Geneva Camerata hefur vakið heimsathygli fyrir að feta nýjar leiðir í miðlun klassískrar tónlistar. Hljómsveitin kemur fram í fyrsta sinn á Íslandi 14. júní næstkomandi Í Eldborg í Hörpu með magnaða sviðsetningu á fimmtu sinfóníu Dmitris Shostakovitsj.
Geneva Camerata (Kammersveitin í Genf) var stofnuð árið 2013. Sveitin er skipuð um fimmtíu framúrskarandi hljóðfæraleikurum sem koma víða að og eiga það sammerkt að vera óhræddir við að feta nýjar slóðir í nálgun sinni við sígilda tónlist. Starfið í hljómsveitinni krefst enda víðsýni og forvitni þar sem áhættur eru teknar og hljóðfæraleikararnir stíga inn í hlutverk sem þeir eru alls óvanir að takast á við.
Samstarf sinfóníuhljómsveita við aðra listgeira er vel þekkt víða um heim en Geneva Camerata stígur skrefinu lengra. Í Revolta, sem fer á svið Eldborgar 14. júní næstkomandi, taka hljóðfæraleikararnir þátt í sviðsetningunni með dansi og hreyfingum ásamt fjórum hipphoppdönsurum.
Hljóðfæraleikararnir spila standandi, krjúpandi, liggjandi og á fleygiferð. Verkið flytja þeir eftir minni enda krefst sviðsetningin þess að þeir séu hreyfanlegir og ekki háðir nótum á nótnapúlti. Til verður sýning sem á engan sinn líka í hinum sinfóníska tónleikasal, ófyrirsjáanleg, gríðarlega spennandi og á köflum hættuleg!
Auk nýstárlegra sviðsetninga á sinfónískum verkum eftir tónskáld svo sem Lully, Mozart, Beethoven, Dvorak, Mahler og Shostakovitsj hefur Geneva Camerata vakið athygli fyrir ferskt, fjölbreytt og fjölþjóðlegt efnisval á hefðbundnari tónleikum sínum.
Hljómsveitin hefur starfað með röppurum og rokkurum, jazz- og raftónlistarfólki og leikið tónlist allt frá miðöldum og til okkar daga þar sem tónlistarhefðir frá ólíkum heimshornum eru á dagskrá en hljómsveitin hefur leikið í virtum tónleikasölum og í óhefðbundnari viðburðarýmum víðs vegar um heiminn við frábærar undirtektir.
Fimmta sinfónía Shostakovitsj, sem Geneva Camerata flytur á sviði Eldborgar, var frumflutt á miklum umbrotatímum í lífi Shostakovitsj. Tæpum tveimur árum áður hafði Pravda, málgagn sovéska kommúnistaflokksins, birt fordæmingu á tónlist Shostakovitsj eftir að tónskáldið féll í ónáð hjá Stalín. Í kjölfarið var Shostakovitsj undir stöðugri smásjá yfirvalda, honum gert að draga verk sín til baka og semja tónlist sem þjónaði hagsmunum ríkis og verkalýðs: bjarta, uppbyggilega og auðskiljanlega!
Fimmta sinfónían var frumflutt í nóvember 1937 í Leníngrad við gríðarleg fagnaðarlæti og Shostakovitsj tókst hið ómögulega, að vera trúr sinni listrænu köllun en komast á sama tíma í gegnum nálarauga ritskoðara. Stjórnvöld túlkuðu verkið sem glæsilega hetjuhljómkviðu um lífið í Sovétríkjunum en litu alfarið fram hjá þeim djúpa harmi sem almenningur skynjaði svo vel þá og allar götur síðan. Verkið hefur gjarnan verið sagt eitt áhrifamesta andsvar listamanns við ofríki og kúgun, fullt af nístandi togstreitu og mótsögnum.
Nálgun Geneva Camerata við þessa mögnuðu sinfóníu Shostakovitsj er frumleg og í hæsta máta óhefðbundin þar sem verkinu er teflt saman við krumpdans, hipphopp dansstíl sem þróaðist í kringum árið 2000 í jaðarsettum lágtekjuhverfum Los Angeles-borgar. Krumpdans einkennist af áköfum og kraftmiklum hreyfingum og varð til sem andsvar gegn kynþáttahyggju og lögregluofbeldi, alvarlegu og viðvarandi samfélagsmeini í Bandaríkjunum.
Með krumpdansinum fann dansarinn leið til að tjá reiði og sorg yfir félagslegu óréttlæti og hefja sig upp yfir kringumstæður sínar á djúpan og áhrifaríkan hátt. Krump er skammstöfun fyrir Kingdom Radically Uplifting Mighty Praise sem vísar til þeirrar andlegu og trúarlegu víddar sem felst í dansinum og lyftir dansaranum úr erfiðum kringumstæðum, frá örbirgð, ofbeldi og útilokun.
Hliðstæðurnar á milli verks Shostakovitsj og krumpdansins verða því þegar vel er að gáð býsna skýrar en bæði sinfónían og dansinn spretta fram sem andsvar gegn ofríki og kúgun, þá og nú. Uppsetning Geneva Camerata á þessu tæplega níræða meistaraverki Shostakovitsj verður þannig sterk áminning til okkar um hvers listin er megnug og hvernig listamenn ná að búa til óendanlega fegurð og töfra, jafnvel við óbærilegar kringumstæður.