Ævintýrin gerast þegar menn eiga síst von á þeim. Þetta upplifði Ármann Andri Einarsson í veiðiferð í Haukadalsá á föstudag. Hann hafði viku áður verið að veiða í Laxá í Aðaldal og viðurkennir að þar var hann að vonast eftir þeim stóra. Það gekk ekki eftir en svo gerðist það óvænta í Haukunni. Hann setti í og landaði stærsta laxinum sem veiðst hefur á Vesturlandi til þessa í sumar.
Ármann fór snemma úr húsi fyrir seinni vaktina á föstudag. Skilyrði til veiða voru frekar erfið og það var hvasst og lofthiti varla samboðinn ágústmánuði. Samt var hugur í honum og hann var búinn að landa fallegum smálaxi fyrr í ferðinni, sem mældist 61 sentímetri. Hann og félagar hans hafa veitt saman í átján ár og mörg síðustu ár hefur hópurinn verið í Haukadalsá á þessum tíma, síðla ágústmánaðar.
Á slaginu fjögur var Ármann mættur að veiðistaðnum Blóta.
„Ég var með uppáhalds stöngina mína sem ég veiði mikið á, það er nett Loop stöng fyrir línu fimm. Flotlína og svartur Frances kónn sem ég hafði fengið frá Kalla Lú fyrir nokkrum árum. Sennilega var það í um fimmta kasti í hylinn sem laxinn tók á dauðareki rétt undan gömlu brúnni. Það var deginum ljósara strax að það væri stór mótaðili á hinum enda línunnar,“ upplýsir hann um aðdraganda viðureignarinnar.
Framundan var mikið verkefni. Stöng fyrir línu fimm er ekki óska gripur þegar kemur að því að glíma við kröftugan stórlax.
„Fyrstu tvær klukkustundirnar þá lagði hann sig á botninn og fór upp í harða strauminn í Blóta til skiptis, en áin er nokkuð vatnsmikil um þessar mundir. Hann átti það til að leggjast upp við og undir klöppina undir brúnni. Það var ekki fyrr en að tveim tímum liðnum sem við fengum að sjá hann í fyrsta skipti þegar hann tók nokkrar rokur og tók myndarleg stökk með tilheyrandi ærslagangi. Það stóð svo mjög tæpt þegar við vorum búnir að ná honum niður í neðri hluta Blóta og nánast niður í veiðistaðinn Kvörnina þar sem stóð til að háfa hann, að hann tók á rás upp ána og hvarf mér sjónum og stökk svo efst í Blóta fyrir ofan brú. Við þetta spilaði hann nánast alla línu út af hjólinu hjá mér á örfáum sekúndum, það voru nokkrir hringir eftir af undirlínu.“
Þegar hér var komið sögu hafði veiðifélagana drifið að. Enda höfðu margir séð hvað í gangi þegar menn voru að halda til veiða úr húsi. Söfnuðust menn að og fylgdust með viðureigninni.
„Maður var í öruggum höndum félaganna í veiðifélaginu við þessa viðureign og löndun, en það var nánast allt hollið til staðar og tóku þátt í þessu ævintýri og strákarnar eiga stóran þátt í þessum lax og að hann komst á land við þessar aðstæður. Þetta er laxinn okkar. Fiskurinn var háfaður af mikilli fagmennsku og var það Ómar Özcan sem sá um það á mjög öruggan hátt.“
Mikill fögnuður braust út þegar tröllvaxinn hængurinn var kominn í háfinn. Mæling leiddi í ljós að hængurinn var 102 sentímetrar. Sá stærsti til þessa í sumar á Vesturlandi. Myndataka fór fram. Bæði hópmyndir og vönduð myndataka af veiðimanni og stórlaxinum. Hann fékk svo góðan tíma til að jafna sig áður en honum var sleppt á nýjan leik í Blóta. Viðureignin stóð í tvær og hálfa klukkustund.
Ármann lét gott heita á þessari vakt og skellti sér í heita pottinn þar sem hann náði sér niður og jafnaði sig í 38 gráðum. Stórlaxinn þurfti líka sinn tíma en hann var í Blóta við sjö gráður. Þar með lauk veiðisumrinu 2024 hjá Ármanni og ekki hægt að enda það á betri nótum.
Hollið var samtals með átta laxa og nokkrir voru misstir. Eins og gefur að skilja var þetta hápunktur ferðarinnar og ekki spillti fyrir að nánast allir upplifðu ævintýrið. Þegar endirinn er góður er það eitthvað sem allir gleðjast yfir. Nú eru uppi vangaveltur um hvort þetta sé mögulega stærsti lax sem veiðst hefur í Haukadalsá síðari ár, eða jafnvel frá upphafi. Sporðaköst hafa ekki upplýsingar um það en gaman væri að heyra frá fólki sem hugsanlega hefur veitt svo stóran eða stærri lax í Haukadalsá.
Veiði í Haukadalsá hefur verið góð í sumar og mun betri en í fyrra. 319 laxar hafa veiðst þar til þessa. Á sama tíma í fyrra voru laxarnir 207. Það er ríflega fimmtíu prósent aukning milli ára.
Sporðaköst óska Ármanni Andra til hamingju með þennan glæsilega höfðingja úr Haukadalsá.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |