Landsnet heldur upp á 20 ára afmæli

Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets hefur alla sína starfsævi unnið …
Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets hefur alla sína starfsævi unnið í tengslum við rafmagn. mbl.is/Aðsend

Guðmund­ur Ingi Ásmunds­son for­stjóri Landsnets hefði viljað halda upp á af­mælis­ár fyr­ir­tæk­is­ins með minni innviðaskuld og meiri raf­orku­teng­ingu um landið en býður þjóðinni í sam­tal um ávinn­ing­inn af því að halda áfram með fram­kvæmd­ir sem hann tel­ur lyk­il­atriði í sam­keppn­is­hæfni og ör­yggi þjóðar­inn­ar.

„Tím­inn er fljót­ur að líða og að hugsa sér að Landsnet fagni tutt­ugu ára af­mæli á ár­inu, það er ótrú­legt,“ seg­ir Guðmund­ur Ingi Ásmunds­son for­stjóri Landsnets. „Ég var einn af litl­um hópi sem fékk það verk­efni að búa til raf­orku­flutn­ings­fyr­ir­tækið þegar ný raf­orku­lög voru samþykkt árið 2003. Þá var flutn­ing­ur­inn skor­inn út úr Lands­virkj­un, Orku­veit­unni, Rarik og Hita­veitu Suður­nesja og búið til flutn­ings­kerfi sem nú er miðjan í raf­orku­kerf­inu okk­ar,“ seg­ir Guðmund­ur sem gegnt hef­ur stöðu for­stjóra í ára­tug og hef­ur alla sína starfsævi unnið í tengsl­um við raf­magn með ein­um eða öðrum hætti.

Guðmund­ur seg­ir sam­talið við þjóðina um raf­magnið okk­ar skipta mestu máli núna þegar svo margt af því sem við ger­um dag­lega hef­ur með raf­magn að gera. „Við velt­um stund­um upp þeirri spurn­ingu: Hvernig væri lífið án raf­magns? Því raf­magn er farið að gegna lyk­il­hlut­verki í öllu því sem við ger­um og höf­um gert á und­an­förn­um árum,“ seg­ir Guðmund­ur.

Ætla í sam­tal við þjóðina á af­mælis­ár­inu

Hvernig ætlið þið að halda upp á tutt­ugu ára af­mælis­árið?

„Við ætl­um að fagna af­mælis­ár­inu og fara í meira sam­tal við þjóðina um flutn­ing raf­orku, breyt­ing­ar á raf­orku­markaðinum og raf­orku­mál al­mennt. Við vilj­um að þjóðin viti að hún á okk­ur og við erum þetta millistykki á milli orku­fram­leiðenda og orku­not­enda í land­inu. Þess vegna töl­um við stund­um um að flutn­ings­kerfið sé eins og lífæð þjóðar­inn­ar eða æðakerfi ákveðinna lífs­gæða, því raf­magn er orðið svo ná­tengt lífs­gæðum allra.“

Eins er raf­magnið ná­tengt þjóðarör­yggi okk­ar að mati Guðmund­ar. „Raf­magn teng­ist ör­yggi okk­ar sterk­um bönd­um. Því ef raf­magnið fer þá nátt­úru­lega gjör­breyt­ist líf og til­vera okk­ar. Reykja­nesið er ágæt­is dæmi að taka um raf­orku­ör­yggi og hvernig það get­ur ógnað dag­legu lífi okk­ar þegar eitt­hvað bját­ar á. Svo ekki sé minnst á ófriðinn sem nú má finna um víða ver­öld þar sem verið er að skjóta niður raf­orku­flutn­ings­kerfi og virkj­an­ir til að mynda óör­yggi hjá þjóðum,“ seg­ir Guðmund­ur og bæt­ir við að við þurf­um að byggja varn­ir eins og aðrar þjóðir að þessu leyti.

Kröflulína 3 fer um þrjú sveitarfélög: Skútustaðahrepp, Múlaþing og Fljótsdalshrepp. …
Kröflu­lína 3 fer um þrjú sveit­ar­fé­lög: Skútustaðahrepp, Múlaþing og Fljóts­dals­hrepp. Lengd lín­unn­ar er 121 km og ligg­ur hún að mestu sam­síða Kröflu­línu 2, frá tengi­virki við Kröflu­stöð að tengi­virk­inu við Fljóts­dals­stöð. mbl.is/​Aðsend

Hefðu viljað vera kom­in lengra í upp­bygg­ingu raf­orku­kerf­is­ins

Er flutn­ings­kerfi Landsnets búið að þró­ast mikið á tutt­ugu árum?

„Þegar við horf­um til baka þá hef­ur flutn­ings­kerfið okk­ar þró­ast gríðarlega mikið á und­an­förn­um árum og er sí­fellt að verða ör­ugg­ara, við erum að efla teng­ing­ar á milli fleiri bæja og fá fleiri stóra viðskipta­vini sem eru tengd­ir með tveim­ur teng­ing­um í stað einn­ar sem trygg­ir betra ör­yggi. Þrátt fyr­ir þetta hafa verið mikl­ar taf­ir í leyf­is­ferli stærstu fram­kvæmd­anna okk­ar og reikn­um við með að vegna þessa séum við sem þjóð kom­in í innviðaskuld upp á 86 millj­arða króna.

Við hefðum því viljað vera kom­in lengra í upp­bygg­ingu raf­orku­kerf­is­ins á tutt­ugu ára af­mæli Landsnets en okk­ur hef­ur tek­ist en þemað á af­mælis­ár­inu okk­ar er að við ætl­um að horfa til framtíðar og fara í vit­und­ar­vakn­ingu um hvað þarf að gera til að mæta framtíðinni sem við vilj­um sjá.“

Það starfa 170 einstaklingar hjá Landsneti. Hér má sjá starfsmann …
Það starfa 170 ein­stak­ling­ar hjá Landsneti. Hér má sjá starfs­mann að störf­um við tengi­virki. mbl.is/​Aðsend

Get­um leyst öll mál ef vilj­inn er fyr­ir hendi

Guðmund­ur seg­ir að þegar við horf­um inn í framtíðina þá mun­um við standa frammi fyr­ir mörg­um áskor­un­um. „Við þurf­um að klára innviðaskuld­ina okk­ar til að geta full­nýtt alla þá raf­orku sem er búin til í land­inu og við þurf­um einnig að mæta nýj­um tím­um. Meðal ann­ars í orku­skipt­um sem þýðir aukn­ingu á fram­leiðslu og flutn­ingi á raf­orku, nán­ast tvö­föld­un í fram­leiðslu og flutn­ingi ef við horf­um til lengri tíma. Til að mæta þessu þurf­um við að bæta þriðju stoðinni við orku­vinnslu­kerfið sem er vindork­an. Það er mjög breyti­leg­ur orku­gjafi sem legg­ur á flutn­ings­kerfið mikl­ar kröf­ur. Við þurf­um að mæta fram­boði af raf­magni, sem verður í framtíðinni aðeins sveiflótt­ara, og jafna sveifl­urn­ar með því að til dæm­is láta raf­magns­bíl­ana okk­ar hlaða raf­orku þegar nóg fram­boð er af henni og verðið er lágt en jafn­vel gefa til baka raf­orku þegar þess er þörf en nú er kom­inn búnaður í marga raf­magns­bíla sem get­ur skilað raf­magni þegar það skort­ir. Víða um heim eru bíl­ar orðnir þessi jöfn­un­ar­tæki við hlið uppistöðulóna vatns­orku­vera og stærri raf­hlöðubanka.“

Það er þrennt sem Landsnet stefn­ir á að gera í framtíðinni að sögn Guðmund­ar. „Við þurf­um að byggja kerfið upp þannig að hindri ekki þró­un­ina í sam­fé­lag­inu og ógni þannig ör­yggi okk­ar allra. Til að geta það þurf­um við að ein­falda öll leyf­is­ferl­in, gera viðskiptaum­hverfið með raf­magn gagn­særra og nýta gervi­greind­ina á öll­um sviðum,“ seg­ir Guðmund­ur.

Helm­ingi leng­ur að leggja raflín­ur en að koma manni á tunglið í fyrsta skiptið

Það er áhuga­vert að hugsa um hvernig al­menn­ing­ur í land­inu er op­inn fyr­ir nýj­ustu tækni sem vana­lega fel­ur í sér notk­un á raf­magni en svo þurfa orku­vinnslu­fyr­ir­tæk­in og Landsnet að draga vagn­inn þegar kem­ur að því að tryggja næga raf­orku fyr­ir framtíðina. „Ég tek stund­um dæmi um það þegar John F. Kenn­e­dy var val­inn for­seti á fyrstu mánuðum árs­ins 1961, þá hélt hann ræðu þar sem hann stóð í tröpp­um þing­húss­ins í Washingt­on og lofaði þjóðinni að í sinni for­setatíð myndi hann senda mann á tunglið. Átta árum, ein­um mánuði og 25 dög­um seinna lenti Neil Armstrong á tungl­inu og þá var búið að hanna geim­fara­áætl­un­ina og fram­kvæma hana. Ef við ber­um þetta sam­an við leyf­is­ferl­in hjá okk­ur, og tök­um sem dæmi Suður­nesjalínu 2, þá erum við búin að vera í 16 ár, þrjá mánuði og þrjá daga í vinnu við að fá leyfi til að leggja lín­una. Við erum í fram­kvæmd­um með lín­una en það eru ennþá mála­ferli í gangi við land­eig­end­ur. Hvernig ætl­um við sem þjóð að rétt­læta að kerf­in okk­ar séu svona sein­virk? Það er þjóðarör­yggi að við séum sjálf­bær um raf­magn og við þurf­um raf­magn til að geta byggt upp sam­keppn­is­hæft at­vinnu­líf.“

Varðar þjóðarör­yggi að tengja landið

Guðmund­ur seg­ir nauðsyn­legt að fara í ákveðnar lyk­il­fram­kvæmd­ir sem fela í sér að auka raf­orku­teng­ingu á milli lands­hluta. „Allra mik­il­væg­ast að mínu mati er að tengja sam­an norðaust­ur­hluta kerf­is­ins við suðvest­ur­hlut­ann. Svo þarf að halda áfram að tví­tengja alla staði lands­ins.“

Þegar kem­ur að flutn­ings­kerf­inu er fyr­ir­tækið einkum í deil­um við nærsam­fé­lagið um lín­urn­ar en þó að það sé þjóðhags­lega nauðsyn­legt að tengja alla land­hluta, þá á sama tíma vilja sveit­ar­fé­lög eða land­eig­end­ur ekki hafa línu í daln­um sín­um eða á jörðinni. „Þetta eru oft svo stór­ar fram­kvæmd­ir að fólk teng­ir ekki við að það hafi áhrif á heim­il­is­rekst­ur­inn eða ör­yggi og hag­sæld sveit­ar­fé­lags­ins. Við leggj­um álíka mikið af strengj­um ofan í jörðina og lín­ur í lofti. En vanda­málið við stærstu loftlín­urn­ar er að við get­um ekki lagt þær ofan í jörðu. Al­mennt leggj­um við minni lín­ur ofan í jörðu sem er alltaf fyrsti og hag­kvæm­asti kost­ur­inn en stóru lín­urn­ar geta ekki all­ar farið ofan í jörðu af tækni­leg­um ástæðum og eru þær um­deild­ustu fram­kvæmd­irn­ar okk­ar. En við höf­um lagt okk­ur fram við að fella þær bet­ur að land­inu og erum í stöðugri ný­sköp­un með mark­mið um minnk­un um­hverf­isáhrifa,“ seg­ir Guðmund­ur Ingi Ásmunds­son að lok­um og bæt­ir við að hann haldi stolt­ur upp á af­mælis­árið með þeim 170 starfs­mönn­um sem starfa hjá Landsneti og hann bjóði að sama skapi þjóðinni að halda upp á áfang­ann með þeim og taka af­stöðu til þeirr­ar framtíðar sem hún vill skapa sér. Landsnet verður með viðamikl­ar af­mæl­is­kynn­ing­ar um allt land fyr­ir kerf­isáætl­un næstu tíu ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert