Frá og með 27. maí mun bandaríska tæknifyrirtækið Meta, móðurfyrirtæki Instagram, Facebook og Threads, nota færslur evrópskra notenda sinna til að þjálfa gervigreindarlíkön.
Eru það færslur sem einstaklingar, þar á meðal Íslendingar, birta á miðlum Facebook, Instagram og Threads.
Fyrirtækið hyggst nýta myndir, færslur og athugasemdir sem birtar eru á miðlum þess. Einkaskilaboð verða undanþegin auk reikninga notenda sem eru undir 18 ára aldri.
Notendur miðlana geta valið að þeirra efni verði undanskilið í þjálfun gervigreindarlíkansins en allir notendur Meta-miðla munu fá tilkynningu fyrir 27. maí þar sem þeir annaðhvort samþykkja eða hafna þátttöku.
Meta áætlar að fjárfesta 60 til 65 milljörðum dollara á þessu ári. Stór hluti fjármagnsins fer í gagnamiðstöðvar, netþjóna og aðra innviði sem eru nauðsynlegir til að þróa gervigreindarlíkön.
Vonast fyrirtækið til þess að byggja öflugt gervigreindarlíkan sem muni skáka gervigreindarspjallmenninu ChatGPT.