Fyrsti hundraðkall, eða lax sem nær máli upp á hundrað sentímetra eða meira, veiddist í gær. Nú eru síðustu dagar vorveiðinnar í Ölfusá og lýkur þeim kafla á morgun. En veiðimaður sem keypti sér sjóbirtingsleyfi í Ölfusá fékk allt fyrir peninginn í gær.
Viðkomandi vill ekki láta nafn síns getið og virðum við það. Þessi veiðimaður er hagvanur í Ölfusá og líkast til þekkja hana fáir betur. „Þegar ég mætti í gærmorgun sá ég fljótlega lax stökkva. Ég hélt að ég væri að lenda í veislu,“ sagði hinn feimni veiðimaður í samtali við Sporðaköst.
Eftir nokkur köst setti hann í stóran lax og sá hann vel en var ekki lengi með hann þegar flugan losnaði úr honum. Enn leið á daginn og þá setti hann í annan lax og eftir um það bil tuttugu taugatrekkjandi mínútur landaði hann hrygnu upp á 100,5 sentímetra. Hrygnan var þykk og mikil og tvær laxalýs voru við gotrauf.
Vitni var með þessum góðkunningja Sporðakasta sem staðfesti mælinguna og sendi okkur myndband sem ekki mátti birta en þar sést að öll skilyrði sem eðlilegt er að mæta þegar um svona fisk er að ræða, voru uppfyllt.
Hrygnunni var sleppt og hélt hún áfram sinn veg hvort sem för var heitið í Sogið eða upp á Iðu og jafnvel í Stóru–Laxá.
Flugan var heimasmíðuð og ekki fengið nafn ennþá. Síðari myndin sem fylgir fréttinni er skjáskot úr myndbandinu sem Sporðaköst fengu að skoða til staðfestingar. Hér sést vel hversu þykk og vel haldin þessi hrygna er.
Eins og aðalmyndin ber með sér er skynsamlegt að vanda myndatöku á þessum fiskum. Til dæmis ekki halda um sporðinn eins og feimni veiðimaðurinn gerir. Frekar að snúa sporðinum að myndavélinni og vera með gripið þannig að lófinn snúi að myndavélinni. Þá sést fiskurinn betur. En við óskum þessum meistara til hamingju með fyrsta hundraðkall sumarsins. Megi þeir verða margir.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |