Atli Steinn Jónsson og E. Stefán Kristjánsson byrjuðu með tvær hendur tómar í bílskúrnum heima en hafa á tveimur áratugum byggt upp stöndugt fyrirtæki, Kælingu Víkurafl, sem þjónustar fyrirtæki um víða veröld með kælibúnað. Fyrirtækið býður upp á alhliða kælilausnir fyrir meðal annars sjávarútveg og matvælaiðnað.
„Upphaf Kælingar ehf má rekja til þess þegar við kynntumst við störf í öðru félagi. Það kom fljótlega í ljós að við höfðum sama metnað og að hugur okkar stefndi hærra, sem varð til þess að við stofnuðum Kælingu ehf í maí árið 2005,“ segja Atli Steinn Jónsson og E. Stefán Kristjánsson aðspurðir um söguna á bak við fyrirtækið. Þeir byrjuðu með tvær hendur tómar í bílskúrnum heima hjá Atla en halda nú upp á tuttugu ára afmæli fyrirtækisins.
„Við vorum með kraft, þor og elju að vopni þarna í upphafi en svo gekk vel að afla verkefna en í upphafi snérist starfsemin eingöngu um uppsetningu og þjónustu á kæli- og frystikerfum.
Fljótlega kom í ljós þörf hjá viðskiptavinum í sjávarútvegi fyrir kæliaðferð sem næði jafnari og betri kælingu en sú sem næst með ísflögum. Hafist var handa við að hanna og smíða ískrapavél frá grunni,“ segja þeir.
Tryggvi Ársælsson útgerðarmaður hafði mikla trú á þessari nýjung og keypti fyrstu ískrapavélina árið 2006 fyrir bát sinn Sæli BA. „Þessi ískrapavél er enn í gangi og er góður vitnisburður um þau gæði sem Kæling hefur ávallt lagt upp með í sinni hönnun og smíði.
Það var svo árið 2006 að fyrsti starfsmaðurinn, Jón Pétur Sigurðsson, var ráðinn og er hann enn starfsmaður hjá félaginu og orðinn hluti af eigendahópnum. Á sama tíma var félagið flutt að Stapahrauni 6 í Hafnarfirði þar sem það er ennþá til húsa.“
Árið 2007 hófst sókn á erlenda markaði með sölu á K4 ískrapavél til Bandaríkjanna. „Fljótlega fylgdi sala til Noregs og í kjölfarið fór boltinn að rúlla á öðrum erlendum mörkuðum,“ segir Atli og bætir við að félaginu hafi borið gæfa til þess að hafa mjög sterka verkefnastöðu allt frá upphafi. „Enda gæði og áreiðanleiki einkunnarorð félagsins. Fjöldi viðskiptavina sem Kæling hefur unnið fyrir er um 1.200, bæði hér heima og erlendis.“
Árið 2024 var ákveðið að auka þjónustuna enn frekar og varð það úr að Víkurafl úr Grindavík og Kæling ákváðu að sameinast en Kæling hafði átt gott samstarf við Víkurafl allt frá stofnun þess félags árið 2017. „Með því að sameinast Víkurafli bættist við aukin þekking á raflögnum, smíði og uppsetning á rafmagnstöflum, gerð rafstýringa og forritun á iðntölvum og öðrum sjálfvirknibúnaði sem nýtist viðskiptavinum félagsins,“ segir E. Stefán.
Allt frá stofnun hefur verið mikið um þróun og nýsköpun á vélum og kælikerfum og oftar en ekki í samstarfi við viðskiptavini. „Í dag býður Kæling Víkurafl upp á mjög breiða línu af búnaði fyrir kælilausnir eða raflausnir í þessum vöruflokkum: Ískrapavélar, ískrapageymslutankar, sjókælar, hringrásarsjókælar, kæligeymslur, frystigeymslur, lofthitastýringar í vinnslurýmum, HYDRA og stjórnbúnaður.“
Sú mikla áhersla sem hefur verið á stöðuga þróun Kælilausna frá upphafi hefur byggt upp traust og eftirspurn á markaði sem hefur orðið til þess að á þessum tuttugu árum hefur Kæling hannað, smíðað og sett upp þúsundir véla og kælikerfa bæði hér heima sem og erlendis.
„Með sameiningu Kælingar og Víkurafls varð til enn sterkara lausnafyrirtæki á sviði kæli- og raflausna. Fyrirtækið býður nú auk kælilausna fjölbreyttar raflausnir bæði til að stýra kælibúnaði og kælilausnum en einnig mjög sterkar vörulínur fyrir allra handa iðntölvustýringar og aflstýringar fyrir viðskiptavini félagsins. Helstu raflausnir eru: Aðaltöflur, dreifitöflur, stýritöflur, iðntölvuforritun, móðurstöðvar iðnkerfa og útleiðslumælibúnaður.“
Sérfræðingar Kælingar Víkurafls í kælilausnum fylgjast nú með og þjónusta viðskiptavini víðsvegar um heiminn, bæði á landi og úti á sjó í gegnum fjartengingar. „En með nýjum stjórnbúnaði og viðbótum við eldri er nú hægt að fylgjast með og þjónusta kælilausnir hvar og hvenær sem er svo lengi sem það er nettenging. Skip þurfa til að mynda ekki að koma í land ef eitthvað kemur upp á því það er mjög líklega hægt að leysa málin í gegnum fjartengingu.“
Þetta er mikilvægt skref sem styður við frekari sókn á erlenda markaði. „Kæling hefur verið leiðandi í þróun og smíði kælilausna um árabil og heldur því áfram með áherslu á umhverfisvænar lausnir. Á undanförnum árum og fram til dagsins í dag hefur Kæling komið með hagkvæmar lausnir sem gera viðskiptavinum mögulegt að taka stór skref í umhverfismálum.
Lausnirnar fela í sér að taka út eða minnka verulega notkun á óumhverfisvænum kælimiðlum, minnka orkunotkun við sömu eða meiri kæliafköst. Í dag geta viðskiptavinir valið nýjar 100% umhverfisvænar kælilausnir í flestum flokkum en einnig valið að nýta eldri kælibúnað og innleiða lausnir sem draga allt að 90% úr notkun óumhverfisvænna kælimiðla,“ segja þeir.
Hvað getið þið sagt okkur umhverfisvænu lausnirnar ykkar?
„Í 100% umhverfisvænum kælilausnum er unnið með Co2-Kolsýru sem kælimiðil. Einnig er í boði mjög umhverfisvænar kælilausnir þar sem unnið er með varmaskipta. En í þeim kerfum eru óumhverfisvænir kælimiðlar einungis lítið brot af heildarmagni kælimiðla á kerfinu og þá staðbundnir í lítilli hringrás í kælibúnaðinum sjálfum en með varmaskipti er kuldinn fluttur yfir í umhverfisvæna kælimiðla sem flæða um kerfið þar sem hin eiginlega kæling fer fram,“ segja þeir.
Ein helsta nýjung frá Kælingu Víkurafli er HYDRA sem er fjölþætt kælikerfi og sem er hannað til tengjast eldri kælikerfum og minnka eldri óumhverfisvæna kælimiðla niður um allt að 90% og þarf mun minni orku til að skila sömu kæliafköstum. „HYDRA er tengjanleg við allan eldri kælibúnað frá Kælingu og einnig við mikið af búnaði frá öðrum framleiðendum og þannig breyta eldri kerfum í mun umhverfisvænni kælikerfi með afar hagkvæmum hætti sem geta verið mjög fljót að borga sig upp með minni raforkunotkun við að skila sömu kæliafköstum.“
Nær allar kælilausnir og kælibúnaður frá Kælingu er nú fáanlegur í færanlegum gámalausnum. „Dæmi um slíka lausn er K-40PX2 færanleg ískrapaverksmiðja í 40 feta gám sem þjónar mörgum stöðum í Færeyjum og getur framleitt um 20 þúsund lítra af ískrapa á klukkustund.
Gámalausnirnar eru frábær leið til að mæta þörfum á öflugum kælilausnum til lengri og skemmri tíma. Með gámalausnum er hægt að færa lausnirnar á milli staða eftir þörfum hverju sinni. Gámalausnir eru einnig frábær lausn þegar ekki er til staðar hentugt húsnæði eða ekkert pláss fyrir kælilausnir. En þá má koma fyrir gám eða gámum á athafnasvæði og tengja við vinnsluhúsnæði.“
Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að félagið var stofnað í bílskúr árið 2005 og nú starfa ríflega tuttugu manns hjá félaginu. „Á þessum árum hefur lausna og þjónustuframboðið aukist til muna og í dag býður Kæling Víkurafl sérsniðnar lausnir og þjónustu aðallega fyrir sjávarútveg, fiskeldi, matvælafyrirtæki, líftækniiðnað og sjúkrastofnanir,“ segja þeir.
Kæling Víkurafl heldur áfram að vera í fararbroddi með hönnun og þróun á kælibúnaði og kælilausnum sem mæta nútíma kröfum um umhverfisvænar lausnir þar sem gæði, afköst og áreiðanleiki renna saman. „Með úrval vandaðra lausna, reynslu og þekkingu sérfræðinga Kælingar Víkurafls er bjart framundan í áframhaldandi sókn hér heima og erlendis á 20 ára afmælinu,“ segja Atli Steinn Jónsson og E. Stefán Kristjánsson að lokum.