Blóð bandarísks manns sem hefur viljandi sprautað sig með snákaeitri í nærri tvo áratugi hefur leitt til móteiturs sem á sér „enga hliðstæðu“.
BBC greinir frá því að mótefnin sem finnast í blóði Tim Friede veiti vörn gegn bannvænum skömmtum eiturefna frá fjölbreyttum hópi snákategunda.
18 ára tilraunaverkefni Friede gæti verið stórt skref í að búa til alhliða móteitur við snákabitum.
Friede hefur þurft að þola meira en 200 bit og hefur sprautað sig oftar en 700 sinnum af snákaeitri úr hættulegustu snákum heims.
Hann hóf tilraunina árið 2001 til að byggja upp ónæmi.
Snemma í tilraunamennskunni féll Friede, sem er fyrrverandi bifvélavirki, í dá eftir að hann var bitinn tvívegis með stuttu millibili af kóbraslöngum.
„Ég vildi ekki deyja. Ég vildi ekki missa fingur. Ég vildi ekki missa úr vinnu,“ sagði Friede í samtali við BBC.
Markmið Friede var að þróa betri meðferðir fyrir heimsbyggðina.
„Þetta varð að lífstíl og ég hélt bara áfram að þrýsta og þrýsta og þrýsta eins mikið og ég gat – fyrir fólkið sem eru 8 þúsund mílur í burtu frá mér og deyja af völdum snákabits.“
Móteitur er nú búið til með því að sprauta skömmtum af snákaeitri í tilraunadýr, svo sem hesta. Ónæmiskerfi dýranna berjast við eitrið með því að framleiða mótefni sem er síðan unnið með.
Teymi vísindamanna hjá líftæknifyrirtækinu Centivax hefur undanfarin ár leitað að annars konar vörn gegn snákaeitri.
Forstjóri Centivax, Dr. Jacob Glanville, rambaði á Friede og áttaði sig strax á að hann gæti reynst ómetanlegur í uppfinningu nýs móteiturs.
Enn er mikil vinna framundan í rannsókn á móteitrinu en Friede segist ánægður.
„Ég er að gera góðan hlut fyrir mannkynið og það er mér mjög mikilvægt. Ég er stoltur.“