En vandamálið við stærstu loftlínurnar er að við getum ekki lagt þær ofan í jörðu. Almennt leggjum við minni línur ofan í jörðu sem er alltaf fyrsti og hagkvæmasti kosturinn en stóru línurnar geta ekki allar farið ofan í jörðu af tæknilegum ástæðum og eru þær umdeildustu framkvæmdirnar okkar. En við höfum lagt okkur fram við að fella þær betur að landinu og erum í stöðugri nýsköpun með markmið um minnkun umhverfisáhrifa,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson að lokum og bætir við að hann haldi stoltur upp á afmælisárið með þeim 170 starfsmönnum sem starfa hjá Landsneti og hann bjóði að sama skapi þjóðinni að halda upp á áfangann með þeim og taka afstöðu til þeirrar framtíðar sem hún vill skapa sér. Landsnet verður með viðamiklar afmæliskynningar um allt land fyrir kerfisáætlun næstu tíu ára.