Á málþingi EFLU um orkuspár verður kastljósinu beint að mikilvægi spáa í ákvarðanatöku, þörfinni fyrir faglega umræðu og þeim áskorunum sem blasa við í orkuskiptum þjóðarinnar. Til að móta sjálfbæra og hagkvæma framtíð orkukerfisins munu orkuspár gegna lykilhlutverki. Þær eru forsenda þess að hægt sé að tímasetja fjárfestingar í virkjunum og innviðum með skynsamlegum hætti og stuðla þannig að betri nýtingu fjármuna. Á málþinginu Orkuspár sem vísa veginn verður kastljósinu beint að mikilvægi spáa í ákvarðanatöku, þörfinni fyrir faglega umræðu og þeim áskorunum sem blasa við í orkuskiptum samfélagsins.
Samhliða umræðu um orkuspár verður minning Jóns Vilhjálmssonar heiðruð, en hann hefði orðið sjötugur á sjálfum degi málþingsins, 5. maí 2025. Jón var brautryðjandi í orkuspám hér á landi og lagði grunninn að þeirri aðferðafræði sem lengi vel hefur verið notuð og reynst vel. Hann starfaði við gerð orkuspáa í yfir fjóra áratugi og hafði djúpan skilning á orkumarkaði og þeim þáttum sem ráða orkuþörf þjóðarinnar.
Á síðustu árum hefur sú þróun átt sér stað að fleiri aðilar innan orkugeirans, sumir í opinberri eigu, vinna sjálfstætt að sínum orkuspám.
Til dæmis gáfu Orkustofnun og Landsnet út sínar spár á síðasta ári, hvor með sínum forsendum og niðurstöðum. Þetta vekur spurningar um hvort það væri hagkvæmara að sameina krafta og vinna að einni heildstæðri spá sem hagsmunaaðilar treysta. Umhverfis- og orkustofnun var stofnuð 1. janúar 2025 á grunni Orkustofnunar og Umhverfisstofnunar og verður eitt af verkefnum hennar að vinna orkuspár.
Saga orkuspáa á Íslandi spannar nú nærri hálfa öld. Raforkuspár hafa verið mest áberandi og reglulega endurskoðaðar en eldsneytisspár og jarðvarmaspár hafa komið sjaldnar út. Árið 1985 var tekin upp ný aðferðafræði sem Jón Vilhjálmsson mótaði, og frá þeim tíma hafa spárnar almennt reynst áreiðanlegar, sérstaklega til lengri tíma litið. Með góðum gögnum og skýrri aðferðafræði er vel hægt að spá fyrir um þróun raforkuþarfar, sem gerir orkuspár að ómissandi verkfæri fyrir stefnumótun í orkuskiptum, umhverfismálum og uppbyggingu innviða.
Orkuspár þurfa sífellt að takast á við nýjar áskoranir. Ísland stendur nú frammi fyrir stórum ákvörðunum vegna orkuskipta í samgöngum þar sem tæknileg þróun og hagkvæmni rafeldsneytis er enn óljós. Rafeldsneyti eins og vetni, ammoníak og metanól eru meðal þess sem rætt er um en framleiðsla þeirra krefst mikillar raforku. Það hefur áhrif á hvort hagkvæmt sé að framleiða slíkt eldsneyti innanlands og þar með hvaða orkuinnviði þurfi að byggja upp.
Einnig hefur ferðaþjónustan mikil áhrif á framtíðarorkuþörf. Ef Ísland hyggst taka á móti fjórum milljónum ferðamanna á ári samhliða orkuskiptum flugsamgangna getur það aukið raforkuþörf landsins umtalsvert. Á hinn bóginn ef dregið verður úr ferðamannafjölda dregur það úr aukinni raforkuþörf. Þessi óvissa gerir það að verkum að orkuspár eru oft gerðar með óvissubili eða birta niðurstöður sviðsmynda.
Orkuspár nýtast beint í ákvarðanatöku víða innan orkugeirans. Vinnslufyrirtæki þurfa langan undirbúningstíma fyrir nýjar virkjanir og dreifiveitur verða að auka dreifigetu sína í samræmi við vaxandi fjölda rafbíla og annarra orkuskiptaverkefna. Raforkunotkun meðalheimilis getur aukist um nærri 50 prósent þegar rafbíll bætist við, og slíkt kallar á verulegar fjárfestingar dreifiveitna. Spárnar gegna þar lykilhlutverki við að forgangsraða verkefnum og tryggja að rétt skref séu tekin á réttum tíma.
EFLA hefur í áratugi tekið virkan þátt í gerð orkuspáa og byggir á djúpri þekkingu og reynslu á sviðinu. Málþingið verður í höfuðstöðvum EFLU, Lynghálsi 4, kl. 14:00 þann 5. maí. Með málþinginu vill EFLA skapa vettvang fyrir opna og upplýsta umræðu og hvetja til samvinnu innan greinarinnar. Allir áhugasamir eru hvattir til að mæta, og skráningarsíðu og dagskrá má finna á efla.is.