„Laxá jarðtengir mann og endurnærir“

Árni Kristinn Skúlason skýrsluhöfundur með 63 sentimetra höfðingja úr Mývatnssveit.
Árni Kristinn Skúlason skýrsluhöfundur með 63 sentimetra höfðingja úr Mývatnssveit. Ljósmynd IB

Veiðin á urriðasvæðunum í Laxá, bæði í Mývatnssveitinni og Laxárdal hefur gengið vel þrátt fyrir bakslag í hretinu sem gerði í byrjun mánaðar. Laxárdalurinn er þekktur fyrir stóra urriða. Það orð fer af svæðinu að það gefi færri fiska en Mývatnssveitin en að jafnaði stærri fiska. Þetta er þó ekki algilt og víst geymir Mývatnssveitin líka stóra urriða. Tveir SVFR menn voru nýlega fyrir norðan og gáfu skýrslu í lok ferðar. 

„Við Mundi vorum að veiða í Mývatnssveit 13. - 16. júní og veiddum frábærlega. Veðrið lék við okkur og fór hitamælirinn á cruisernum upp í 24 gráður. Við vorum að deila stöng og fengum rúmlega tuttugu fiska upp í 65 sentímetra. Ég var mikið í „litlu“ fiskunum sem voru 45-50 en á síðustu vakt kórónaði ég ferðina með einum 63 sentímetra höfðingja í Skriðuflóa og 57 í Vörðuflóa. Mundi fékk stærsta fiskinn sem var 65 sentímetra göltur sem var vaxinn eins og einbýlishús með kjallara, hefði verið gaman að vigta þann fisk!!

Með hann. Þessir urriðar í Laxá eru svo sterkir. Árni …
Með hann. Þessir urriðar í Laxá eru svo sterkir. Árni Kristinn líkir þeim við lest þegar þeir taka af stað. Ljósmynd/ÁKS

Urriðarnir voru algjörlega hnöttóttir og tóku oftast mikil sporðaköst og rokur. Maður gleymir alltaf hversu öflugur Laxárurriðinn er, þetta er eins og að setja í lest. Ég gerði þau mistök að nota ekki nógu sterkan taum og sleit ég eftir langa baráttu við tvo gelti sem ég ályktaði á milli 65 og 70. Þá gaf Mundi mér gula spjaldið og sagði mér að setja átta punda Maxima undir - ég missti ekki fisk eftir það.
Gaman er að segja frá því að við Mundi fengum þá alla á púpur, Pheasant Tail var besta flugan og ég fékk flesta mína á stærð 14-16 á meðan Mundi fékk á 8-10. Einnig var fluga sem ég kalla Kókaín öflug og var hún í stærð 18.

Ingimundur og Árni í góðum félagsskap.
Ingimundur og Árni í góðum félagsskap. Ljósmynd/ÁKS

Það er eiginlega magnað hvernig Laxáin jarðtengir mann og endurnærir, ég held að hún sé mitt uppáhald þó að Brúará eigi mitt hjarta skuldlaust.

Á sorglegu nótunum hefur hretið sem gekk á í byrjun júní haft hræðileg áhrif á fuglalífið í sveitinni, maður rakst á dauða fugla á víð og dreif. En það var mikið fuglalíf eins og er alltaf við Laxá, við heyrðum meiri og meiri fuglasöng á hverjum degi og var yndislegt að sjá allt lifna við eftir það sem gekk á.“

Sorgleg og algeng sjón fyrir norðan. Mikill fugladauði varð í …
Sorgleg og algeng sjón fyrir norðan. Mikill fugladauði varð í hretinu. Ljósmynd/ÁKS

Mundi í skýrslunni er að sjálfsögðu Ingimundur Bergsson framkvæmdastjóri SVFR. 
Í Mývatnssveitinni er búið að færa ríflega átta hundruð urriða til bókar og sá stærsti mældist 72 sentímetrar. Laxárdalurinn er kominn með 300 fiska og sá stærsti heilir 75 sentímetrar. 

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Blanda Patrick Devennie 20. júní 20.6.
100 cm Kjarrá Sigurður Smári Gylfason 19. júní 19.6.
Veiðiárið 2023:
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert