Staðfesta tengsl skjánotkunar við svefnleysi

Rannsóknin byggir á norskri könnun meðal fleiri en 45.000 nemenda …
Rannsóknin byggir á norskri könnun meðal fleiri en 45.000 nemenda á aldrinum 18 til 28 ára. mbl.is

Rann­sókn hef­ur leitt í ljós að fólk sem eyðir meiri tíma fyr­ir fram­an skjá í rúm­inu er lík­legra til að fá minni svefn og þróa með sér svefn­leysi. BBC grein­ir frá. 

Rann­sókn­in bygg­ir á norskri könn­un meðal fleiri en 45.000 nem­enda á aldr­in­um 18 til 28 ára árið 2022.

Þar kem­ur fram að hver auka klukku­stund fyr­ir fram­an skjái auki lík­urn­ar á svefn­leysi um 63% og leiði til 24 mín­útna styttri svefns.

Rann­sak­end­ur sögðu þó að þeir hefðu aðeins staðfest fylgni milli skjánotk­un­ar og lak­ari svefn­gæða en ekki sýnt fram á að hið fyrr­nefnda ylli því síðar­nefnda.

Sér­fræðing­ar segja að það að leggja frá sér sím­ann fyr­ir svefn­inn, gera eitt­hvað af­slapp­andi og koma sér upp rútínu geti hjálpað til við að bæta svefn.

Ekki mun­ur á sam­fé­lags­miðlum og ann­arri skjánotk­un

Rann­sak­end­urn­ir að baki rann­sókn­inni vildu skoða tengsl­in milli þess tíma sem varið er fyr­ir fram­an skjái í rúm­inu og svefn­mynst­urs.

Þeir vildu einnig kanna áhrif sam­fé­lags­miðlanotk­un­ar á svefn sam­an­borið við aðra skjánotk­un.

Dr. Gunn­hild Johnsen Hjet­land frá Norsku lýðheilsu­stofn­un­inni er aðal­höf­und­ur rann­sókn­ar­inn­ar en niður­stöður henn­ar voru birt­ar í tíma­riti Frontiers.

Hjet­land seg­ir að teg­und skjánotk­un­ar virt­ist hafa minni áhrif á svefn­inn en heild­ar­skjá­tím­inn.

„Við fund­um eng­an mark­tæk­an mun á milli sam­fé­lags­miðla og annarr­ar skjánotk­un­ar, sem bend­ir til þess að skjánotk­un­in sjálf sé lyk­ilþátt­ur­inn í svefntrufl­un­um,“ seg­ir hún.

Næt­ur­ham­ur og birtu­stig breyta litlu

Jos­hua Piper, svefn­sér­fræðing­ur hjá Res­Med UK, sagði í sam­tali við BBC rann­sókn­ina veita verðmæt­ar sann­an­ir fyr­ir því að notk­un raf­tækja hafi nei­kvæð áhrif á svefn.

Þó að fólk reyni kannski að draga úr áhrif­un­um með því að stilla birtu­stig skjáa tækja sinna eða að nota næt­ur­ham, sagði Piper að fyrri rann­sókn­ir bentu til þess að það væri skrollið og virk notk­un tæk­is­ins sem ylli lík­lega svefntrufl­un­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert