Það er stórlaxaveiði um alla Laxá í Aðaldal og það er óvenju snemmt miðað við síðustu ár í það minnsta. Fimm laxar á bilinu 99 til 103 sentímetrar hafa veiðst í ánni síðustu daga. Sá síðasti og jafnframt sá stærsti í þessari lotu sem höfum heyrt af veiddist á Miðsvæðinu í Laxá í gær. Það er í landi Jarlsstaða og Tjarnar.
Helgi Jóhannesson og Máni sonur hans veiddu þar í gær. Helgi er betur þekktur sem Helgi villimaður og það þarf enginn að móðgast fyrir hans hönd vegna viðurnefnisins. Það er tilkomið af gríðarlegum veiðiáhuga hans í gegnum áratugina.
Myndbandið sem fylgir fréttinni sýnir þegar stórlaxinn sem segir af hér stekkur nokkrum sinnum. Heyra má á köllunum í Helga, þessum reynslumikla leiðsögumanni þegar hann smám saman áttar sig á hvað við er að eiga.
Þeir feðgar byrjuðu vaktina í Spónhyl og Máni setti þar fljótlega í fisk. „Ég heyrði bara gargið í honum og flýtti mér til hans. Það stóð heima að hann var búinn að setja í fisk og við sáum strax að þetta var mjög góður lax. Við vorum með breska flugu undir, sem einn Breti hafði gefið mér þegar ég var með hann í veiðileiðsögn. Ég sagði við Mána þegar við vorum að byrja. Nú erum við komnir í Laxá og þá er það ekkert Sunray kjaftæði. Við tökum Bretann á þetta. Bretinn hafði gefið mér fullt box af breskum túbum og klassískum flugum eins og þeir nota. Ég veit ekkert hvað þessar flugur heita, en Máni valdi eina og hún virkaði svona líka vel,“ sagði Helgi i samtali við Sporðaköst.
Flugan er með koparlitaðan búk, jungle cock, rauðan haus og svartur vængur. Svo er á henni gult og koparlitað og appelsínugult stél. „Við kölluðum þessa flugu bara Mána, þegar við bókuðum laxana.“
Í sameiningu lönduðu þeir 83ja sentímetra hrygnu og gamli háfaði hana. Ekki tókst betur til en svo að hann lagði háfinn frá sér í ána rétt á meðan að þeir feðgar tóku eitt high five og svo var myndað í bak og fyrir. Háfurinn var horfinn þegar Helgi ætlað að taka hann með sér eftir sleppinguna. „Það er eins gott að við fáum ekki tuttugu pundara núna, háfslausir,“ sagði Helgi við Mána.
Næst voru það Dýjaveitur og þar setti Máni strax í lax. Sá lax slapp. „Mig var nú farið að langa að kasta líka, þannig að ég setti hann í Syðsteyjarkvísl sem er rosalega fallegur staður. Ég ætlaði sjálfur að fara aðeins neðar. Ég sagði honum að kalla ef eitthvað gerðist. Það liðu bara nokkrar mínútur og þá heyrði ég öskrað. Ég flýtti mér til hans og hann sagðist hafa séð laxinn stökkva og bakkaði þá frá honum og kastaði yfir hann og strippaði og laxinn tók í þriðja kasti,“ lýsti Helgi.
Helgi sá laxinn velta sér og hann mat þetta sem fjórtán til fimmtán punda hrygnu. Svo tók laxinn tuttugu til þrjátíu metra roku og þurrkaði sig allur upp. Þá rann upp fyrir þeim feðgum að þetta að þetta væri virkilega stór hængur. Þarna er frekar erfitt um vik að landa fiski nema hafa háf. Hár bakki og frekar erfitt að eiga við svo stóran fisk. En háfurinn var týndur. Á endanum komu þeir laxinum inn í litla vík þar sem var dautt vatn. Þar gat Helgi sporðtekið laxinn. „Ég bara öskraði þegar ég náði honum og fann og sá hvað þetta var rosalegur fiskur. Máni var langt uppi á bakkanum og sá ekki til mín þannig að hann hélt að ég hefði misst hann. En þetta var ofsalega fallegur fiskur og ekki grútleginn. Hann virðist dekkri á myndunum eins og þeir gera oft en þessi er ekki frá því snemma í júní. Hann hefur komið seinna.“
Laxinn mældist 103 sentímetrar og 51 í ummál. Þetta er næst stærsti laxinn sem veiðst hefur í Laxá það sem af er sumri. Ármann Kristjánsson, landeigandi og leigutaki á Miðsvæðinu sagði í samtali við Sporðaköst í lok júlí að drekarnir væru mættir og bara tímaspursmál hvernær þeir myndu taka.
Þeir feðgar voru eins og gefur að skilja spilandi kátir. Máni setti stöngina á bílinn og þeir köstuðu ekki meir í gærkvöldi. „Við settumst bara í grasið og nutum tilverunnar. Þetta var svo magnað. Ég var líka að útskýra fyrir Mána hvað er merkilegt að fá svona stóran fisk. Ég er búinn að veiða í áratugi og vera í leiðsögn alla vega í tuttugu ár og ég hef fengið óteljandi laxa yfir áttatíu sentímetra og tugi sem eru á bilinu 95 til 99. En minn stærsti er 99.“
Máni Freyr Helgason á afmæli í dag og verður 22ja ára. Hann heldur upp á afmælið á Miðsvæðinu í Laxá. Þeir feðgar eru að veiða í dag en afmælisgjöfin kom í gær. Sporðaköst óska Mána til hamingju með afmælið og þessa mögnuðu afmælisgjöf sem Laxá færði honum í gær.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |