El Capitan frá Hewlett Packard Enterprise (HPE) er öflugasta ofurtölva í heiminum samkvæmt Top500-ofurtölvulistanum.
Tölvan er nefnd eftir samnefndu fjalli í Yosemite-þjóðgarðinum og er hýst í Lawrence Livermore National Laboratory í Kaliforníu í Bandaríkjunum.
„Reiknigeta tölvunnar á einni sekúndu er ígildi þess ef allt mannkynið framkvæmdi samlagningu eða frádrátt á hverri sekúndu í átta ár,“ útskýrir Gunnar Þór Friðleifsson, vörustjóri HPE hjá tæknifyrirtækinu OK.
Hann segir að ofurtölvan sé notuð í vísindarannsóknir, þar á meðal loftslagsrannsóknir, lyfjaþróun og kjarnorkuöryggi.
Gunnar segir að El Capitan sé byggð með 4-kynslóðar AMD EPYC-örgjörvum og AMD MI300A-hröðlum.
„Yfir 11 milljón miðvinnslueiningar (CPU og GPU) eru í ofurtölvunni, sem gefur rúm 1.742 exaflops (milljarður milljarða) í afkastagetu, en fræðilega séð getur hún náð 2.746 exaFfops.“
Sjö af tíu stærstu ofurtölvum eru byggðar á HPE/Cray-vélbúnaði og um helmingur af tölvuafli/reiknigetu 500 stærstu ofurtölva heims hefur vélbúnað frá HPE, samkvæmt Top500-ofurtölvulistanum.