Fjögur tilboð og hundraðkall í Blöndu

Patrick með fyrsta hundraðkallinn sem kemur á land norðan heiða …
Patrick með fyrsta hundraðkallinn sem kemur á land norðan heiða á þessari vertíð. Virkilega vel haldinn og flottur fiskur. Þorsteinn Hafþórsson leiðsögumaður mældi hann og staðfesti hundrað sentímetrana. Ljósmynd/Þorsteinn Hafþórsson

Fjögur tilboð bárust í veiðirétt í Blöndu og Svartá. Núverandi leigutaki, Starir er með Blöndu í sumar og er það síðasta ár samningsins við Veiðifélag Blöndu og Svartár. Þegar Starir lýstu því yfir að félagið vildi ekki halda áfram með ána á sambærilegum nótum ákvað veiðifélagið að bjóða út veiðiréttinn.

Fjögur tilboð bárust og bjóða allir tilboðsgjafar umboðssölu. Þeir sem buðu eru Jóhannes Hinriksson ásamt félögum, en hann rak Ytri-Rangá við góðan orðstír. Jóhannes og félagar settu líka inn fasta tölu og samkvæmt heimildum Sporðakasta var það tilboð upp á helming af því sem Blanda var leigð á í sumar. Upphæðin sem sett var fram var rétt undir fjörutíu milljónum.

Starir, núverandi leigutaki bauð í svæðið og þá undir formerkjum umboðssölu. Sama má segja um tilboð Fish Partner sem einnig hljóðar upp á umboðssölu.

Stangaveiðifélag Reykjavíkur sendi inn tilboð um umboðssölu en einungis í svæði fjögur í Blöndu og Svartá.

Guðmundur Rúnar Halldórsson, bóndi í Finnstungu er formaður veiðifélagsins og staðfesti hann í samtali við Sporðaköst að fjögur tilboð hefðu borist. „Við munum ræða við alla þessa aðila en við þurfum tíma í það. Menn eru enn að ná utan um afleiðingar af illviðrinu sem skall á okkur í byrjun júní. Ég fann síðast eina dauða kind hjá mér í gær. Hún var með júgurbólgu og lömbin hennar tvö voru hjá henni. Stálpuð lömb, mánaðargömul og óvíst hvað verður með þau. Líklegast verða þau það sem áður var kallað graslömb, en við sjáum til.

Góðu fréttirnar eru þær að heiðalöndin eru tilbúin og við förum í að smala fénu saman og keyra það fram á fjall,“ sagði Guðmundur þegar hann var spurður hvenær þetta mál yrði afgreitt.

Hann vildi ekki staðfesta töluna sem fasta tilboðið hljóðaði upp á en sagðist hafa verið fljótur að leggja það frá sér eins gerist við lestur á leiðinlegri bók.

„Ætli við klárum þetta ekki um miðjan júlí og vonandi verður búið að semja fljótlega eftir það.“

Blanda fer mjög rólega af stað í sumar. Veiði hófst það 5. júní og átta laxar hafa veiðst samkvæmt rafrænu veiðibókinni á anglingiQ.

Hundraðkall úr Blöndu í fyrradag

Hann Patrick Devennie lenti í ævintýri á Breiðunni í Blöndu í fyrradag. Hann setti í fisk sem dró hann alla leið niður í Kríueyju. „Þetta voru mikil hlaup og bæði fiskur og veiðimaður orðnir frekar lúnir. En þar var hann mældur frá snoppu og aftur í miðjan sporð og stóð akkúrat hundrað sentímetra,“ upplýsir Þorsteinn Hafþórsson leiðsögumaður í samtali við Sporðaköst.

Miklar rigningar og sú staðreynd að Landsvirkjun keyrir Blönduvirkjun hressilega gera það að verkum að Blanda hefur verið bæði skítug og vatnsmikil. Þorsteinn segir að þeir hafi séð fiska og eitthvað er að fara í gegnum teljarann. „Við erum að eltast við þá sem ganga með landi við þessar aðstæður en það er erfitt að meta hversu mikið af fiski er á ferðinni. Við fengum fyrsta smálaxinn í gær og hann var pattaralegur.“

Forvitnilegt verður að sjá hvað gerist ef árnar á NV–landi ná að sjatna og komast í kjörvatn. Hversu mikið er komið af fiski og hvort þær eiga ekki eitthvað inni.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Blanda Patrick Devennie 20. júní 20.6.
100 cm Kjarrá Sigurður Smári Gylfason 19. júní 19.6.
Veiðiárið 2023:
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert