Engar nýjar vísbendingar vegna WannaCry

Engar nýjar vísbendingar hafa borist til Netöryggissveitarinnar CERT-ÍS í dag …
Engar nýjar vísbendingar hafa borist til Netöryggissveitarinnar CERT-ÍS í dag um sýkingar í tölvum hérlendis. mbl.is/Ófeigur

Póst- og fjarskiptastofnun segir að engar staðfestar tilkynningar eða nýjar vísbendingar hafi borist í dag til netöryggissveitarinnar CERT-ÍS um sýkingar í tölvum hérlendis af völdum WannaCry-óværunnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem var send nú síðdegis.

Fram kemur að grannt sé fylgst með þróun mála og frekari tilkynningar um stöðuna hérlendis verði birtar eftir því sem þörf er á.

„Ítrekað er að ef grunur leikur á smiti af völdum WannaCry-óværunnar er óskað eftir því að tilkynning um það verði send til netöryggissveitarinnar.

Tilkynningar sendist á cert@cert.is eða á fax nr. 510-1509,“ segir í tilkynningu. 

Þegar atvik eru tilkynnt er gott að senda eftirfarandi í sem ítarlegustu formi:

  • Tengiliðaupplýsingar - í það minnsta tölvupóstfang
  • Sem nákvæmust lýsing á því sem gerðist
  • Skrár með spillikóða eða lista af skrám sem vírusvörn finnur
  • Skjáskot af kúgunarbréfum með upplýsingum s.s. bitcoin greiðsluleiðbeiningum og sérstaklega bitcoin reikningi
  • Skjáskot af skráalista í windows explorer með skráaendingum sem óværan hefur breytt

Á föstudag og um helgina gekk bylgja gagnagíslatökuárása (e. ransomware) yfir heiminn. Árásin var gríðarlega umfangsmikil og hafa mörg hundruð þúsund tölvur sýkst um allan heim.

Fram hefur komið að tölvur séu sýktar með óværu sem dulritar gögn á tölvunni og komi þannig í veg fyrir að notandi komist í þau. Hætt sé við að aðrar nettengdar tölvur og gögn á nettengdum staðarnetum verði einnig dulrituð.

Óværan nýtir sér þekktan veikleika í Windows-stýrikerfinu, MS17-010 sem búið er að gefa út öryggisleiðréttingu á. Samkvæmt upplýsingum frá Microsoft eru það eingöngu tölvur með eldra stýrikerfi en Windows 10 sem eru í hættu fyrir þessari árás. Netöryggissveitin CERT-ÍS mælir engu að síður með því að uppfæra reglulega öll Windows-stýrikerfi, þar með talið Windows 10.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert