„Mjög stórt skref fram á við“

„Þetta er mjög stórt skref fram á við,“ segir Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík og fyrrverandi starfsmaður NASA, um leiðangur Perseverance sem áætlað er að lendi á Mars á fimmtudag. Tæknileg geta könnuðarins sé mun meiri en þeirra sem áður hafa kannað rauðu plánetuna og þá sé hægt að velja lendingarstaðinn með mun meiri nákvæmni nú en áður. Bara það geri leiðangurinn og upplýsingasöfnunina markvissari en áður hefur verið mögulegt.

Lendingarstaðurinn er Jezero-gígur þar sem allt bendir til að hafi verið stöðuvatn í fyrndinni. Vísindamenn eru sérstaklega spenntir fyrir upplýsingunum sem þar er mögulegt að safna, því ummerki um fornt örverulíf er gjarnan að finna í jarðvegi uppþornaðra vatna og þá sérstaklega á svæðum þar sem eldsumbrot hafa verið.

Tölvugerð mynd NASA af því hvernig Jezero-gígur gæti hafa litið …
Tölvugerð mynd NASA af því hvernig Jezero-gígur gæti hafa litið út þegar á rann um hann en greinileg merki eru um inn- og útstreymi í gígnum í dag. NASA

Sigríður Kristjánsdóttir er formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness en hún er einnig jarðskjálftafræðingur og hún segir að fram undan séu spennandi tímar þar sem nákvæmari upplýsingar um jarðfræði og jarðsögu Mars skili sér til jarðar. „Við vitum mjög lítið um innri gerð Mars,“ segir hún en auk þess sem Perseverance verður búinn borum sem geta náð góðum jarðsýnum er annar angi af könnun rauðu plánetunnar Insight-könnuðurinn, sem er búinn jarðskjálftamælum. „Jarðskjálftaupplýsingar geta gefið okkur mjög góðar upplýsingar um innri gerð Mars,“ útskýrir Sigríður. Því meira sem við vitum um jarðfræði Mars því nær komumst við því að svara spurningum um andrúmsloftið á Mars sem hvarf á einhverjum tímapunkti. 

Í myndskeiðinu hér að ofan er rætt við Sigríði og Ara Kristin um Mars og lendinguna á fimmtudag.

Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, starfaði um árabil …
Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, starfaði um árabil við bandarísku geimvísindastofnunina NASA meðal annars í verkefnum sem tengjast könnun Mars. mbl.is/Eggert

Fáir þekkja betur til þess hvernig andrúmsloftið er innan NASA þegar stórir viðburðir á borð við Marslendinguna eru í nánd en Ari Kristinn. Eftir að hafa lokið doktorsprófi frá Stanford-háskóla í Bandaríkjunum árið 1997 hóf hann störf hjá NASA þar sem hann starfaði í áratug sem vísindamaður og stjórnandi á sviðum gervigreindar og sjálfvirkni.

Ari Kristinn stýrði þróunarteymi sem hannaði hugbúnað sem notaður var til að stjórna daglegum aðgerðum Mars-jeppanna Spirit og Opportunity. Síðar meir kom hann að þróun á tækni sem nýtt er við stjórn á sólarrafhlöðum alþjóðlegu geimstöðvarinnar. Hann er nokkuð bjartsýnn á að mannaðar stöðvar verði á Mars árið 2060 líkt og kemur fram í spjallinu. Hér er hægt að sjá fyrirlestur sem Ari Kristinn hélt um Marsleiðangra í síðustu viku.

Hægt verður að fylgjast með atburðarásinni á fimmtudag í beinu streymi frá stjórnstöðinni Jet Propulsion Laboratory í Kaliforníu og mbl.is mun að sjálfsögðu fygjast vel með og segja frá gangi mála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert