Drjúgur hluti veiðileyfasala, landeigenda og leigutaka hefur svarað fyrirspurn Sporðakasta um fyrirhugaðar verðbreytingar á laxveiðileyfum, næsta sumar. Flestir horfa til hóflegra hækkana sem taka mið af verðlagsþróun, en þó má finna undantekningar í báðar áttir.
Leigusamningar um laxveiðiár eru margir hverjir verðtryggðir og hækka þá í samræmi við vísitölu. Þessu er þó afskaplega misjafnlega farið. Í sumum samningum sem, Sporðaköst þekkja er þessi verðtrygging ekki fullgild. Þannig hefur verið samið um ákveðna prósentuhækkun milli ára á samningstíma eða jafnvel fastar krónutöluhækkanir milli ára. En kíkjum á svörin, eftir hinum ýmsu ám. Fyrst eru það Strengir, sem eru með Hrútafjarðará og Jöklu á leigu.
Hrútafjarðará
Verðin hækka um 10 - 15% næsta sumar. Þröstur Elliðason, sem rekur Strengi segir að það komi vegna þess að leigusamningur um Hrútafjarðará er verðtryggður en vegna erfiðs sumars í fyrra var verðið fryst síðasta sumar, þannig að tvöföld verðtrygging kemur nú ofan á verðið. „Því miður verður ekki komist hjá þessum hækkunum fyrir næsta sumar,“ upplýsti Þröstur í svari við fyrirspurninni.
Jökla
Leigusamningurinn um Jöklu hækkar næsta sumar. Hækkanir á veiðileyfum verða á bilinu 10 - 25% af þeim sökum. Fleiri kostnaðarliðir telja í þessu að sögn Þrastar. Þannig eru auknar seiðasleppingar í hliðarár Jöklu að kosta sitt. Þær sleppingar eiga að vega upp á móti yfirfalli úr Hálslóni, komi til þess. Þröstur tekur fram að þær hækkanir sem verða í Jöklu komi til fyrri hluta sumars, en verðskráin eftir miðjan ágúst er óbreytt frá því í fyrra.
Fæði og gisting í Veiðihúsinu Hálsakoti mun hækka á bilinu 20 – 30% næsta sumar. Þröstur segir þetta koma til af því að ráðist hafi verið í miklar endurbætur og þjónustustig hækkað. Ekki verði komist hjá því að setja þann kostnað að einhverju leiti út verðlagninguna.
„Verð á veiðileyfum í Stóru Laxá verður óbreytt á milli ára. Einhverjar verðtilfærslur voru á milli holla, sum hækkuðu aðeins á meðan önnur lækkuðu, en brúttó engin hækkun,“ svaraði Finnur Harðarson, leigutaki fyrirspurn um verðbreytingar.
Verð á gistingu og fæði á neðra svæðinu fer úr 37,900 krónum á mann miðað við 2 í herbergi og verður 42,900 næsta sumar.
„Það verða óbreytt verð á veiðileyfum á öllum okkar svæðum. Það eina sem hækkar er fullt fæði og gisting úr 34 í 37 þúsund krónur per mann per dag,“ upplýsti Jóhann Davíð Snorrason, framkvæmdastjóri Kolskeggs sem leigir ofangreindar ár.
Við erum að hækka að meðaltali um 5% á öllum ársvæðum, sum tímabil eru að hækka örlítið meira en önnur, svaraði Helga Kristín Tryggvadóttir rekstrarstjóri Six Rivers Iceland. Húsgjald er að hækka um 5% í Hofsá og Selá. Hækkunin er meiri í Miðfjarðará og kemur það til vegna nýja veiðihússins sem byggt var við ána.
Ingimundur Bergsson, framkvæmdastjóri Stangaveiðifélags Reykjavíkur sagði að almennt væru verðskrár félagsins að hækka um 6 – 8%.
Hann tók Langá sem dæmi en þar eru hækkanir á bilinu 2 – 10%, misjafnt eftir tímabilum. Mývatnssveitin hækkar um 6 – 10%. Misjafnt eftir tíma.
Þá eru upptalin svörin sem hafa borist. Við höfum áður rakið breytingar sem standa fyrir dyrum í Blöndu, en þar hefur ný rekstraraðili boðað lækkun.
Ef fleiri svör berast munum við gera grein fyrir þeim.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |