Ásvaldur Óskar Jónsson, betur þekktur sem Óskar hjá Bílalind, segir mikilvægt að allt ferlið við bílakaup sé einfalt og þægilegt og að það sé góð upplifun að kaupa sér bíl. Hann segir traust og virðingu skipta öllu máli í viðskiptum og bætir við að hann hafi einfaldlega mikla ástríðu fyrir bílum.
„Það er gríðarlega mikilvægt að fólk, sem er að hugsa um að kaupa bíl, geti leitað til traustra og reyndra aðila. Við hjá Bílalind leggjum mikla áherslu á áreiðanleika og góða þjónustu. Þetta snýst um traust, bæði í orði og verki,“ segir Óskar.
Sjálfur hóf hann störf á bílasölu árið 1998 og hefur starfað í greininni síðan. „Starfsmenn mínir eru einnig með 30 ára sameiginlega reynslu í bílasölu, svo hér mætir enginn að tómum kofanum,“ segir hann og brosir.
Bílalind er staðsett að Kletthálsi 11, á bílasölusvæðinu Kletthálsi, og er með um 3.000 fermetra plan undir bíla. „Þar er pláss fyrir allt að 150 bíla í sýningu á hverjum tíma. Söluskráin er uppfærð reglulega, í raun á þriggja mánaða fresti, og þar má finna bæði verð og ekinn kílómetrafjölda. Við leggjum áherslu á að upplýsingarnar séu skýrar og aðgengilegar, það skiptir miklu máli fyrir viðskiptavinina.“
Þó að margt sé hægt að afgreiða á netinu í dag leggur Óskar áherslu á mikilvægi þess að sjá bílana í eigin persónu. „Það er alltaf best að koma á planið og skoða bílana sjálfur. Við höfum líka sett upp QR-kóða við hvern bíl sem gefur aðgang að ítarlegum upplýsingum. Þetta einfaldar allt ferlið og hjálpar fólki að taka upplýsta ákvörðun.“
Óskar segir rafmagnsbíla vera sífellt vinsælli valkost meðal viðskiptavina. „Oft er rafmagnsbíllinn annar bíll heimilisins en það hentar ekki öllum. Við seljum enn mikið af bæði bensín- og dísilbílum enda hefur fólk ólíkar þarfir og við mætum þeim með fjölbreyttu úrvali.“
Nú hefur Tesla verið mest seldi rafmagnsbíllinn á Íslandi um tíma en Óskari finnst gaman að sjá nýja rafmagnsbíla koma inn á markaðinn sem gefa Teslu ekkert eftir að hans sögn. „Þegar fólk er ekki tilbúið í 100% rafmagn er vinsælt að kaupa PLUG IN HYBRID-bíla sem eru bæði með eldsneyti og rafmagn.“
Á sumrin eykst sala á ferðavögnum og húsbílum verulega. „Við tökum vel á móti eigendum ferðavagna, í raun með opnum örmum. Þetta er alltaf líflegur tími hjá okkur þegar hjólhýsi og húsbílar fara hratt í gegnum planið.“
Aðspurður um gæði hjólhýsa í dag segir Óskar þau vera orðin hálfgerðar hallir. „Þau eru með öllum búnaði sem hugsast getur. Svo sem sjónvarpi, hárblásara, kaffivél, brauðrist og þráðlausu neti. Tjaldvagnar og fellihýsi eru líka mjög vinsæl og eru auðvitað frábær kostur fyrir þá sem ferðast mikið um landið og vilja fara aðeins út fyrir malbikið.“
Óskar segir bílasölubransann hafa tekið miklum breytingum til hins betra síðan hann hóf störf. „Í dag liggja allar upplýsingar um bílana fyrir: Tjónaferill, veðbönd og innflutningssaga.“
Hann segir að einnig hafi fjármögnun og sjálf sölumeðferðin einfaldast. „Viðskipti gerast núna hratt og örugglega með rafrænum undirritunum. Það sparar tíma og gerir allt ferlið þægilegra fyrir bæði seljanda og kaupanda.“
Hjá Bílalind er einnig ýmislegt gert til að einfalda lífið fyrir seljandann. Til að mynda er boðið upp á nokkrar tegundir af auglýsingapökkum. „Ef þú hefur ekki tíma til að láta þrífa bílinn bjóðum við upp á að seljandi komi með bílinn til okkar og við sjáum um allt sem þarf til að hann seljist hratt og örugglega,“ segir Ásvaldur Óskar Jónsson að lokum.