Krás-réttirnir er það sem gerist þegar fyrrum landsliðskokkur neitar að gera málamiðlun og setur raunverulegan veitingahúsamat á hilluna þar sem finna má tilbúinn mat í verslunum landsins.
„Krás er eitthvað alveg nýtt! Það er ekkert á markaðnum sem býður upp á það sama og við erum að gera, sem er í raun að bjóða fólki upp á fljótlegan góðan mat eldaðan af landsliðskokki sem tekur þrjár mínútur að hita upp,“ segir Andrey Rudkov eigandi Krás en mörg okkar kannast við hann frá Tokyo Sushi-samsteypunni.
„Krás og Tokyo Sushi eru í raun systrafélög en ég ákvað að búa þetta fyrirtæki til þegar ég var að fylgjast með tengdamömmu minni og þörfum hennar fyrir hollum og góðum mat sem bragðast vel, kostar ekki of mikið og er á bakka sem hún getur tekið hluta úr og hitað upp að vild,“ segir hann.
Það er fyrrum landsliðskokkurinn Snorri Victor Gylfason sem sér um alla matargerðina og var sá sem þróaði réttina, sem nú eru fáanlegir í sex af stærri verslunum Krónunnar á höfuðborgarsvæðinu.
„Við hjá Krás veljum aðeins það besta þegar kemur að hráefni. Þannig að ef þú hefur ekki tíma til að elda en þig langar að vera með girnilegar kræsingar og bera þær fram á augabragði þá er Krás eitthvað fyrir þig,“ segir Snorri.
Réttirnir frá Krás koma í umhverfisvænum umbúðum á bökkum sem hita má í örbylgjunni í þrjár mínútur, eða setja í ofn í 15 til 20 mínútur. Það má einnig hita réttina í Airfryer loftsteikingarpotti í fjórar til fimm mínútur. „Gleymdu öllu sem þú þekkir um tilbúnar máltíðir – þetta er eitthvað allt annað! Þegar ég var að þróa réttina þá var ég ekki að elta það sem er í tísku í matargerð, heldur að elta bragðið, gæðin og handverkið á bakvið réttina.
Ég vildi að hver réttur ætti rætur sínar að rekja til mikillar virðingar fyrir innihaldsefnunum, hefðbundinnar matreiðslu eins og við þekkjum hana besta á matsölustöðum landsins og svo er ég þeirrar trúar að þægindi eigi aldrei að vera á kostnað gæða.
Þess vegna eru allir matarbakkarnir þannig að áferð matarins er mismunandi, bragðið ekki það sama á öllum stöðum í bakkanum og aukasósur og fleira til hliðar við matinn sem gott er að setja yfir hann þegar búið er að hita,“ segir Snorri sem margir þekkja frá þeim tíma sem hann var í íslenska kokkalandsliðinu og frá þeim tíma sem hann var yfirmatreiðslumeistari á Vox.
„Það er einmitt Snorri sem gerir réttina einstaka og að okkar mati frábært tækifæri að geta boðið landsmönnum upp á mat sem Ólympíumeistari í matreiðslu eldar, á góðum verðum heima sem einfalt er að koma á matardiskinn,“ segir Nils Folmer Jørgensen markaðsstjóri Krás og bætir við að heiðarlegri og einfaldari mat sé vart að finna.
„Krás er ekki vörumerki sem er búið til í lokuðum stjórnarherbergjum, heldur í eldhúsinu af einstaklingi sem andar og lifir í heimi matargerðar.“
„Loforð fyrirtækisins er að við höfum þróað þægilegan mat án þess að gera málamiðlanir á gæðum. Enda er það okkar skoðun að þú ættir ekki að þurfa að velja á milli hraða og þess að matur smakkist vel. Máltíðirnar okkar eru fljótar í undirbúningi, samt hafa þær tekið tíma fyrir Snorra að gera. Þær eru búnar til af honum og eru því ekki fjöldaframleiddar heldur eru gæði sett ofar magni. Hver diskur er settur saman með réttu jafnvægi af próteini, kolvetni og fitu og því er maturinn mettandi og nærandi,“ segir Nils.
„Við notum hráefni sem eru af góðum gæðum, og uppskriftir sem ég er búinn að vera að þróa. Við notum einungis þau efni sem eru nauðsynleg og dugar maturinn í viku frá því hann er gerður því við erum ekki að setja í hann óþarfa geymsluefni sem rýra hollustuna.
Ég vil að í hvert sinn sem þú kaupir Krás þá fái maturinn þig til að stoppa og njóta og muna eftir stundinni.
Við eldum hvern rétt á vissan hátt og svo er maturinn snöggkældur til að halda í ferskleikann. Við gerum því engar málamiðlanir til að auka geymsluþolið,“ segir Snorri og Andrey tekur við: „Ætli sannast sagna sé ekki að segja: Krás er það sem gerist þegar kokkur neitar að gera málamiðlanir og setur raunverulegan veitingahúsamat á hilluna þar sem finna má tilbúinn mat í verslunum landsins,“ segir hann.
„Margir tilbúnir réttir smakkast eins í bakkanum, þar sem ein sósa er sett yfir allan réttinn, en Krás kveikir á bragðlaukunum þínum. Við notum ekki frosið brokkólí, heldur ferskt og þegar við búum til kartöflumús þá notum við kartöflur, smjör og rjóma. Það er semsagt allt gert frá grunni,“ segja þeir.
Fyrir hverja er Krás?
„Ég myndi segja réttina fyrir alla þá sem vilja girnilegan og góðan veitingahúsamat heima hjá sér. En ég get ímyndað mér að fólk sem býr eitt og eldra fólk eigi eftir að vera stór hópur þeirra sem versla réttina okkar. Því matarsóun er mikil þegar þeir sem búa einir eru að elda sér mat og geta ekki keypt hráefni í litlum skömmtum fyrir sig.
Eins hentar maturinn fyrir okkur sem vinnum lengur en viljum bjóða upp á góða máltíð heima. Einstaklinga sem fara í ræktina eftir vinnu og vilja ekki gera málamiðlun þegar kemur að matnum heima hjá sér eftir ræktina.
Ætli sannast sagna sé ekki bara að segja að Krás er fyrir okkur öll!“
Krás-réttirnir komu í verslanir í síðustu viku og hafa móttökurnar verið mjög góðar. Hægt er að nálgast réttina í sex Krónuverslunum víða um höfuðborgina og eru það stærri verslanir keðjunnar.
„Áður en langt um líður verður hægt að versla réttina á vefnum okkar, og sjáum við fyrir okkur að maturinn verði eins vinsæll á vinnustöðum sem eru ekki með sitt eigið eldhús, á vinnusvæðum þar sem aðstaða er til þess að hita upp mat og fleiri stöðum þar sem skortur er á góðum mat sem gleður starfsfólkið,“ segir Andrey.
Snorri hefur nú þegar þróað 25 rétti sem fara bráðlega, einn af öðrum, í Krónuverslanirnar og víðar. „Þeir réttir sem nú eru fáanlegir eru New Orleans-rækjur. Í þeim rétti eru risarækjur í bragðmikilli tómatsósu með hrísgrjónum og brokkolí. Til hliðar fylgir köld hvítlaukssósa og hunangsgljáðar kasjúhnetu.
Kjúklingur og sætar kartöflur, er réttur þar sem finna má fyllta kjúklingabringu með sætkartöflumús, hrísgrjónum og brokkólí. Til hliðar fylgja hrásalat, frískandi engifersósa og stökk quinoa.“
„Nautarif og kartöflumús er réttur þar sem beinlaus nautarif eru með mjúkri kartöflumús og brokkóli og kraftmiklum soðgljáa. Til hliðar fylgja sýrður rauðlaukur, grænar baunir og stökkir jarðskokkar.
Líbanskur kjúklingaréttur er með marineruðum kjúklingalærum með hrísgrjónum, sætum kartöflum og jógúrtsósu.
Kjúklinga Quesadilla er gómsætur réttur með hrísgrjónum og heimagerðri tómatsósu.
Kjúklinganaggarnir eru heimatilbúnir kjúklinganaggar með smælkiskartöflum og vínberjum.
Að auki erum við með Sætkartöflusalat, þar sem sætar kartöflur eru ristaðar og mjúkar að innan, með soja-gljáðum hnetum og fræjum fyrir umami-bragð. Þann rétt þarf ekki að hita og svo er hægt að fá Kjúklinga Goyoza-rétt sem er mjög góður einnig.
Verð á máltíðunum er frá 1.770 krónum til 2.200 krónur á mann sem er ekki mikið að okkar mati þegar hver biti er einstakur og maturinn svo góður,“ segja þeir að lokum.