Draumur sem rættist og ríflega það

Flestir veiðimenn eiga sér draum. Margir þessara drauma snúast um stóra fiska. En líka eru til draumar um að veiða tiltekna á eða veiðistað. Stundum rætast þessir draumar og það kemur fyrir að þeir rætast með þeim hætti sem enginn gat séð fyrir. Þetta er saga af draumi sem rættist og ríflega það. Leiðsögumaðurinn Björgvin Krauni Viðarsson sem alið hefur leiðsögumanninn í Laxá í Aðaldal hefur átt sér draum lengi. Hann dreymdi um að veiða lax með split cane veiðistöng og hefðbundnu Hardy hjóli af fyrstu gerð. Split cane stangir eru gerðar úr bambus og voru bestu stangir síns tíma og þóttu frábærar þegar þær komu fram.

Myndband fylgir með fréttinni af viðureigninni á Knútsstaðatúni. Þorbjörn Helgi myndar og hlær óspart að félaga sínum. Sagan er hér að neðan en hún er býsna ótrúleg.

Björgvin Krauni Viðarsson, eftir að draumurinn rættist. Hér er hann …
Björgvin Krauni Viðarsson, eftir að draumurinn rættist. Hér er hann með split cane stöngina og Hardy hjólið. Í baksýn er veiðistaðurinn og vettvangurinn Knútsstaðatún. Ljósmynd/Reiða öndin

Fyrir þremur árum færði Krauni þennan draum í tal við Hörð Filipsson. Hann vísaði málinu áfram og benti á Þorbjörn Helga, sem í daglegu tali er kallaður Reiða öndin í höfuðið á vörumerkinu sem hann bjó til, eða öfugt. Krauni vildi líka notast við flugu af gamla skólanum eins og veiðimenn veiddu á í Laxá í Aðaldal í gamla daga. Við erum að horfa til áranna eftir síðari heimsstyrjöld og hippatímans.

Krauni vildi fá listahnýtarann Hörð Filipsson til að hnýta gamla orginal flugu fyrir sig til að draumurinn gæti ræst. Hörður er hættur að hnýta þessar flugur en eftir hann liggja ófá listaverkin af þessum toga. Þorbjörn Helgi sagðist geta hnýtt fyrir hann flugur í þessum stíl. Krauni tók því með þökkum. „En hvar fær maður stöng og hjól af þessu tagi?“ spurði Krauni. Reiða öndin glotti. „Ég á svona græjur og skal lána þér þær. Línan er gömul og hjólið eins og þau voru gerð, bremsulaust.“

Þetta stöðvaði ekki Krauna. Draumur er draumur og mikilvægt að elta þá. Það varð úr í vor að Þorbjörn Helgi átti leið um fyrir norðan og mætti með split cane stöngina og Hardy hjólið. Hann hafði líka hnýtt nokkrar flugur af því tagi sem Krauna dreymdi um og útvegað fleiri.

Krauni með hundrað sentímetra fiskinn sem tók Black doktor númer …
Krauni með hundrað sentímetra fiskinn sem tók Black doktor númer 2, einkrækju. Ljósmynd/Reiða öndin

Það var svo í síðustu viku að Reiða öndin og Hörður voru í veiði í Aðaldalnum. Þeir voru staddir á Knútsstaðatúni og varð hugsað til Krauna. Þorbjörn Helgi hringdi í hann og sagði honum að koma að kíkja á þá félaga. Þeir voru búnir að eiga frábæra vakt og þremur löxum hafði verið landað. „Það er níundi ágúst. Átta gráður og skítkalt í norðan áttinni. Ertu ekki að grínast í mér. Það er sumar. Allavega á almanakinu.“

Krauni ákvað á kíkja á þá félaga. Þegar hann var lagður af stað mundi hann eftir split cane stönginni og gamla Hardy rokknum. Hann sneri við. Græjurnar fóru í bílinn og skömmu síðar var hann mættur á Knútsstaðatún. Það voru faðmlög.

„Hann var mættur á innurunum og með hattinn. Við fórum í setja græjurnar saman og það var eitthvað virðulegt við þetta. Ég vissi svo sem ekkert hvernig þessi lína væri. Við tókum á henni og hún virtist níðsterk. Þetta er tví– eða þríofin nælonlína en hundgömul. Líkast til á aldur við okkur,“ hló öndin.

Krauni var klár og þeir félagar fylgdust með þegar draumur var að rætast. Flugan sem varð fyrir valinu var ein af þeim sem Reiða öndin hafði útvegað. Black Doktor númer tvö, einkrækja. „Þetta flykki er á stærð við spún,“ hlógu þeir félagar. Krauni byrjaði að vinna út línu og var smá tíma að finna taktinn í þessari miklu, gömlu stöng. Fimmtán feta jálkur og þungur. Hardy hjólið öskraði þegar lína var tekin út. Þeim félögum fannst þetta bæði fyndið en um leið var einhver fegurð fólgin í þessu. Hardy öskrin voru endurómur gamalla tíma sem Laxá kannaðist við.

Alvöru sleggja. Stóri áhættuþátturinn í málinu var línan á Hardy …
Alvöru sleggja. Stóri áhættuþátturinn í málinu var línan á Hardy hjólinu. Ljósmynd/Reiða öndin

„Reyndu nú að setja í fisk,“ kölluðu þeir hvetjandi. Enginn átti svo sem von á því enda þeir Þorbjörn Helgi og Hörður búnir að landa þremur löxum á þessum veiðistað skömmu áður. Krauni var nú búinn að ná góðum tökum á stönginni og nálgaðist óðfluga staðinn þar sem þeir höfðu verið að setja í hann. Þegar hann var kominn á blettinn var stöngin farin að leika í höndunum á honum. Hann tók kast sem átti að fara yfir „heita blettinn“ en yfirkastaði viljandi og flugan lenti töluvert utar. Fiskur velti sér á fluguna. „Við öskruðum af kæti. Það var bingó í sal. Krauni var búinn að setja í hann.“ Hardy tók undir öskrin þegar bremsulaust hjólið fór á yfirsnúning við átök laxins.

„Við áttuðum okkur fljótlega á því að þetta var enginn gutti sem Krauni var með á hinum endanum. Þetta var svaka fiskur. Stöngin vann vel og lína hélt. Þetta var magnað. Svo landaði Krauni þessum fiski og við mældum hann. Hundrað sentímetrar.“ Þorbjörn Helgi hló og átti sjálfur nánast erfitt með að trúa því sem hann var að lýsa þó að hann hefði séð þetta allt með eigin augum.

Græjurnar. Þessi mynd gæti verið frá árinu 1960. En var …
Græjurnar. Þessi mynd gæti verið frá árinu 1960. En var tekin þann 9. ágúst 2024. Ljósmynd/Reiða öndin

Knútur Jónasson á Knútsstöðum var kominn út og fylgdist með viðureigninni. „Það var mjög gaman að þessu. Krauni var svo stressaður að spottinn myndi slitna,“ hló Knútur í samtali við Sporðaköst. Menn rifu upp síma og mynduðu þessa einstöku viðureign þar sem horfið var aftur til fortíðar. Myndbandið sem fylgir fréttinni sýnir þegar draumurinn hans Krauna rættist. Rétt í lokin þegar kemur að úrslitastundu þá er símanum snúið á hlið, sem gerir það að verkum að myndbandið snýr á hlið. Við fyrirgefum það við þessar aðstæður og mælum með að fólk halli bara höfðinu.

Þorbjörn Helgi eða Reiða öndin og Kraumi eftir að menn …
Þorbjörn Helgi eða Reiða öndin og Kraumi eftir að menn voru búnir að jafna sig eftir ævintýrið. Ljósmynd/Hörður Filipsson

Boðskapur sögunnar er hins vegar sá, að ef þú átt draum eltu hann. Það er eina leiðin til að hann rætist. Þessi draumur rættist eftir þriggja ára undirbúning og bollaleggingar. Það er óhætt að segja að hann rættist með ævintýralegri hætti en Krauni hefði getað látið sig dreyma um.

Að loknu ævintýri. Þorbjörn Helgi, Hörður Filipsson í miðju og …
Að loknu ævintýri. Þorbjörn Helgi, Hörður Filipsson í miðju og Björgvin Krauni Viðarsson. Ljósmynd/KJ
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka