Einkar vegleg veiðibók er væntanleg í verslanir þegar líður á nóvember. Þetta er bók um urriðasvæðin í Laxárdal og Mývatnssveit. Bókin heitir því látlausa en viðeigandi nafni Laxá. Undirtitillinn er svo býsna lofandi. Lífríki og saga mannlífs og veiða. Veiðistaðalýsingar í Mývatnssveit og Laxárdal.
„Útgefandi bókarinnar er Veraldarofsi ehf. og á bak við útgáfuna standa sjö forfallnir unnendur urriðasvæðanna í Laxárdal og Mývatnssveit sem hafa með áratuga viðveru sinni við Laxá myndað mikil tengsl við ána og umhverfi hennar, náttúruna, lífríkið og mannfólkið sem þar býr. Það eru þessi tengsl sem á endanum ráku þá til að skrifa bók um þessa einstöku á og upplifun hópsins af Laxá og umhverfi hennar og miðla veiðimönnum og náttúruunnendum af ríkulegum innistæðum í minningarbanka hópsins,“ segir í fréttatilkynningu frá útgáfunni.
Hátt hlutfall veiðimanna hefur veitt í Laxárdalnum og Mývatnssveit. Margir hafa upplifað á eigin skinni að það tekur tíma að ná sambandi við þetta magnaða veiðisvæði. Þessi bók mun án flýta fyrir þeim kynnum hjá þeim sem eru enn að uppgötva þetta magnaða svæði. Um efnistök og höfunda segir eftirfarandi í tilkynningu frá útgefanda.
„Lýsingar á veiðisvæðum og veiðiskapur eru meginþráður bókarinnar en sögur af mannfólki við ána og fróðleiksmolar af bændum og samferðamönnum þeirra á ýmsum tímum gefa hverju svæði aukið gildi. Þeir Sigurður Magnússon og Ásgeir H. Steingrímsson lýsa veiðisvæðunum í Mývatnssveit og Laxárdal af einstakri þekkingu og innsæi og lýsingunum fylgja 18 ný endurgerð veiðikort með veiðistaðamerkingum og frábærum loftmyndum Jóns Aðalsteins Þorgeirssonar ásamt myndum af veiðimönnum í glímu við hinn einstaka urriða sem í Laxá býr. Er ekki að efa að veiðistaðalýsingar þeirra félaga ásamt kortum og myndum eiga eftir að veita veiðimönnum dýpri og betri innsýn í undraheim Laxár og nýtast vel til stefnumóta við urriðann. Jón Aðalsteinn og Baldur Sigurðsson skrifa um sögu urriðaveiðanna frá landnámi til okkar daga og rita þætti af veiðum heimamanna gegnum tíðina og taka einnig viðtöl við veiðimenn síðari tíma ásamt umfjöllun um veiðiaðferðir, flugur og fleira. Prófessor Gísli Már Gíslason ritar afar fróðlegan kafla um lífríki Laxár og Jón Benediktsson bóndi á Auðnum fjallar um Laxárdeiluna frá nýju sjónarhorni og ritar að auki kafla um æskuminningar sínar í Laxárdal. Loks eru birt skrif Stefáns Jónssonar Gengið með ánni. Bókin er 306 blaðsíður og er ríkulega skreytt loftmyndum og myndum af veiðistöðum, umhverfi árinnar, veiðimönnum, flugum o.m.m.fl. Bókinni ritstýrir Jörundur Guðmundsson.“
Þá er ógetið aðkomu Friðriks Þ. Stefánssonar þess gamla SVFR forkólfs sem annaðist söfnun mynda og utanumhald að mörgu leiti. Friðrik er einn af útgefendum bókarinnar og á að baki viðamikla veiðireynslu á þeim svæðum sem bókin tekur til.
Nafn útgáfunnar, Veraldarofsi ehf er viðeigandi en það er nafn á veiðistað í Mývatnssveitinni. Dramatísk nafn sem á býsna mikla skírskotun í ástand heimsmála í dag. En veiðistaðurinn er á svæði sem kennt er við Geldingaey og skammt frá þeim magnaða veiðistað sem Brunnhellishróið er.
Stangaveiðifélag Reykjavíkur er í dag með urriðasvæðin í Laxárdal og Mývatnssveit á leigu. Veiðin þar í sumar var góð og ljóst að urriðinn er að dafna eins og best verður á kosið. Búist er við að bókin komi í verslanir upp úr 20. nóvember en fram til þess tíma er forsala í gangi á bókinni og hefur verið opnuð sérstök síða þar sem áhugasamir geta pantað bókina. Um þennan þátt segir í tilkynningu frá útgáfu.
„SVFR, SVAK og Ármenn hafa öll sterka tengingu við urriðasvæðin í Laxárdal og Mývatnssveit í nútíð og fortíð og studdu útgáfu bókarinnar af myndarbrag. Er vísað á heimasíður þessara þriggja stangaveiðifélaga um nánari upplýsingar um bókina og forsölu hennar til félagsmanna á heimasíðunni www.laxarbokin.is.“
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |