Bandarísku einkafyrirtæki tókst í dag að lenda ómönnuðu geimfari á tunglinu. Þetta er aðeins annað skiptið sem einkaaðili nær slíkum árangri – og fyrsta skipti sem fyrirtæki tekst að lenda geimfari uppréttu á yfirborði tunglsins.
Blue Ghost Mission 1 lenti klukkan 8.34 í morgun nálægt Latereille-eldfjallasvæðinu við Kreppuhaf á norðaustanverðri hlið tunglsins. Geimfarið er á vegum fyrirtækisins FireFly Aerospace, sem er staðsett í Texasríki Bandaríkjanna.
Uppskar það mikil fagnaðarlæti í stjórnstöðinni í Austin þegar framkvæmdastjóri Firefly staðfesti að geimfarið væri „stöðugt og upprétt“ – sem er andstætt því sem gerðist fyrir rúmu ári, þegar ómannaða geimfarið Ódysseifur valt um koll við lendingu. Ódysseifur var fyrsta bandaríska geimfarið til að lenda á tunglinu síðan Apólló 17 náði þeim árangri 1972.
„Við erum á tunglinu!“ hrópaði Nicky Fox, háttsettur vísindamaður hjá NASA. Ray Allensworth verkefnisstjóri sagði í samtali við blaðamenn að geimfarið hefði náð að lenda af mikilli nákvæmni innan við 100 metra frá áætluðum lendingarpunkti.
Fyrsta ljósmyndin sem geimfarið sendi til jarðar sýndi hrjúft landslag sem Blue Ghost þurfti að undirbúa lendingu á er það hægði ferðina úr þúsundum kílómetra á klukkustund niður í þrjá.
Hinn 95 ára gamli tunglfari af Apollo 11, Buzz Aldrin, fagnaði tímamótunum heiman frá sér og birti af sér myndband á samfélagsmiðlum fagna á náttfötunum.
Búist er við að Blue Ghost taki háskerpumyndir af almyrkva 14. mars þegar jörðin hindrar sólina frá sjóndeildarhring tunglsins. Þá mun geimfarið taka upp tunglsólsetur 16. mars, sem gefur innsýn í hvernig ryk sveiflast um yfirborðið undir áhrifum sólar og skapar dularfullan ljóma um sjóndeildarhring tunglsins.
Annað geimfar, Aþena frá Intuitive Machines í Texas, mun að óbreyttu lenda á tunglinu á fimmtudag, 6. mars. Aþena stefnir á að lenda sunnar á tunglinu en nokkurt fyrra geimfar hefur gert. Í farmi hennar eru þrír könnunarbílar, bor til að leita að ís og dróni.
Þessi lending kemur á viðkvæmu augnabliki fyrir NASA, þar sem vangaveltur eru uppi innan geimferðastofnunarinnar um að hætta við Artemis-tungláætlun sína í þágu þess að forgangsraða rannsóknum á Mars – sem er lykilmarkmið Donalds Trumps forseta og ekki síður náins ráðgjafa hans, stofnanda SpaceX, Elons Musks.