Nýlega gerðist Eimskip einn af bakhjörlum Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) og í aðdraganda EM kvenna hefur mikil stemning skapast á vinnustaðnum.
„Í tilefni af EM kvenna langaði okkur sérstaklega að styðja við landsliðið og um leið vekja athygli á mikilvægi jafnréttis í íþróttum og samfélaginu almennt,“ segir Harpa Hödd Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og samskiptasviðs hjá Eimskip.
„Við störfum í hefðbundnum karllægum geira og höfum markvisst verið að efla stöðu kvenna innan fyrirtækisins, meðal annars með leiðtogaþjálfun og markvissri arftakaáætlun sem er hvoru tveggja liður í jafnréttisáætlunum félagsins. Við vitum hvert við viljum stefna og langaði að senda þau skilaboð út í samfélagið. Markaðsteymið fór því af stað í hugmyndavinnu ásamt Kontor. Þegar hugmyndin að HÚN í stað HÚH kom, þá fannst okkur það smellpassa við mómentið, að gefa stelpunum sviðsljósið og hvetja þær áfram. Í framhaldinu komu Skot, leikstjórinn Þóra Hilmarsdóttir og ljósmyndarinn Ari Magg að verkefninu og hugmyndin hélt áfram að þróast.“
Auglýsingin, sem ber yfirskriftina „HÚN – Örugg sending í höfn“ hefur vakið athygli fyrir skemmtilega nálgun. „Við vildum sýna stelpunum einlægan stuðning og færa þeim eitthvað alveg einstakt. HÚH-ið er orðið hluti af þjóðarsálinni, hálfgert þjóðartákn, og það var gaman að taka smá snúning á því og færa stelpunum sína eigin útgáfu af Víkingaklappinu. Við erum ótrúlega ánægð með hvernig tókst til og við náðum að fanga stoltið og þá samstöðu sem landsliðið vekur hjá þjóðinni,“ segir Harpa.
Samfélagsleg ábyrgð hefur lengi verið hluti af stefnu og sýn félagsins, þar á meðal hjálmaverkefnið sem hefur verið keyrt í samstarfi við Kiwanis frá árinu 2004.
„Við leggjum mikla áherslu á að styðja samfélagið og nærumhverfið með markvissum hætti. Samstarfið við KSÍ nær einnig yfir stuðning á grasrótarstarfi KSÍ um land allt, sem okkur finnst skipta miklu máli.“
„Það hefur verið virkilega gaman að sjá hvernig starfsfólkið hefur tekið þátt í niðurtalningunni að EM. Við höfum meðal annars fengið tækifæri til að bjóða börnum starfsfólks að verða svokallaðir lukkukrakkar. Það hlutverk felur í sér að leiða leikmenn beggja liða inn á völlinn og standa með þeim á meðan þjóðsöngvarnir eru fluttir. Við sköpuðum einnig EM-stemningu á vinnustaðnum með upphitun fyrir leiki liðsins, frumsýningu auglýsingarinnar í matsalnum í hádeginu og heimsókn frá Tólfunni, sem kom auðvitað með látum, tók HÚN-Víkingaklappið og fékk allan salinn með. Það hitti skemmtilega í mark.“