Dróninn Ingenuity varð í morgun fyrsta manngerða loftfarið sem tók á loft á annarri plánetu. Dróninn sem er knúinn með sólarorku sveif upp í þriggja metra hæð þar sem hann hélst stöðugur í 30 sekúndur en flugið varði alls í tæpar 40 sekúndur.
„Ingenuity er nýjasta viðbótin við langa og sögufræga hefð NASA um að ná takmörkum við könnun geimsins sem áður voru talin ómöguleg,“ sagði Steve Jurczyk forstjóri NASA við tilefnið en flugið átti sér stað kl. 7:34 í morgun og var staðfest um tíu mínútum síðar en það er tíminn sem það tekur gögn að ferðast frá Mars til jarðar. Flugið var algerlega sjálfvirkt og ekki var hægt að fylgjast með framgangi þess í rauntíma af þessum sökum.
Flug Ingenuity er mikilvægt skref í átt að frekari könnun á rauðu plánetunni þar sem drónaflug gerir vísindafóki kleift að rannsaka mun stærra landsvæði en nú er hægt með tunglkönnuðum, sem fara ekki hratt yfir. Dróninn vegur aðeins um 1,8 kg en helsta áskorunin við flugið var þunnt andrúmsloft á Mars, sem er einungis 1% af því sem þekkist við sjávarmál hér á jörðinni.
Ingenuity er hluti af leiðangri NASA sem lenti á Mars hinn átjanda febrúar þar sem Perseverance-könnuðurinn er í aðalhlutverki. Eitt helsta markmiðið er að leita ummerkja sem staðfesta örverulíf á rauðu plánetunni en ekki síður að plægja akurinn fyrir mannaðar ferðir þangað í framtíðinni, meðal annars með því að gera tilraunir með að vinna súrefni úr koldíoxíði á Mars.
Fyrir skömmu var fjallað um Raven-verkefni NASA hér á landi sem kanadíski jarðvísindamaðurinn Christopher Hamilton leiðir, en hann gegnir stöðu prófessors (Associate Professor) við geimvísindadeild Háskólans í Arizona. Í verkefninu verður tilraunaflug með dróna sem ætlað er að nýtast við rannsóknir á Mars, eftir áratug eða svo.