Laxá í Aðaldal hefur gjarnan haft viðurnefnið drottningin. Hún stóð svo sannarlega undir því nafni í gær, þegar tveir af hennar stærstu hirðmönnum veiddust. Annar á hinni þekktu og rómuðu Hólmavaðsstíflu og hinn á Knútsstaðatúni.
Breski veiðimaðurinn Richard Jewell var með leiðsögumanni á Stíflunni í gærmorgun þegar sá stóri tók fluguna Valbein. Leiðsögumaðurinn sagði í samtali við Sporðaköst að eftir um það bil tíu mínútur hafi höfðinginn stokkið. „Þá áttuðum við okkur á hvað við vorum að glíma við. Laxinn reyndi að komast niður vesturræsið en ég lét Richard bakka langt upp á land og þannig náðum við að koma í veg fyrir það,“ upplýsti hann.
Hólmavaðsstíflan er eyja í ánni og fellur Laxá niður með eyjunni beggja vegna við. Flestir veiða Hólmavaðsstífluna af vesturbakkanum þó að hitt komi fyrir. Heimamenn tala gjarnan um kvíslarnar sem austur– og vesturræsi.
Viðureignin stóð í um það bil 25 mínútur. Laxinn var mældur af nákvæmni. „Við mældum hann tvisvar til að vera vissir, og Richard staðfesti málið í bæði skiptin. 101 sentímeter.“
Svo skemmtilega vildi til að höfundur flugunnar Valbeinn, var staddur í hollinu. Þetta er Þorbjörn Helgi eigandi vörumerkisins Reiða öndin. Sporðaköst settu sig í samband við öndina og báðu um mynd af Valbeini. Það var auðsótt mál. Valbeinn er sú fluga sem gefið hefur flesta laxa í Laxá í Aðaldal eða 47. Stærsti laxinn til þessa úr Laxá og á Íslandi í sumar tók einmitt líka Valbein en það var í Sjávarholu 8. júlí. Fluga sem á skilið pláss í hverju fluguboxi.
Annar slíkur höfðingi veiddist í gær við Knútsstaðatún. Við gerum betri grein fyrir þeim laxi síðar en hann mældist sléttir hundrað sentímetrar.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |