Alþjóðlegir tæknirisar skulda himinháar upphæðir

Fyrirtækið Meta er móðurfélag Facebook og Instagram.
Fyrirtækið Meta er móðurfélag Facebook og Instagram. AFP

Algengt er að stór tæknifyrirtæki fái sektir fyrir verðálagningu, samkeppnisbrot eða misnotkun á gögnum en það getur hins vegar tekið þau mörg ár að greiða slíkar sektir.

Fyrirtækið Meta, móðurfélag Facebook og Instagram, skuldar til að mynda sektir upp á 2,2 milljarða dollara, sem jafngildir um 317 milljörðum íslenskra króna, sem gefnar voru út í september og eins skuldar TikTok tugi milljarða í sektir. Þetta staðfestir gagnaeftirlit Írlands við AFP-fréttastofuna.

Alþjóðlegt vandamál

Segir eftirlitið einnig að Amazon hafi enn á ný áfrýjað sekt upp á 746 milljónir evra, um 117 milljarða íslenskra króna, frá árinu 2021 og að Google mótmæli enn sektum ESB að fjárhæð um átta milljarða evra fyrir að hafa misnotað markaðsaðstöðu sína á árunum 2017 til 2019.

Þá hefur Apple barist í mörg ár gegn því að greiða sekt upp á 1,1 milljarð evra frá Frakklandi og 13 milljarða evra skatt til Írlands. 

Er vandamálið sagt stöðugt og ná til tæknifyrirtækja af öllum stærðum og gerðum, ekki bara til þeirra allra stærstu. 

Í vikunni var staðfest í Ástralíu að samfélagsmiðillinn X, áður Twitter, hafi ekki greitt sekt sem miðillinn fékk fyrir að hafa ekki gert grein fyrir áformum sínum um að útrýma efni sem sýnir kynferðisofbeldi gegn börnum. Hefur X nú höfðað gagnmálsókn.

Hafa gripið til úrbóta

Gagnrýnendur segja að það að sekta tæknifyrirtæki stöðvi ekki slæma hegðun þeirra og því sé kominn tími á róttækari aðgerðir.

Í viðtali við AFP varði Graham Doyle, fulltrúi gagnaverndar Írlands, gögn skrifstofu sinnar og sagði að sektir væru aðeins einn hluti sögunnar.

„Með miklum meirihluta þessara rannsókna sem við höfum lokið, á meðan sektirnar hafa tilhneigingu til að vekja mesta umfjöllun, höfum við einnig gripið til úrbóta,“ sagði hann.

Þá eru aðgerðarsinnar sammála um að sektir geti aðeins verið hluti af lausninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert