Sævar Helgi Bragason, betur þekktur sem Stjörnu-Sævar, telur að uppgötvun teymis vísindamanna frá Cambridge-háskóla varðandi reikistjörnuna K2-18b sé ekki endilega vísbending um líf eins og þeir hafa haldið fram. Sævar fjallar um málið í færslu á samfélagsmiðlinum Facebook.
Vísindamenn frá Cambridge-háskóla greindu frá því að þeir hafi í mælingum sínum fundið sameind sem kallast dímetýl súlfíð á reikistjörnunni K2-18b sem er í 124 ljósára fjarlægð frá jörðu.
Vísindamennirnir héldu því fram að þetta væru sterkustu sönnunargögn til þess um líf utan jarðar. Það er vegna þess að á jörðu myndast sameindin einungis í tengslum við lífverur.
Sævar telur framsetningu vísindamannanna dæmi um óábyrga vísindamiðlun.
Sævar bendir á það að þrátt fyrir að dímetýl súlfíð myndist aðeins á jörðinni í tengslum við lífverur hafa sameindin samt sem áður fundist á stöðum sem eru ekki lífvænlegir, til að mynda á halastjörnum.
Hann bendir á það að þrátt fyrir að reikistjörnur eins og K2-18b gætu vel verið lífvænlegar sé ekki nægilega mikið vitað um þær eða þau ferli sem eiga sér stað í þeim. Að hans sögn gætu verið ýmsar leiðir fyrir dímetýl súlfíð að myndast í framandi umhverfi.
Að lokum segir Sævar að þrátt fyrir að upppgötvunin sé áhugaverð og spennandi, sé hún alls, alls ekki vísbending um líf eins og vísindamennirnir halda fram.
Ekki náðist í Sævar Helga við vinnslu fréttarinnar.