Skráði sig á spjöld sögunnar

Jared Isaacman horfir út í geiminn í morgun úr geimfarinu.
Jared Isaacman horfir út í geiminn í morgun úr geimfarinu. AFP/Polaris Program

Jared Isaacman varð í morgun fyrstur almennra borgara til að ganga í geimnum eftir að hann opnaði lúguna á geimfari SpaceX.

Viðburðurinn sást í beinni útsendingu á netinu og brutust út mikil fagnaðarlæti í stjórnstöð leiðangursins í Hawthorne í bandaríska ríkinu Kaliforníu þegar áfanganum var náð.

Hingað til hafa þrautþjálfaðir geim­far­ar frá rík­is­stofn­un­um stundað áhættu­sama geim­göngu sem þessa, en ekki í þetta sinn.

Í fyrradag náði leiðangurinn Polaris Dawn 1.400 km fjar­lægð frá jörðu, sem er um þris­var sinn­um lengra en þar sem Alþjóðlega geim­stöðin er stödd. Þetta er lengri vega­lengd en nokk­urt mannað geim­far hef­ur náð í yfir hálfa öld.

Sarah Gillis um borð í geimfarinu.
Sarah Gillis um borð í geimfarinu. AFP/Polaris Program

Hverjir eru um borð?

Um borð í geimfari SpaceX eru fjórir Bandaríkjamenn. Leiðtogi hópsins er auðjöfurinn Jared Isaacman, 41 árs forstjóri fjármálafyrirtækisins Shift4 Payments, sem hann stofnaði í kjallaranum heima hjá sér þegar hann var 16 ára.

Einnig eru með í för tveir starfsmenn SpaceX, þær Sarah Gillis (30 ára) og Anna Menon (38 ára). Sú síðarnefnda skrifaði barnabókina Kossar úr geimnum sem hún ætlar að lesa úr á meðan á leiðangrinum stendur. Ágóðinn af sölu hennar rennur til barnaspítala.

Geimfararnir fjórir árið 2022. Frá vinstri: Jared Isaacman, Anna Menon, …
Geimfararnir fjórir árið 2022. Frá vinstri: Jared Isaacman, Anna Menon, Sarah Gillis og Scott Poteet. AFP/John Kraus

Í geimfarinu er einnig flugmaðurinn Scott Poteet. Hann er fyrrverandi liðsmaður í bandaríska flughernum og náinn vinur Isaacman.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert