Smálax lítur vel út – minna um stórlax

Bruno Weber lenti í ævintýrum í Norðurá. Hér er hann …
Bruno Weber lenti í ævintýrum í Norðurá. Hér er hann með þriðja laxinn sem þeir lönduðu og misstu þann fjórða á Hornbreiðu í gærkvöldi. Bruno landaði tíu löxum á þremur dögum. Kallinn var hæst ánægður sagði Brynjar Þór staðarhaldi við Norðurá. Ljósmynd/Brynjar Þór Hreggviðsson

Vikutölurnar í laxveiðinni sem birtar eru á heimasíðu Landssambands veiðifélaga, angling.is eru nú farnar að teikna upp mynstur í nokkrum ám og landshlutum. Þannig má sjá að smálax er að skila sér í Borgarfjörðinn, en víða um land og þá einkum á NV hluta landsins er tveggja ára laxinn, eða stórlaxinn ekki að koma í miklu magni.

Miðað við smálaxagöngur í fyrra átti líklegast enginn von á miklum göngum af stórlaxi, en allir vona að úr þeim rætist þar til síga fer á síðari hluta sumars. 

Smálaxinn sem er að veiðast lítur vel út og er vel haldinn. Ef allt er með felldu eiga þær göngur að halda áfram og styrkjast og vonandi hjálpa NV horninu.

En lítum á listann yfir tíu aflahæstu árnar. Vissulega er sumarið ungt og stutt síðan að sumar þeirra opnuðu en við birtum líka til samanburðar stöðuna eins og hún var um þetta leiti í fyrra. Tölurnar sem hér birtast miðast við gærkvöldið, að lokinni veiði 26. júní. Samanburðurinn frá í fyrra miðast við 28. júní þannig að allar ár eiga tvo daga inni í veiði. Fjórði dálkurinn sýnir svo veiðina í nýliðinni viku.

Vatnasvæði        Veiddir laxar        Veiðin í fyrra    Vikuveiðin

Urriðafoss               410                    225                 100

Norðurá                  267                    118                 120

Þverá/Kjarrá           171                    118                   98

Brennan                   77                      39                   49

Miðfjarðará              58                       49                   40

Stóra–Laxá              58                       39                   58

Flókadalsá               52                       31                   31

Grímsá                    52                       32                   30

Haffjarðará              49                       93                   37

Ytri–Rangá              48                        34                  48

Auðvitað er þetta víða stuttur tími og listinn á mikið eftir að breytast. Það eru nokkrir hlutir sem standa upp úr. Urriðafoss er að skila mun betri veiði en í fyrra. Á sama tíma er Norðurá með fína veiði og síðustu dagar hafa skilað dagsveiði upp á um tuttugu laxa. Þá er greinilegt að veiðin er að glæðast í Þverá og Brennan, ósasvæði hennar hefur gefið góða veiði og mun meiri en á sama tíma í fyrra. Það er ekki oft sem Brennan sést á topp tíu listanum.

Stóra–Laxá byrjar mjög vel og skilaði opnun þar fjörutíu löxum. Loks má nefna að Flókadalsá er inni á listanum og er að skila skemmtilegri veiði og mun betri en í fyrra. 

Árnar á NV landi þurfa svo sannarlega að reiða sig á að smálaxinn komi. Veiði í þessum ám hefur verið dræm síðustu daga. Fyrir utan Miðfjarðará sem virðist vera í sérflokki, þá er Vatnsdalsá að gera einna best. Ásarnir, Blanda og Víðidalur eiga allar töluvert inni, vona flestir veiðimenn.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Blanda Patrick Devennie 20. júní 20.6.
100 cm Kjarrá Sigurður Smári Gylfason 19. júní 19.6.
Veiðiárið 2023:
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert