Uppi voru vangaveltur um helgina hvort að 102 sentímetra hængurinn sem Ármann Andri Einarsson veiddi á föstudag, væri stærsti lax sem veiðst hefur í Haukadalsá. Svarið við þeirri spurningu er einfalt. Nei, hann er ekki sá stærsti. Vissulega einn af þeim allra stærstu sem heimildir finnast um en ekki sá stærsti.
Sumarið 2014 setti Ásgeir Magnús Ólafsson í stórlax í veiðistaðnum Lalla í Haukadalsá. Það reyndist risavaxinn hængur og tók míkró hitch–túbu. Þessum fiski var landað og mældist hann 106 sentímetrar. Í frétt mbl.is frá þeim tíma segir að leigutakar Haukadalsár telji þennan fisk þann stærsta sem veiðst hefur í ánni í mörg herrans ár.
Ásgeir sagði í samtali við Sporðaköst að umræddur lax sem hann veiddi 2014 hafi þá verið sá stærsti úr Haukadalsá sem hann hafði séð skráðan. Ásgeir var í leiðsögn við ána í mörg ár með föðurbróður sínum Torfa Ásgeirssyni sem var staðarhaldari við ána í góða tvo áratugi
Sumarið eftir, veiddi Teitur Stefánsson 102 sentímetra lax í Berghyl og var krýndur Stórlax ársins hjá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur um veturinn. Teitur fékk stórlaxinn sinn 22. ágúst, sumarið 2015. Ármann Andri veiddi 102 sentímetra laxinn 23. ágúst. Síðari hluti ágúst er greinilega tíminn í Haukadalsá til að reyna að setja í þá allra stærstu.
En til eru fleiri frásagnir af stórlaxaveiði í Haukadalsá. Sigurður Hauksson sendi Sporðaköstum mynd sem tekin var af afa hans Sigurði Helgasyni, eftir góða veiði í Haukadalsá. Þar heldur Sigurður á 21 punda hrygnu. Hægra megin á myndinni er svo góður dagsafli. Myndin er svart/hvít og tekin löngu áður en veiða og sleppa ruddi sér til rúms.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |