Stefnubreyting hefur orðið hjá stærsta landeiganda og jafnframt leigutaka vatnasvæðis Vatnsár sem rennur úr Heiðarvatni, skammt frá Vík í Mýrdal. Árum saman voru umfangsmiklar sleppingar á laxaseiðum stundaðar í Vatnsá. Árangurinn hefur verið misjafn og sum ár tekist vel til. Þannig komu ár þar sem Vatnsá var full af laxi og veiðin mikil. Svo komu síðri ár. Nú hefur verið ákveðið að hætta sleppingum á laxaseiðum og horfa til þess að efla sjóbirtinginn á vatnasvæðinu. Segja má að Vatnsá sé náttúruleg sjóbirtingsá en þar hefur í gegnum árin verið laxastofn en ekki farið mikið fyrir honum.
Nú er fyrst og fremst horft til þess að styðja við sjóbirtinginn og efla hann með hrognagreftri og sleppingum á kviðpokaseiðum.
Svisslendingurinn Rudolp Lamprechts eða Rudy er eigandi Heiðardalsins og Vatnsár og hefur hann einnig leigt Kerlingadalsá sem Vatnsá rennur í. Mikill sjóbirtingur hefur verið á öllu svæðinu og veiðist hann á þessum tíma einn helst í vatninu. Erfitt getur verið að eiga við hann í Vatnsá, sem er frekar vatnslítil að öllu jöfnu. Besta veiðin er oft í skilunum þar sem Vatnsá og Kerlingadalsá mætast og ekki síður í sjálfri Kerlingadalsánni en það getur farið eftir hversu lituð hún er. Kerlingadalsáin er jökulá en á köldum dögum getur hún verið býsna tær.
Teljari er í Vatnsá og hafa í sumar farið í gegnum hann ríflega fimm hundruð sjóbirtingar. Ásgeir Arnar Ásmundsson hefur annast sölu á veiðileyfum á svæðinu og staðfesti hann í samtali við Sporðaköst að nú væri fyrst og fremst horft til þess að efla sjóbirtinginn á svæðinu. „Með veiða og sleppa höfum við séð að birtingnum ekki bara fjölgar, heldur er orðið mikið af mjög stórum fiski. Hann er mikið að veiðast í vatninu og þó að teljarinn segir fimm hundruð fiskar þá höfum við séð að í miklu vatni, eins og verið hefur í sumar þá fer fiskur einnig framhjá teljaranum. Það var maður að veiða Vatnsá og vatnið fyrr í haust og hann sá torfu af fiski fyrir ofan teljarann en það hafði enginn fiskur skráðst þann sólarhringinn,“ upplýsti Ásgeir.
Og vissulega eru þeir stóru á sveimi í þessu magnaða vatnakerfi. Sá stærsti sem Sporðaköst hafa frétt af í haust veiddi einmitt í Kerlingadalsá fyrr í mánuðinum. Það var 95 sentímetra sjóbirtingur og veiddist hann nokkuð neðan ármóta Vatnsár og Kerlingadalsár.
Síðustu ár hafa mjög stórir sjóbirtingar farið í gegnum teljarann í Vatnsá og þó nokkrir þeirra hafa náð hundrað sentímetrum.
En hvernig gengur að selja í Vatnsá þegar hún er ekki lengur flokkuð sem laxveiðiá?
„Það hefur vissulega orðið breyting á viðskiptamannahópnum. Sumir hafa hætt en aðrir komið í staðinn. Veiðin í ánni sjálfri hefur verið frekar dræm í sumar en Heiðarvatn hefur verið mjög gott. Við bendum veiðimönnum á að veiða vatnið líka því þar er mjög góð von á stórum sjóbirtingum. Við erum uppseld í haust þannig að við getum ekki kvartað,“ segir Ásgeir.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |