Orkuspár sem vísa veginn

EFLA hefur í áratugi tekið virkan þátt í gerð orkuspaa …
EFLA hefur í áratugi tekið virkan þátt í gerð orkuspaa og byggir því á mjög djúpri þekkingu og reynslu á sviðinu. Ljósmynd/Aðsend

Á málþingi EFLU um orku­spár verður kast­ljós­inu beint að mik­il­vægi spáa í ákv­arðana­töku, þörf­inni fyr­ir fag­lega umræðu og þeim áskor­un­um sem blasa við í orku­skipt­um þjóðar­inn­ar. Til að móta sjálf­bæra og hag­kvæma framtíð orku­kerf­is­ins munu orku­spár gegna lyk­il­hlut­verki. Þær eru for­senda þess að hægt sé að tíma­setja fjár­fest­ing­ar í virkj­un­um og innviðum með skyn­sam­leg­um hætti og stuðla þannig að betri nýt­ingu fjár­muna. Á málþing­inu Orku­spár sem vísa veg­inn verður kast­ljós­inu beint að mik­il­vægi spáa í ákv­arðana­töku, þörf­inni fyr­ir fag­lega umræðu og þeim áskor­un­um sem blasa við í orku­skipt­um sam­fé­lags­ins.

Sam­hliða umræðu um orku­spár verður minn­ing Jóns Vil­hjálms­son­ar heiðruð, en hann hefði orðið sjö­tug­ur á sjálf­um degi málþings­ins, 5. maí 2025. Jón var brautryðjandi í orku­spám hér á landi og lagði grunn­inn að þeirri aðferðafræði sem lengi vel hef­ur verið notuð og reynst vel. Hann starfaði við gerð orku­spáa í yfir fjóra ára­tugi og hafði djúp­an skiln­ing á orku­markaði og þeim þátt­um sem ráða orkuþörf þjóðar­inn­ar.

Sam­ræm­ing eða sund­ur­leit nálg­un?

Á síðustu árum hef­ur sú þróun átt sér stað að fleiri aðilar inn­an orku­geir­ans, sum­ir í op­in­berri eigu, vinna sjálf­stætt að sín­um orku­spám.

Til dæm­is gáfu Orku­stofn­un og Landsnet út sín­ar spár á síðasta ári, hvor með sín­um for­send­um og niður­stöðum. Þetta vek­ur spurn­ing­ar um hvort það væri hag­kvæm­ara að sam­eina krafta og vinna að einni heild­stæðri spá sem hags­munaaðilar treysta. Um­hverf­is- og orku­stofn­un var stofnuð 1. janú­ar 2025 á grunni Orku­stofn­un­ar og Um­hverf­is­stofn­un­ar og verður eitt af verk­efn­um henn­ar að vinna orku­spár.

Saga orku­spáa á Íslandi spann­ar nú nærri hálfa öld. Raf­orku­spár hafa verið mest áber­andi og reglu­lega end­ur­skoðaðar en eldsneyt­is­spár og jarðvarmaspár hafa komið sjaldn­ar út. Árið 1985 var tek­in upp ný aðferðafræði sem Jón Vil­hjálms­son mótaði, og frá þeim tíma hafa spárn­ar al­mennt reynst áreiðan­leg­ar, sér­stak­lega til lengri tíma litið. Með góðum gögn­um og skýrri aðferðafræði er vel hægt að spá fyr­ir um þróun raf­orkuþarfar, sem ger­ir orku­spár að ómiss­andi verk­færi fyr­ir stefnu­mót­un í orku­skipt­um, um­hverf­is­mál­um og upp­bygg­ingu innviða.

Óvissuþætt­ir móta framtíðarþarf­ir

Orku­spár þurfa sí­fellt að tak­ast á við nýj­ar áskor­an­ir. Ísland stend­ur nú frammi fyr­ir stór­um ákvörðunum vegna orku­skipta í sam­göng­um þar sem tækni­leg þróun og hag­kvæmni ra­feldsneyt­is er enn óljós. Ra­feldsneyti eins og vetni, ammoní­ak og met­anól eru meðal þess sem rætt er um en fram­leiðsla þeirra krefst mik­ill­ar raf­orku. Það hef­ur áhrif á hvort hag­kvæmt sé að fram­leiða slíkt eldsneyti inn­an­lands og þar með hvaða orku­innviði þurfi að byggja upp.

Einnig hef­ur ferðaþjón­ust­an mik­il áhrif á framtíðarorkuþörf. Ef Ísland hyggst taka á móti fjór­um millj­ón­um ferðamanna á ári sam­hliða orku­skipt­um flug­sam­gangna get­ur það aukið raf­orkuþörf lands­ins um­tals­vert. Á hinn bóg­inn ef dregið verður úr ferðamanna­fjölda dreg­ur það úr auk­inni raf­orkuþörf. Þessi óvissa ger­ir það að verk­um að orku­spár eru oft gerðar með óvissu­bili eða birta niður­stöður sviðsmynda.

Ákvarðana­taka byggð á traust­um grunni

Orku­spár nýt­ast beint í ákv­arðana­töku víða inn­an orku­geir­ans. Vinnslu­fyr­ir­tæki þurfa lang­an und­ir­bún­ings­tíma fyr­ir nýj­ar virkj­an­ir og dreifi­veit­ur verða að auka dreifigetu sína í sam­ræmi við vax­andi fjölda raf­bíla og annarra orku­skipta­verk­efna. Raf­orku­notk­un meðal­heim­il­is get­ur auk­ist um nærri 50 pró­sent þegar raf­bíll bæt­ist við, og slíkt kall­ar á veru­leg­ar fjár­fest­ing­ar dreifi­veitna. Spárn­ar gegna þar lyk­il­hlut­verki við að for­gangsraða verk­efn­um og tryggja að rétt skref séu tek­in á rétt­um tíma.

EFLA hef­ur í ára­tugi tekið virk­an þátt í gerð orku­spáa og bygg­ir á djúpri þekk­ingu og reynslu á sviðinu. Málþingið verður í höfuðstöðvum EFLU, Lyng­hálsi 4, kl. 14:00 þann 5. maí. Með málþing­inu vill EFLA skapa vett­vang fyr­ir opna og upp­lýsta umræðu og hvetja til sam­vinnu inn­an grein­ar­inn­ar. All­ir áhuga­sam­ir eru hvatt­ir til að mæta, og skrán­ing­arsíðu og dag­skrá má finna á efla.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert