Laxá í Dölum er að eiga frábært sumar. Hún stendur nú í 920 löxum og stóru Dalahöfðingjarnir eru farnir að láta sjá sig. Þannig veiddi Hafþór Jónsson stærsta lax sumarsins í morgun. Var það hængur sem tók Sunray Shadow í veiðistaðnum Hornsteinum. Hann mældist 101 sentímetri og ummálið á honum var 52 sentímetrar.
Skjöldur Orri Skjaldarson eða Skjöldur lögga, eins hann er jafnan kallaður, enda lögreglumaður á Vesturlandi er einnig leiðsögumaður á sumrin við Laxá. Hann segist ekki muna svona jafna og góða veiði í Dölunum í háa herrans tíð. „Svo er komin náttúra í kallana og þeir eru farnir að verða árásargjarnir. Þessi stóri í Hornsteinum vitnar um það og svo kom einn 95 sentímetra í síðasta holli.“
Þetta er rétt hjá leiðsögumanninum. Enn eru nokkrir dagar eftir af ágústmánuði og fara þarf aftur til ársins 2010 til að finna svo góða veiði að Laxá í Dölum hafi náði þúsund löxum í ágúst. Það gerðist síðast 25. ágúst sumarið 2010, en þá komst hún í 1001 lax. Skjöldur er sjálfur að fara að veiða í næsta holli. „Stefnan er sett á pönnukökulax. Við byrjum á fimmtudag og vonandi næst það.“
Sá siður að baka pönnukökur þegar þúsundasti laxinn veiðist er skemmtilegur og breiðist út. Þetta hefur verið gert í nokkur ár í Ytri Rangá og fleiri ár eru nú farnar að gera þetta. Enda hvað er hátíðlegra en volgar upprúllaðar pönnukökur með sykri? Jú kannski rjómapönnukökur, en um það eru skiptar skoðanir.
Hollið sem Skjöldur vitnar til er skipað Dalamönnum og hefur veitt Laxá um langt skeið. Spenningurinn var alveg greinanlegur hjá löggunni, enda veit um nokkra stóra sem hann ætlar að kíkja á. „Það er mjög stór fiskur í Höfðafljóti. Einn stór í Þegjandakvörninni og einnig í Leiðólfsstaðakvörninni og Svartfossi. Við ætlum að kíkja á þá,“ hló Skjöldur.
Þegar heimamenn mæta sem gjörþekkja ána er ekki ólíklegt að einhverjir af þessum Dalabröndum verðir mældir næstu daga.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |